3.9 C
Selfoss

Öll flóra uppsveitanna rædd í nýjum hlaðvarpsþætti

Vinsælast

Jónas Yngvi Ásgrímsson, íbúi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, fór nýlega af stað með nýjan hlaðvarps/podcastþátt, Uppsveitakastið.

„Uppsveitir Árnessýslu eiga margt sameiginlegt. Sem dæmi þá ráku sveitirnar saman heilsugæslustöð í Laugarási og eins er sameiginlegur byggingafulltrúi þar. Sveitirnar eiga fleira sameiginlegt heldur en það sem sundrar. Eitt er samt þó sem vantar og það er vettvangur fyrir upplýsingar um sveitirnar í heild sinni. Því datt mér í hug að það gæti verið sniðugt að stofna Podcast-þátt sem fjallaði um málefni tengd uppsveitunum þar sem hægt væri að fjalla um menn og málefni, starfsemi og hvernig lífið væri í uppsveitunum. Þannig varð Uppsveitakastið til,“ segir Jónas í samtali við Dagskrána.

Frelsi til að vera eigin dagskrárstjóri

Jónas hefur áður komið lítillega að gerð þátta fyrir útvarp. „Podcast höfðaði hins vegar til mín sem form sem hægt er að leika sér með. Frelsið sem manni er veitt til að gera þátt eftir eigin höfði og vera eigin dagskrárstjóri er eitthvað sem ekki er hægt að bjóða upp á hjá hefðbundnum útvarpsstöðvum.“

Jónas er viðskiptafræðingur að mennt og hefur sömuleiðis lært viðburðastjórnun í Háskólanum á Hólum. „Fyrirtækið sem ég vinn hjá heitir Abbey Road ehf. og vinnur helst við aðstoð fyrirtækja varðandi notkun á viðskiptahugbúnaði eins og DK-hugbúnaði. Eins vinn ég við bókhald og tengda þjónustu. Uppsveitakastið er svona hliðarverkefni.“

Fyrsti viðmælandi Jónasar í Uppsveitakastinu var Bessi Theodórsson. „Bessi hefur undanfarin ár verið að gera skemmtilega hluti með Flúðir um Versló. Þegar ég var í námi í viðburðastjórnun gerði ég verkefni um Flúðir um Versló og þar sem verslunarmannahelgin var fram undan þótti mér það liggja beint við að kynna Flúðir um Versló fyrir íbúum uppsveitanna. Bessi er bóngóður og tók strax vel í að vera fyrsti viðmælandi og hjálpa mér þannig af stað með Uppsveitakastið.“

Góð ráð frá frænda

Aðspurður um undirbúning þáttagerðarinnar segir Jónas hann hafa gengið vonum framar. „Ég hef leitað til frænda míns, Ásgríms Geirs Logasonar, sem haldið hefur úti vinsælum podcast þáttum eins og Betri helmingurinn með Ása og fengið hjá honum góð ráð varðandi svona þætti. Að öðru leyti hefur þetta verið lærdómur af netinu og spjall við góða einstaklinga sem veitt hafa góð ráð.“

„Þar sem Uppsveitakastið á að vera efni tengt uppsveitum Árnessýslu eru viðmælendur fyrst og fremst valdir eftir því hvaða tengingar þeir hafa við uppsveitirnar,“ segir Jónas varðandi val á viðmælendum. „Þannig þótti mér gott að fjalla um Flúðir um Versló en ég hef líka í huga að fá oddvita eða sveitarstjóra sveitarfélaganna í uppsveitum til að mæta og spjalla um sveitarfélagið sem þeir eru í forsvari fyrir. Eins mun ég leita í smiðju sagnameistara og fá hann til að segja frá liðinni tíð. Fyrirtækjaeigendur fá möguleika til að kynna fyrirtæki sín, félagasamtök, kórar o.fl. Eins hef ég áhuga á að taka á hitamálum og má þá nefna málefni eins og flutning heilsugæslunnar úr Laugarási að Flúðum en efnið þarf alltaf að tengjast uppsveitunum. Í næsta þætti mun Haraldur Þór Jónsson, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps, mæta og ræða almennt um sveitarfélagið og hvað er á döfinni og fljótlega mun Erla Björg Arnardóttir koma og ræða um fyrirtæki sitt Góð hugmynd og áhugamál sitt sem er ferðamennska í uppsveitum. Fleiri viðmælendur eru tilbúnir til að ræða m.a. starf Lions-klúbba og fleira í þeim dúr.“

Þá segir Jónas það hafa lengi blundað í honum að gera hlaðvarpsþætti. „Og þessi hugmynd um Uppsveitakast var að gerjast í kollinum á mér. Í sumar sá ég auglýstan podcast mixer sem ég keypti mér og í framhaldinu fékk ég mér míkrófóna og það er í raun galdurinn. Upptökumixerinn er af gerðinni Tascam Mixcast 4 og ég hef möguleika á allt að fjórum míkrófónum og þrem öðrum tengjum þannig að ég get tekið viðtal í gegnum síma eða tölvu. Eins er þessi búnaður það lítill að hann kemst fyrir í bakpoka og því hægt að fara nánast hvert sem er til að taka upp þætti.“

Jónas átti von á að erfitt yrði að ná inn viðmælendum og hugmyndum að efni en segir uppástungur hafa flogið inn. „Og mér sýnist að helst verði um að ræða að eiga erfitt með að koma öllum að,“ segir hann og hlær. „Undirtektir hafa farið fram úr björtustu vonum og eru yfir 100 manns búnir að hlusta á þennan fyrsta þátt. Ég tel það frekar gott fyrir fyrsta þátt sem gerður er fyrir þröngan hóp hlustenda um afmarkað efni. Ég hef fengið einungis jákvæð viðbrögð þar sem menn hafa lýst yfir ánægju með framtakið. Eins hef ég fengið ábendingar um viðmælendur auk þess sem nokkrir hafa haft samband við mig og boðist til að koma og kynna verkefni sem þeir standa fyrir.“

Umsvifin meiri en hann gerði ráð fyrir

„Þegar ég lagði upp með þáttinn gerði ég ráð fyrir að geta komið með þátt kannski einu sinni í mánuði. Viðbrögðin og viðtökurnar hafa hins vegar gert það að verkum að ég ákvað að koma með nýjan þátt á tveggja vikna fresti með möguleika á að auka við þegar eitthvað kemur upp á. Markmiðið er að búa til þætti þar sem ýmis fróðleikur kemur fram um starfsemi í uppsveitum Árnessýslu og fjallað er um menn og málefni á vitrænan hátt.“

Áhugasömum viðmælendum er bent á að hægt er að senda skilaboð á Facebook-síðu þáttarins, Uppsveitakastið, og þar verða tillögurnar teknar fyrir og haft samband við þá sem lagt er til að fá í spjall og áhugi kannaður. „Eins má hringja í mig eða bara spjalla við mig um áhugaverð málefni,“ segir Jónas brosandi að lokum.

Smelltu hér til að hlusta á Uppsveitakastið

Nýjar fréttir