3.9 C
Selfoss

Ribeye-steik með kartöflusalati og chimichurri

Vinsælast

Það var Marín Hergils Valdimarsdóttir sem sigraði í flokki áhugamanna í grillkeppni Kótelettunnar í ár. Hér deilir Marín uppskriftinni með Sunnlendingum. Njótið!

Fyrir mér snýst matargerð um að njóta þess að búa matinn til, stress er alveg bannað í eldhúsinu eða við grillið. Mér finnst fátt skemmtilegra en þegar maðurinn minn og börnin okkar, þegar þau eru hjá okkur, sitja við eldhúsborðið og kjafta við mig á meðan ég útbý matinn og ég tala nú ekki um hvað það er gaman að sjá þegar þeim líkar maturinn vel. Ég fæ eitthvað svona rosa kikk út úr því að gefa fólki og dýrum að borða, og er algjört matargat sjálf. Ég er nú bara nýlega farin að vera einhver grillari að ráði, en nautakjöt hef ég eldað mikið undanfarið þar sem maðurinn minn er með nautgriparækt. Ég var því mjög ánægð þegar í ljós kom í grillkeppninni að próteinið yrði nautaribeye. Áður fyrr var ég voða mikið fyrir meðlætisvesen og sósur. En í seinni tíð minni, mér finnst að meðlætið megi ekki taka yfir diskinn, kjötið á að vera aðalnúmerið á disknum og rétt kryddað og vel eldað kjöt þarf enga sósu. Ég ákvað því að hafa einfalt meðlæti en vildi að það væri samt skemmtilegt fyrir bragðlaukana svo ég ákvað að gera frískandi kartöflusalat og spicy chimichurri. 

Kartöflusalat

  • 500 g litlar íslenskar kartöflur
  • Dill 
  • Steinselja (þessi flata) 
  • Skarlóttulaukur
  • Gúrka ca. 1/3 (fræ hreinsuð)
  • Graslaukur
  • ½ sítróna (bara safinn) 
  • ½ hvítlaukur (þessi stóri sem fæst í litlu körfunum) 
  • 1 dós sýrður rjómi (ég nota 36%) 
  • 1 msk. majónes (mér finnst því miður Hellman´s miklu betra en það íslenska, en annars reyni ég alltaf að kaupa íslenskt)
  • 1 msk. Dijon-sinnep
  • 1 msk. Vogaídýfa
  • Salt og pipar
  • Góð ólífuolía

Kartöflurnar eru soðnar, kramdar og raðað á ofnplötu, dass af olíu og salti og piprað og inn í ofn með dúllurnar í 190C° í 15-20 mín eða þangað til þær eru vel krispí en ekki brenndar.

Á meðan er öllu hráefninu hrært saman af ást og alúð í skál og því leyft að bíða inni í ísskáp. Hér verður hver að smakka fyrir sig hversu mikið af kryddjurtunum menn og konur vilja. En ég setti heldur mikið af dilli í salatið og mæli ég því með að setja frekar minna í einu og smakka sig til. Þegar kartöflurnar eru orðnar kaldar þá er mál að hræra þeim út í dressinguna og klippa svo smá graslauk yfir í restina til skrauts. Ég tók eina sour cream og onion pringles flögu og muldi smátt yfir sem smá auka kröns.

Ribeye-steik

  • Olífuolía
  • SPG krydd
  • Smash style hamborgarakrydd frá Íslandsnauti
  • Þeytt smjör með íslensku sjávarsalti

Berið olíu á kjötið og kryddið svo á alla kanta. Ég notaði vel af SPG og smá af Smash style-kryddinu bara til að gefa bragðinu smá dýpt. Ég myndi segja að hlutföllin séu ¾ SPG og ¼ Smash style frá Íslandsnaut. Þá er kjötinu skutlað á funheitt grillið og því lokað á alla kanta. Svo er hitinn lækkaður eða settur á minni heitan flöt á grillinu og kjötinu snúið af og til. Margir velja að nota kjöthitamæli, en mér finnst best að nota grilltöngina til að pota í kjötið annað slagið og þegar maður finnur að kjötið er hætt að vera mjúkt og farið að spyrna á móti þá er það tilbúið. Því næst er klípa af smjörinu sett yfir kjötið og því leyft að hvíla undir álpappír.

Chimichurri

  • Dass ólífuolía 
  • Handfylli steinselja (þessi flata)
  • Safi úr ½ lime
  • 1 msk. óreganó
  • Hvítlaukur eftir smekk
  • 1 tsk Cajun Taco-krydd frá Sante Maria
  • Salt 
  • Saxið kryddjurtirnar smátt og blandið öllu saman. Voila!

Setjið kjötið og kartöflusalatið á disk, setjið smá Chimichurri yfir kjötið og NJÓTIÐ!

Nýjar fréttir