-10.3 C
Selfoss

Englar og menn halda áfram á sunnudaginn

Vinsælast

„Engill með húfu“ er yfirskrift þriðju tónleika tónlistarhátíðarinnar Englar og menn sem haldnir verða nk. sunnudag kl. 14 í Strandarkirkju í Selvogi. Ungstirnin Hanna Ágústa Olgeirsdóttir sópran, Steinunn María Þormar sópran og Birgir Stefánsson tenór stíga þar á stokk og með þeim leikur Jón Sigurðsson á píanó. Á fjölbreyttri efnisskrá þeirra eru íslensk sönglög eftir Sigfús Einarsson, Steinunni Þorvaldsdóttur, Hildigunni Rúnarsdóttur, Inga T. Lárusson o.fl., aríur eftir G. Puccini og G. Bizet og trúarleg verk eftir J.S. Bach og C. Gounod.

Yfirskrift tónleikanna er lína úr ljóði Jónasar Hallgrímssonar „Ég bið að heilsa“ sem hann orti 1844 og flutt verður á tónleikunum.

Aðgangseyrir er kr. 4.000 og miðasala er við innganginn. Tónleikarnir eru styrktir af Uppbyggingarsjóði Suðurlands og Kaffihúsinu / Pylsuvagninum í Selvogi, þar sem kjörið er að gæða sér á góðum veitingum að tónleikum loknum.

Hanna Ágústa lauk bakkalárprófi frá Tónlistarháskólanum Felix Mendessohn Bartholdy í Leipzig sumarið 2022. Hún hefur tekið þátt í uppsetningum og á tónleikum hér heima og víðar í Evrópu. Hún söng meðal annars einsöng með Sinfóníuhljómsveit Íslands eftir að hafa borið sigur úr bítum í keppninni Ungir einleikarar árið 2021 á vegum Listaháskóla Íslands og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Í desember síðastliðnum söng hún hlutverk Óla Lokbrár í uppfærslu Kammeróperunnar á Hans og Grétu í Tjarnarbíói sem fékk til að mynda tilnefningu til barnasýningar ársins á Grímunni. Í vetur tók hún þátt í söngkeppninni Vox Domini og hreppti fyrsta sætið í opnum flokki og þar að auki nafnbótina Rödd ársins. Hanna Ágústa er Listamanneskja Borgarbyggðar árið 2024.

Steinunn María Þormar hóf sellónám hjá Sigurði Bjarka Gunnarssyni í Tónmenntaskólanum í Reykjavík þegar hún var 8 ára gömul. Eftir grunnpróf lá leiðin í Tónlistarskólann í Reykjavík (nú Menntaskóli í Tónlist) þar sem Sigurgeir Agnarsson kenndi henni. Þegar Steinunn var 13 ára fór hún í fyrsta söngtímann hjá Þórunni Guðmundsdóttur og var þá ekki aftur snúið. Fyrst um sinn var hún í hálfu söngnámi meðfram sellóinu en fyrr en varði var hún komin í tvöfalt tónlistarnám. Vorið 2020 lauk hún framhaldsprófi bæði í sellóeinleik og einsöng. Ári síðar lauk hún tveimur burtfararprófum í sömu fögum. Haustið 2021 hóf Steinunn nám sitt í Listaháskóla Íslands. Hún útskrifaðist úr söngdeild og hljóðfæraeinleikaradeild LHÍ 14. júní síðastliðinn. Kennarar hennar þar voru sellóleikarinn Sigurgeir Agnarsson, söngvararnir Hanna Dóra Sturludóttir, Kristinn Sigmundsson og Dísella Lárusdóttir og píanistinn Matthildur Anna Gísladóttir.

Steinunn er ein af stofnmeðlimum kammerhópsins Stundarómur sem hefur verið starfræktur síðan 2022. Hópurinn hefur komið fram víða nú síðast á tónlistarhátíðinni Seiglu sumarið 2023. Sumarið 2023 hlaut hún styrk úr nýsköpunarsjóði námsmanna til þess að vinna að verkefninu The Icelandic Art song, anthology for all singers með dr. Caylu Rosché.

Jón Sigurðsson stundaði píanónám hér heima og svo í Þýskalandi og Bandaríkjunum þar sem hann lauk meistaragráðu í píanóleik. Á undanförnum árum hefur hann leikið víða á Íslandi en einnig í Evrópu og Bandaríkjunum. Jón kemur reglulega fram á tónleikum en hann hefur leikið einleik í píanókonsertum eftir Beethoven og Mozart og komið fram með fjölmörgum hljóðfæraleikurum og söngvurum. Út hafa komið fjórir geisladiskar með leik hans. Á þeim er að finna m.a. verk eftir Scriabin, Moszkowski, Barber, Strauss, Schumann, Mozart og Kaldalóns.

Nýjar fréttir