3.9 C
Selfoss

Gleðistund að Kvoslæk í Fljótshlíð

Vinsælast

Maður um mann – um skúlptúra Steinunnar

Steinunn Þórarinsdóttir flytur fyrirlestur um verk sín í Hlöðunni að Kvoslæk í Fljótshlíð laugardaginn 27. júlí klukkan 15.00.

Steinunn hefur starfað sem myndlistarmaður í 45 ár. Hún hefur unnið að fígúratífum skúlptúr frá byrjun ferils síns. Það markaði strax verkum hennar ákveðna sérstöðu í íslenskum myndlistarheimi.

Steinunn hlaut BA-gráðu í myndlist frá Háskólanum í Portsmouth í Bretlandi. Hún stundaði framhaldsnám í Listaakademíunni í Bologna á Ítalíu og kom heim frá námi árið 1980. 

Steinunn hefur haldið einkasýningar víða um heim í söfnum, galleríum og á opinberum stöðum svo sem í Bretlandi, Þýskalandi, Ítalíu, Svíþjóð, Kanada, Danmörku og Bandaríkjunum. Stórar útiverkasýningar Steinunnar hafa verið á torgum og opinberum stöðum í mörgum heimsborgum svo sem London, Kaupmannahöfn, New York og Chicago. Tvær farandsýningar á verkum Steinunnar hafa ferðast vítt og breitt um Bandaríkin frá árinu 2007. 

Verk Steinunnar eru í opinberum og einkasöfnum víða um heim. Á Íslandi má t.d. nefna Reykjavíkurborg, Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Listasafn Kópavogs, Seðlabanka Íslands, Kristskirkju, Kópavogskirkju, Menntaskólann við Hamrahlíð, Menntaskólann í Reykjavík, Menntaskólann á Akureyri, Hafnarfjarðarbæ, Grundarfjörð, Sandgerði o.fl.

Steinunn hefur á löngum ferli hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar svo sem starfslaun ríkisins, styrki frá Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar og Myndstefi, 1. verðlaun í samkeppni um listaverk í Stjórnsýsluhúsið á Ísafirði, 1. verðlaun fyrir altaristöflu í Kópavogskirkju og 1. verðlaun fyrir listaverk í Leifsstöð.

Forseti Íslands sæmdi Steinunni riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2009 fyrir framlag sitt til íslenskrar og alþjóðlegrar myndlistar. Steinunn hlaut heiðursdoktorsnafnbót frá Háskólanum í Hull í Bretlandi árið 2017. 

Myndir af verkum Steinunnar má sjá á heimasíðu hennar: www.steinunnth.com

(Steinunn)Ljósmynd: Art Bicnick

 

Nýjar fréttir