-4.4 C
Selfoss

Ný fataverslun opnar í Hveragerði

Vinsælast

Icemart Souvenirs, ný fataverslun opnaði formlega í Hveragerði í dag, fimmtudaginn 18. júlí. Verslunin, sem staðsett er í Sunnumörk 2 og er afrakstur samstarfs milli Icewear og Ólafar Ingibergsdóttur, einnig þekkt sem Lóa.

„Ég og Icewear stöndum að þessu í samvinnu. Frábært samstarf, ég hef verið með vörur frá þeim í um 3 ár og það er mjög gott að vinna með þeim, þannig að það var engin fyrirstaða að fara í samstarf,“ sagði Lóa í samtali við Dagskrána.

Lóa og Icewear sáu tækifæri í því að opna verslunina þegar Upplýsingarmiðstöðin flutti úr Sunnumörk. „Við sáum tækifæri í þessu bili sem losnaði þegar Upplýsingarmiðstöðin fór úr Sunnumörk, sem er á besta staðnum í verslunarmiðstöðinni, að gera flotta búð sem er með úrval bæði fyrir ferðamenn og heimafólk. Frábært úrval af minjagripum og útivistarfatnaði,“ segir Lóa.

Fjölbreytt úrval á sanngjörnu verði

Verslunin mun bjóða upp á fjölbreytt úrval fatnaðar og vörumerkja frá Icewear á sanngjörnu verði. „Í versluninni mun fólk finna vörur á sanngjörnu verði, sem Icewear hefur ávallt verið með. Svo munum við sjá hvernig markaðurinn verður og vera í takt við hann,“ sagði Lóa. Þegar hún var spurð um hvað geri þessa verslun einstaka, svaraði hún einfaldlega: „Viðskiptavinurinn er númer eitt.“

Lóa er ánægð með að hafa tækifæri til að þjónusta Sunnlendinga í nýju versluninni. „Ég elska að þjónusta fólk og er heppinn að hafa fengið að vinna við það sem ég elska, bæði með bakaríið og Römlu og svo þessa verslun. Ég hlakka til að taka á móti öllum Sunnlendingum, verið hjartanlega velkomin í Sunnumörk 2 í Hveragerði.“

Hveragerði getur því hlakkað til nýrrar verslunar sem mun þjóna bæði heimamönnum og ferðamönnum með fjölbreyttu úrvali fatnaðar og minjagripa. En samkvæmt Lóu munu þau skella í opnunarhátíð sem allra fyrst.

Ljósmynd: Dagskráin/BRV
Ljósmynd: Dagskráin/BRV
Ljósmynd: Dagskráin/BRV
Ljósmynd: Dagskráin/BRV

Nýjar fréttir