Íslands-, bikar- og deildarmeistarar Hamars í blaki karla taka þátt í CEV challenge cup næsta vetur, en CEV er þriðja stærsta keppni Evrópska blaksambandsins, næst á eftir Champions league og CEV Cup Evrópukeppninni. Keppnin er útsláttarkeppni þar sem leikið er heima og heiman. Búið er að draga í fyrstu umferð og fengu Hamarsmenn VC Limax Linne, silfurliðið í efstu deild og bikarkeppninni í Hollandi. Leikirnir munu fara fram á bilinu 8. til 17. október. Nánari staður og stund skýrist síðar.
Hamarsmenn gengu jafnframt á dögunum frá ráðningu nýs þjálfara. Egill Þorri Arnarsson hefur nú tekið við liðinu en hann hlaut blakuppeldi sitt hjá Stjörnunni í Garðabæ. Egill hefur mikla þjálfarareynslu en hans síðustu verkefni voru þjálfun liðs Álftaness í efstu deild kvenna auk þess sem hann var aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins nú í vor og hafði þar áður verið aðstoðarþjálfari hjá kvennalandsliðinu.