-8.3 C
Selfoss

Kaldur og hrakinn á bökkum Hólmsár

Vinsælast

Á sunnudag voru björgunarsveitirnar Lífgjöf í Álftaveri og Stjarnan í Skaftártungum kallaðar út vegna neyðarkalls frá ferðalangi á Fjallabaksleið syðri. Tilkynningin kom frá ferðalangi við Hólmsá, sem sá ferðamann í Jimny-bíl lenda í vandræðum við hinn bakkann. Vegna mikils vatnselgs treysti tilkynnandinn sér ekki yfir ána. Ökumaður Jimny-bílsins komst þó út úr bílnum og upp á bakka.

Björgunarsveitirnar Lífgjöf og Stjarnan fóru báðar á vettvang, hvor frá sínum bakkanum, til að tryggja aðstoð beggja vegna árinnar ef ekki væri fært að vaða hana. Pálmar Atli Jóhannesson, formaður Stjörnunnar, sagði að hann hefði sjaldan séð jafn mikið vatn í Hólmsá og þennan dag.

Ökumaðurinn var fluttur í hlýjan björgunarsveitarbíl en hann var kaldur og hrakinn þegar aðstoðin barst. Bíllinn var hins vegar skilinn eftir í ánni, þar sem hann virtist hafa strandað á grjóti eða einhverju og hreyfðist ekki. Björgunarsveitarmenn reyndu að ná bílnum upp úr ánni en fundu ekki botn milli bílsins og bakkans.

Ferðalangurinn hafði náð einhverjum farangri sínum upp á bakka og þáði far með björgunarsveitarbíl til byggða, þar sem hann átti bókaða gistingu í nágrenni Kirkjubæjarklausturs.

Nýjar fréttir