Nýlega var listamaðurinn Juan Pictures Art fenginn til að fegra fallega umhverfið í miðbæ Selfoss enn frekar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann sinnir þessu verkefni en á síðasta ári málaði hann 14 mismunandi listaverk þar sem hann breytti hversdagslegum hlutum og færði þeim nýtt líf. Til dæmis breytti hann rafmagnskassa í mjólkurbíl og brunahana í trúðaís. Blaðamaður Dagskrárinnar náði tali af Juan og fékk að kynnast þessum áhugaverða listamanni aðeins betur.
„Ég lærði myndlist á Spáni en flutti til Íslands til að þróa mig áfram sem veggmyndalistamaður. Það eru alltaf einhver skemmtileg verkefni að finna á Íslandi og þrátt fyrir veðrið, þá er íslenska samfélagið alltaf tilbúið fyrir nýjar útimyndir,“ segir Juan í samtali við blaðamann Dagskrárinnar. Hans helsti innblástur hverju sinni er staðurinn sem hann er að mála á, en umhverfið og menningarlegur bakgrunnur móta hann einnig í listasköpunarferli sínu.
Bókastiginn uppáhaldsverkið hans á Selfossi
Juan segir að hann hafi verið fenginn af aðstandendum miðbæjar Selfoss til að lýsa upp nýja miðbæjarsvæðið með listaverkum þar sem hann breytir hversdagslegum hlutum í skemmtilegar hugmyndir. Í nýjustu verkunum hans má meðal annars finna Parísarspil og ruslatunnur gerðar að litlum verum, en hans uppáhaldsverk í miðbænum er bókastiginn. „Bækurnar í stiganum eru úrval af því besta sem íslensk bókamenning hefur upp á að bjóða. Bókmenntir hafa þann eiginleika að lyfta okkur á hærra plan, þannig mér fannst það frábær sjónræn myndlíking að nota stigann sem bókakápur. Einnig er þetta frábær virðingarvottur til allra höfundanna, sem gerir stigann að mínu uppáhaldsverki í miðbænum,“ segir Juan.
Það er óhætt að segja að samfélagið á Selfossi sé mjög hrifið af listaverkunum hans en á dögunum deildi hann myndum af listaverkunum á lokaðri íbúasíðu á Facebook og leyndi lofið sér ekki í athugasemdunum hjá íbúum. „Markmiðið mitt er að listaverkin mín færi áhorfendum bros og skapi einstakar minningar,“ segir Juan að lokum.
Juan leynist víða
Selfoss er ekki eini viðkomustaður Juans á Suðurlandi en það má einnig finna listaverk eftir hann hjá Ölverki í Hveragerði þar sem hann málaði stóran útivegg skreyttan blómum og apa, að sjálfsögðu haldandi á bjór. Einnig hefur hann sinnt nokkrum verkefnum í Vestmannaeyjum.
Það verður spennandi að sjá í framtíðinni hvað þessi hæfileikaríki listamaður mun bjóða Sunnlendingum og Íslendingum öllum upp á. Vonandi eigum við eftir að sjá sem flest verk eftir hann í okkar nánasta umhverfi.
Áhugasamir geta fylgst með verkum Juans á Instagram-síðunni hans @juanpicturesart.