-5.5 C
Selfoss

Höfuðstöðvar Náttúruverndarstofnunar á Hvolsvelli

Vinsælast

Það er ástæða til að gleðjast fyrir okkur Sunnlendinga, en með samþykkt Alþingis 22. júní sl., annars vegar lög um Náttúruverndarstofnun, og hins vegar lög um Umhverfis- og orkustofnun, var ákveðið að höfuðstöðvar nýrrar Náttúruverndarstofnunar verði á Hvolsvelli. Þetta eru stór tíðindi fyrir íbúa í Rangárþingi eystra og okkur öll.

Náttúruverndarstofnun er ný stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar og Umhverfis- og orkustofnun er ný stofnun Orkustofnunar og Umhverfisstofnunar. Báðar stofnanirnar taka til starfa 1. janúar nk. Ákveðið hefur verið að höfuðstöðvar nýrrar Umhverfis- og orkustofnunar verði á Akureyri. Markmiðið með þeirri ákvörðun er að stuðla að því að starfsfólk starfi í auknum mæli á landsbyggðinni í grennd við viðfangsefnið sem í þessu tilfelli er náttúra landsins, umhverfi og auðlindir.

Fjöldi fastra starfsmanna hjá hverri hinna nýju stofnana verður um eða yfir 100 manns og eru stofnanirnar nú þegar með 20 fastar starfsstöðvar eða gestastofur víða um land. Tekið skal fram að höfuðstöðvar Vatnajökulsþjóðgarðs verða áfram á Höfn í Hornafirði, en þær voru færðar þangað 2022

Eitt af markmiðum í vinnu við stofnanabreytingar ráðuneytisins er að fjölga störfum á landsbyggðinni. Því er niðurstaðan sú að höfuðstöðvar nýrra stofnana verði ekki staðsettar á höfuðborgarsvæðinu. Sú niðurstaða hefur þó ekki þá þýðingu að starfsmenn viðkomandi stofnana þurfi að flytja sig um set í sínum störfum heldur verða ný störf auglýst á höfuðstöðvum eða öðrum starfsstöðvum viðkomandi stofnunar á landsbyggðinni.

Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands kveður ráðherra á um aðsetur stofnunar sem undir hann heyrir, nema á annan veg sé mælt í lögum. Áður en ákvörðun um flutning á aðsetri stofnunar er tekin skal ráðherra gefa Alþingi skýrslu um fyrirhugaðan flutning. Byggir lagaheimild þessi á þeim grunni að ákvörðunarvald um aðsetur stofnunar sé eðlilegur hluti af stjórnunarheimildum ráðherra gagnvart stofnunum sem undir hann heyra. Þar sem um nýjar stofnanir er að ræða og ekki kveðið á um aðsetur höfuðstöðva þeirra í þeim lögum sem um stofnanirnar gilda er ekki um að ræða flutning á aðsetrum að ræða og því er ekki þörf á að gefa Alþingi skýrslu.

Það er sannarlega þakkarvert að Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra taki þessa ákvörðun í ljósi þess mikilvægis að efla stöðu landsbyggðarinnar og færa þær stofnanir sem næst þeirra helstu starfs- og athafnasvæðum. Nýlega varð stofnunin Land- og Skógur til með sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar og sú stofnun er með aðsetur í Gunnarsholti í öflugri starfsstöð en þar situr forstjóri stofnunarinnar, Ágúst Sigurðsson. Land og skógur er þekkingarstofnun á sviði gróður- og jarðvegsauðlinda og stuðlar að sjálfbærri nýtingu þeirra og er stofnunin með starfstöðvar víða um land.

Það er fagnaðarefni að þekkingarstofnanir festi rætur á landsbyggðinni og eins að störfum án staðsetningar fjölgi og hefur það gerst í tíð núverandi ríkisstjórnar. Það er mikilvægt að haldið verði áfram á sömu braut. Ég hef oft í opinberri umræðu, á fundum og heimsóknum mínum í stofnanir bent á mikilvægi þess að ekki þurfi atbeina ríkisvaldsins, ráðherra eða Alþingis til að fjölga störfum og tækifærum á landsbyggðinni. Þannig geta stofnanir eins og Landsvirkjun og Orkustofnun haft aðsetur í byggðum nálægt mikilvægustu virkjunum landsins sem eru flestar á Suðurlandi. Þeim skilaboðum hefur verið komið á framfæri og eru ítrekuð hér.

Nú eru stigin raunveruleg skref sem skipta máli og því ber sérstaklega að fagna og þakka fyrir.

Ásmundur Friðriksson
alþingismaður.

Nýjar fréttir