1.1 C
Selfoss

Hliðartaska

Vinsælast

Við erum með tvær gerðir af grófu garni frá DMC úr endurunninni bómull. Eco Vita er gert úr fíngerðu prjónaefni, lipru og mjúku fyrir prjón og hekl, no 10-12 og Nova Vita 12 sem er þéttprjónaður þráður og hentar í hnýtingar, prjón og hekl, no 12.

Hér kemur uppskrift að tösku úr Nova Vita 12 sem er bæði prjónuð og hekluð. Notaðar eru tvær dokkur, í sýnishorninu er ein grá og ein svört. Garnið er nýtt upp til agna.

Geymslunæla eða snúra, lokhringur eða tala 8 sm og nál. Hringirnir eru úr lökkuðum við og fást í mörgum litum.

Skammstafanir:

sl = slétt

br = brugðið

ll = loftlykkja

ó-sl = takið fyrstu lykkjuna fram af prjóninum óprjónaða eins og eigi að prjóna hana slétta.

ó-br = takið fyrstu lykkjuna fram af prjóninum óprjónaða eins og eigi að prjóna hana brugna.

Aðferð:

Byrjað er á að prjóna framhliðina neðan frá og upp og síðan bakhliðina sömu leið en þá er í leiðinni prjónað í jaðarinn á framstykkinu og síðan er lokið prjónað, kantur heklaður og ólin prjónuð.

Framhlið:

Heklið 20 ll með gráu. Notið síðan prjóninn til að safna upp 19 lykkjum, einni í gegnum hverja ll. Alls eru þá 20 lykkjur á prjóninum. Prjónið til baka, ó-sl, 18 lykkjur brugðið og síðustu lykkjuna slétta. Prjónið því næst slétta umferð, ó-sl og 19 sl. Haldið áfram til skiptis með sléttar og brugðnar umferðir og endið á sléttri umferð, alls 23 umferðir. Geymið lykkjurnar á nælu eða snúru.

Bakhlið:

Byrjið á seinni dokkunni og sækið 20 lykkjur í hina hliðina á loftlykkjunum í botninum, frá réttunni. Prjónið síðan sl l í neðsta hnútinn í hliðinni á framstykkinu.

Prjónið til baka á röngunni, ó-sl, 1 br og þeirri fyrstu brugðið yfir hana. Prjónið áfram brugðið út umferðina og gerið síðan sl l í neðsta hnútinn í hliðinni (í næstu umferðum er farið í næsta hnút).

Á réttunni er hér eftir ó-sl, næsta prjónuð slétt og þeirri fyrstu brugðið yfir hana. Prjónað sl út umferðina og ein að lokum í næsta hnút í hliðinni.

Í síðustu tveimur umferðunum er enginn hnútur og þá er prjónað í efstu endalykkjuna úr framhliðinni. Síðasta umferðin ætti að vera á röngunni.

Lok:

Fyrst eru prjónaðar fjórar umferðir þannig:

*ó-sl, prjóna sl út umferðina

ó-br, prjóna br út umferðina.*  * endurtekið.

Næsta umferð er á framhliðinni og þá er byrjað að stytta umferðirnar til að fá halla á lokið.

Ó-sl og svo sl þangað til ein lykkja er eftir og þá er snúið við. ó-br og prjónað áfram brugðið þangað til ein lykkja er eftir og þá snúið við. Prjónið áfram slétt og brugðið á sama hátt og alltaf einni lykkju skemur. (Endalykkjurnar safnast þannig á hliðarnar og eru heklaðar í lokin.) Síðasta umferðin á að vera slétt og 7 lykkjur eftir og lítið eftir af garninu. (Gert er ráð fyrir því að lokhringurinn sé festur með afgangsgarni og þarf í það 30 cm og um 10 cm til að ganga frá endanum.)

Heklaður kantur:

Losið síðustu lykkjuna sem var prjónuð á framstykkinu af geymslunælunni og notið sem fyrstu lykkju í að hekla kantinn. Heklið fastalykkjur, fyrst í kantlykkjurnar á lokinu og svo í lykkjurnar sem urðu eftir á prjóninum við það að skilja þær eftir til að gera hallann. Þegar komið er að síðustu prjónuðu lykkjunni fremst á lokinu eru gerðar 4 loftlykkjur og síðan keðjulykkja í fjórðu fastalykkjuna til baka. Þá eru gerðar fjórar fastalykkjur utan um loftlykkjurnar og síðan haldið áfram með fastalykkjur í lykkjurnar niður hina hliðina á lokinu. Síðan eru gerðar fastalykkjur í allar lykkjurnar á framstykkinu.

Axlaról:

Setjið lykkjuna á prjón og sækið tvær til viðbótar í kantinn. Snúið við ó-br, prjónið eina brugna l og síðan eina slétta. Á réttunni er gert eins nema miðjulykkjan er prjónuð slétt. Prjónið þar til 25 cm eru eftir af garninu. Lykkið endann fastan í hina hliðina.

Frágangur:

Gangið frá endunum.

Leggið saman endann sem á að festa lokahringinn með og bregðið lykkjunni í hringinn og síðan endana í gegnum hana og herðið að. Stingið endunum sinn hvorum megin við miðjuna í 14. umferð á framhliðinni. Gerið góðan hnút á þá á röngunni en gefið um 2 cm slaka fyrir hringinn.

Að lokum er gott að þvo töskuna og leggja til þerris.

Hönnun: Alda Sigurðardóttir

Nýjar fréttir