Ingvar Jónsson er sunnlenski matgæðingur vikunnar.
Ég þakka Bjarna fyrir að koma þessum bolta yfir á mig.
Ég veit fátt betra en að eyða tíma í eldhúsinu og þá sérstaklega að taka á móti fólki í mat. Þegar minn kæri vinahópur Flopp hittist kemur fátt annað til greina en brakandi stökkir og sterkir kjúklingavængir og auðvitað vegan-vængirnir úr Krónunni eða blómkál fyrir suma.
Hot wings
Undirbúningur vængja daginn áður:
Vængir skornir í þrjá parta, gott er að nýta endann í kjúklingasoð. Vængirnir settir í pækil í 24 tíma.
Uppskriftin er fyrir ca. 6 manns og miðar að þremur bökkum af vængjum og ég vona að magn hluta í uppskriftinni passi vel en ég fer sjaldnast eftir uppskriftum sjálfur. Það er þó einfalt að bæta við flestu hérna ef það klárast.
Pækill:
- 6 bollar vatn
- ¼ bolli hvítvínsedik
- ¼ bolli þurrkað chilli
- 1/3 bolli borðsalt
- 1/3 bolli sykur
- 2 msk. hvítur pipar
- 2 msk. nýmalaður svartur pipar
Ég þurrka vængina svo í um klukkutíma áður en ég elda þá til að þeir þorni nokkuð vel og séu ekki kaldir í steikingu.
Gott er að hita olíu með háu brunastigi í 170°C á svipuðum tíma og byrjað er að hjúpa vængina.
Vængirnir fara fyrst í kryddað hveiti, því næst í súrmjólkurlög og svo aftur í hveiti. Best er að hafa hráefnin í þremur skálum í þeirri röð sem ég fór yfir hér að framan.
Kryddað hveiti:
- 3 bollar hveiti
- 1 bolli kornsterkja
- 1 bolli krydd eftir smekk. Stundum nota ég tilbúna Cajun-kryddblöndu úr Costco.
Súrmjólkurlögur:
- 3 bollar súrmjólk (má skipta út og nota egg)
- 1 bolli sódavatn
Kryddað hveiti eftir smekk og hve þykkan hjúp þið viljið.
Hrært vel saman.
Þegar búið er að velta vængjunum upp úr kryddaða hveitinu eru þeir settir í súrmjólkurlöginn og látið leka af þeim og aftur í kryddaða hveitið. Þaðan svo beint í olíuna og steiktir í um 8 – 10 mín.
Það getur þó verið þægilegt, sérstaklega með mikið magn, að klára að hjúpa alla vængina og setja í kæli. Taka þá svo út 30 mín. áður en á að steikja þá.
Sósa:
- 1 bolli Franks hot sauce (original)
- ½ bolli smjör
Bræðið saman í potti á lágum hita.
Hellið sósunni svo yfir vængina og njótið.
Ég skora á matgæðinginn og ljúflinginn Þorstein Má Ragnarsson til að koma með einhverja sumarveislu í næstu viku.