2.8 C
Selfoss

Besti árangur Íslendings í skotfimi á Ólympíuleikum

Vinsælast

Hákon Þór Svavarsson hefur lokið keppni í leirdúfuskotfimi með haglabyssu á sínum fyrstu Ólympíuleikum, en seinni dagur undanrásanna fór fram í Châteauroux á laugardag.

Hákon endaði í 23. sæti af 30 keppendum með 116 stig. Aðeins sex efstu komust í úrslit.

Fyrstu þrjár umferðir undanrásanna fóru fram síðasta föstudag, þegar Hákon skaut 75 skotum og hitti 69 þeirra. Á laugardag skaut hann 50 skotum til viðbótar í tveimur umferðum.

Í fyrri umferðinni á laugardag hitti Hákon 22 skot af 25 og var því með 91 stig fyrir síðustu umferðina, sem setti hann í 26. sæti. Hann náði svo fullu húsi, 25 stigum, í lokaumferðinni og lauk keppni með 116 stig. Þetta er besti árangur Íslendings í þessari grein á Ólympíuleikum.

Áður hafði Alfreð Karl Alfreðsson fengið 111 stig og lent í 47. sæti á Ólympíuleikunum í Sydney.

Nýjar fréttir