-5 C
Selfoss

Hlátur, grátur, gæsahúð, gleði, geðshræring og allur pakkinn á Rokkveislu

Vinsælast

Fyrsta Rokkveisla Radda úr Rangárþingi fer fram á Hellu þann 15. ágúst næstkomandi, en þau hafa áður haldið fjóra tónleika með svipuðu sniði. „Við erum með húsband og fáum til liðs við okkur söngvara sem allir taka 1-2 lög. Söngvararnir eru úr öllum áttum, blanda af tónlistarmönnum sem koma reglulega fram og þeim sem hafa ekki mikla reynslu en allir hafa þeir það sameiginlegt að geta heillað áheyrendur með rödd sinni,“ segir Glódís Margrét Guðmundsdóttir, einn skipuleggjenda Rokkveislunnar, í samtali við Dagskrána. 

Auk Glódísar stendur Eiríkur Vilhelm Sigurðarson að baki Rokkveislunni. Glódís sér um allt sem viðkemur tónlistinni og æfingum, spilar í hljómsveitinni og sér um útsetningar ásamt hljómsveitarmeðlimum og Eiríkur sér um að skipuleggja umgjörð tónleikanna, búnað, miðasölu, bar og uppsetningu.

Öll flóran í rokki

„Þetta er í fyrsta skipti sem Rokkveislan er haldin en Raddir úr Rangárþingi hafa hingað til haft ekkert sérstakt þema, fyrir utan jólatónleikana sem við héldum 2022. Við höfum lagt mikið upp úr fjölbreytni og höfum fengið söngvara úr flestum stílum tónlistar og viljum líka að flytjendahópurinn endurspegli fjölmenningarsamfélagið Rangárþing Ytra. Rokkveislan býður upp á alla flóruna í rokki, allt frá dauðametal yfir í rockabilly,“ segir Glódís.

Þá segir Glódís húsbandið svipað og áður en að nú bætist þær Árný Gestsdóttir og Bergrún Anna Birkisdóttir við í bakraddir. Hljómsveitina skipa þau Glódís Margrét Guðmundsdóttir á hljómborð, Steinn Daði Gíslason á trommur, Gústav Ásbjörnsson á gítar, Gunnar Bjarki Guðnason á bassa, Kristinn Ingi Austmar á gítar og bakraddir, Dana Ýr Antonsdóttir á gítar og bakraddir. „Svo höldum við í hefðina með leynigesti eins og á fyrri tónleikum en þeir hafa aldrei verið fleiri en nú, á alls konar hljóðfæri og í alls kyns hlutverkum. Við erum með í kringum 20 söngvara sem allir taka eitt lag og endum svo tónleikana á því að allir komi saman í nokkur lög. Það eru þessi lokalög sem margir eru spenntastir fyrir, það er ótrúlega magnað að fá að taka þátt í þeim flutningi.“

Söngvarar sem koma fram á rokkveislunni eru þau Svala Norðdahl, Aron Birkir, Árný Gestsdóttir, Gestur Ágústsson, Arilíus Marselínuson, Sigurður Matthías Sigurðarson, Berglind Sara Guðrúnardóttir, Darri Sig, Steindór Tómasson, Arnór Óli Simonsen, Stefán Orri Gíslason, Bjarki Eiríksson, Bjarnveig Björk Birkisdóttir, Bergrún Anna Birkisdóttir, Jói Jóhannsson, Gísella Hannesdóttir, Agnieszka Karchut, Kristinn-Midian Lovecraft Helgason og Ásthildur Bjarkadóttir. Kynnar kvöldsins eru Eiríkur Vilhelm Sigurðarson og Eydís Hrönn Tómasdóttir.

„Fátt betra en að stússast saman í tónlist“

Aðspurð um undirbúning fyrir Rokkveisluna segir Glódís hann fyrst og fremst snúast um æfingar, sem hafi gengið virkilega vel. „Þetta er náttúrlega það skemmtilegasta sem við í hljómsveitinni og söngvararnir gerum og maður er alltaf endurnærður eftir æfingar, það er fátt betra en að stússast saman í tónlist. Við erum reyndar sammála um að lagavalið í ár sé það allra skemmtilegasta hingað til og á hverri æfingu fer maður í gegnum hlátur, grát, gæsahúð, gleði, geðshræringu og allan pakkann.“

„Gleðin sem við fáum út úr því að taka þátt í svona verkefni er ómæld,“ segir Glódís aðspurð um áhrif tónleikanna á samfélagið í Rangárþingi. „Við höfum heyrt frá tónleikagestum að viðbrögðin hjá þeim séu þau sömu, gleðin og gæsahúðin allsráðandi. Þakklæti kemur líka upp í hugann ef talað er um viðbrögð frá samfélaginu, en við höfum fundið vel fyrir því eftir hverja tónleika en einnig þegar langt líður á milli þá fáum við oft spurningar um það hvort ekki sé að koma að næstu Raddatónleikum. Viðbrögðin hafa verið hreint út sagt ótrúleg og við erum virkilega þakklát fyrir aðsóknina og áhuga fólks á tónleikunum.“

Stærra húsnæði fyrir tónleikaþyrsta Rangæinga

Tónleikarnir verða í fyrsta sinn haldnir í íþróttahúsinu á Hellu og verða þeir langstærstu hingað til hvað varðar allan búnað og umfang. Það seldist upp á síðustu tvo tónleika og komust færri að en vildu svo okkur fannst liggja beint við að færa okkur í stærra húsnæði til að allir tónleikaþyrstir Rangæingar kæmust að. Hingað til hafa tónleikarnir verið haldnir á Stracta þar sem barinn hefur verið opinn og þökkum við Stracta fyrir gott samstarf. Tónleikagestir þurfa þó ekki að örvænta, við opnum að sjálfsögðu bar í íþróttahúsinu fyrir rokkveisluna,“ segir Glódís og hlær.

Aðspurð um áskoranir sem fylgi undirbúningnum segir Glódís: „Það er svo mikill kraftur í öllum sem koma að þessum viðburði, þetta er jú það skemmtilegasta sem maður gerir svo við svífum í gegnum áskoranir sama hverjar þær eru. Það er mikil vinna að umbreyta íþróttahúsi í tónleikahöll en með ómetanlegri aðstoð frá Rangárþingi ytra og öllu fólkinu sem kemur að tónleikunum verður þetta allt saman leikur einn og bara gaman.“

Miðasala er hafin inn á tix.is/rur og einnig er hægt að sjá frekari upplýsingar um viðburðinn á Facebook síðunni „Raddir úr Rangárþingi’“

Það var mikil stemning á tónleikunum í fyrra og ekki við öðru að búast en að hún verði margfölduð í ár.

Nýjar fréttir