-6.6 C
Selfoss

Meirihluti bæjarstjórnar Árborgar á alvarlegum villigötum

Vinsælast

Undanfarnir tveir mánuðir hafa verið mjög viðburðarríkir í bæjarstjórn Árborgar. Mikið hefur verið rætt um skipti á bæjarstjóra, kosti, galla, framkvæmd og klofning. Erfitt er fyrir undirritaðan bæjarfulltrúa að úttala sig um sýn sína á stólaskiptum. Sér í lagi þegar deilur einskorðast við eitt framboð og eftirlæt ég því gerendum í því máli að skýra frá framvindunni.

Girðingin og samráðsleysi

Önnur mál hafa borið á góma og þá má nefna framgöngu meirihluta Sjálfstæðismanna og Á-lista við girðingu í Sigtúnsgarði. Undirritaður nýtti allan lýðræðislegan rétt sem bæjarfulltrúi til að vísa málinu til bæjarstjórnar og þaðan í frekara samráð í skipulagsnefnd. Frekari samvinna er ekki í boði og því er ágætt að sjá það sjónarmið koma fram. Samráð skal haft við hentugleika. Vandamálið við samráð og samvinnu er að það gengur í báðar áttir og nýr meirihluti slær hér nýjan tón. Fyrstu tvö árin með samvinnu og samráð en tvö hin síðari er það ekki í boði.

Eigna- og veitunefnd

Í síðustu viku var fundur í eigna- og veitunefnd þar sem uppgjör á Selfosshöll var lagt fram. Fyrr hafði meirihluti bókað að þau hefðu reiknað sig niður á nýja niðurstöðu um að kostnaðurinn hefði verið 1.857 ma.kr. Hið rétta kom svo fram en raunin var 1.348 ma.kr. Hér var haldið fram rangri upphæð með það að markmiði að láta fyrri meirihluta líta illa út fyrir einhverra hluta sakir. Óskiljanleg er framganga meirihluta Sjálfstæðismanna og enn verra er hversu illa þetta kom við starfsmenn sveitarfélagsins. Minnihluti hvatti meirihluta til að láta af þessu en áfram var haldið. Raunin varð að leiðréttingar voru lagðar fram í fjórum liðum sem koma fram í bókun sem undirritaður birtir jafnframt hér fyrir neðan. Til gamans, þá er þetta ekki í fyrsta skipti sem hefðbundnar reglur stærðfræðinnar vefjast fyrir meirihluta Sjálfstæðismanna…

Á-listi gengst í ábyrgð

Steininn tók úr í framgangi núverandi meirihluta Á-lista og Sjálfstæðismanna á síðasta fundi eigna- og veitunefndar. Nýr bæjarfulltrúi í meirihluta sá ekki ástæðu til að leiðrétta bókun Sjálfstæðismanna frá 16. apríl í nefndinni. Á tímapunkti bókunar (16.04.2024) var bæjarfulltrúi Á-lista í minnihluta og hafði ekkert með bókunina að gera. Að endingu var gengið svo langt að lýsa yfir eindregnum stuðningi við formann eigna- og veitunefndar sem nýverið varð uppvís að því að leggja fram rangar upplýsingar.

Betur hefði farið á með því að bæjarfulltrúi Á-lista hefði stigið til hliðar og lýst sig a.m.k. hlutlausan í málinu þar sem aðkoman að framsetningu og útreikningum var engin. Vegna aðkomuleysis Á-lista að málinu í upphafi hefði hlutleysi verið fullkomlega eðlileg viðbrögð. Einnig ber að nefna að bæjarfulltrúi Á-lista var aðili að meirihlutasamstarfinu sem ákvað byggingu Selfosshallar á kjörtímabilinu 2018-2022.

Eins öfugsnúið og málið kann að vera þá ætlar undirritaður að gera tilraun til að skýra málið. Meirihluti Sjálfstæðismanna leggur fram ranga bókun um kostnað á Selfosshöll sem var bein ádeila á síðasta meirihluta í bæjarstjórn Árborgar sem Á-listi starfaði í á síðasta kjörtímabili. Á-listi sér ekki ástæðu til að bera til baka bókunina eða standa hlutlaus hjá. Heldur lýsir bæjarfulltrúi Á-lista yfir stuðningi við formann eigna- og veitunefndar sem veittist að fyrri meirihluta með rangindum. Núverandi bæjarfulltrúi Á-lista, sem einnig sat sem varaformaður í eigna- og veitunefnd og var varabæjarfulltrúi í bæjarstjórn á síðasta kjörtímabili, hefði mátt vita hver raunverulegur kostnaður var við byggingu Selfosshallar. Bæjarfulltrúi Á-lista situr enn í eigna- og veitunefnd og er þátttakan í atburðarásinni því fullkomlega óskiljanleg.

Er málið allt með slíkum ólíkindum að kalla þarf eftir útskýringum á hátterninu frá Á-lista fyrir íbúum sveitarfélagsins og einnig þarf að ítreka að meirihluti Sjálfstæðismanna þarf að biðja starfsmenn og íbúa sveitarfélagsins afsökunar á rangfærslunum.

Samvinna í orði en ekki á borði

Að endingu, þá fer núverandi meirihluti mjög illa af stað. Komandi mánuðir í bæjarstjórn Árborgar verða erfiðir og þá sér í lagi vegna þess að samstarf og samvinna hefur verið lögð til hliðar og meirihlutaræði lagt á borð. Við munum að sjálfsögðu beita aðhaldi og upplýsa íbúa þegar tilefni er til og má gera ráð fyrir að ítrekaðar ástæður skapist í þeim efnum á komandi mánuðum.

Arnar Freyr Ólafsson,
bæjarfulltrúi Framsóknar

Bókun frá fundi Eigna og veitunefndar 02.07.2024
„Í ljósi rakalausra vinnubragða formanns Eigna og veitunefndar þá er rétt að draga fram vanhæfi formanns sem kristölluðust vinnubrögðum sem viðhöfð voru við bókun meirihluta á 30. fundi nefndarinnar þann 16.04.2024 undir máli 1 á fundinum.
Rekja þarf rangfærslurnar í meginliðum og bera þarf til baka en í þessari bókun er vegið freklega að starfsheiðri embættismanna og meirihluta bæjarstjórnar Svf. Árborgar sem stóð að framkvæmdinni kjörtímabilið 2018-2022.

Bókun meirihluta nefndarinnar er eftirfarandi:
Bókun meirihluta D lista: Fulltrúar D lista í eigna- og veitunefnd þakka starfsmönnum fyrir greinagóða samantekt á heildaruppgjöri vegna framkvæmda við Selfosshöllina. Fram kemur í uppgjörinu aðheildarkostnaður við framkvæmdina hafi verið kr. 1.857.426.708- m/vsk. Því miður lá ekki fyrir heildarkostnaðaráætlun fyrir verkefnið. Kostnaðaráætlun útboðsliða var kr. 1.200.418.640- m/vsk. Framkvæmdin í heild var um 657 milljónum yfir útboðsáætlun eða um 55% sem skýrist bæði af verkþáttum sem voru hærri en kostnaðaráætlun og verkþáttum sem ekki var gert ráð fyrir í áætlun. Má þar m.a. nefna aðkeypta tækniþjónustu, lóðarfrágang, aðgangsstýringu og leyfisgjöld.

Rangfærsla nr.1
Ekki var gert ráð fyrir eftirtöldum verkþáttum í áætlun – samkvæmt bókun meirihluta nefndarmanna. Hér er um ófaglega framsetningu að ræða í bókun meirihluta nefndarinnar þar sem allir eftirtaldir verkþættir voru annaðhvort settir í útboð eða samið sérstaklega um. Því er ekki um að ræða að ekki hafi verið gert ráð fyrir þessum verkþáttum og skulu allir þessir liðir koma fram í uppgjöri verksins. Einnig er vert að nefna að fjárheimildir í fjárfestingaáætlun 2018-2022 voru 1.623.000.000 og fór verkefnið aldrei fram úr fjárheimildum hvers árs.

Rangfærsla 2.
Bókað var á 30.fundi eigna- og veitunefndar þann 16.04.2024 eftirfarandi:
Fram kemur í uppgjörinu að heildarkostnaður við framkvæmdina hafi verið kr. 1.857.426.708- m/vsk Hið rétt er líkt og fram kemur hér að framan þá var heildarfjárhæð verksins var 1.314.775.518 kr án vsk og ekki rétt að taka virðisaukaskatt með hér í uppgjörið þar sem hann er ekki eignfærður líkt og áður hefur komið fram.

Rangfærsla 3
Bókað var á 30.fundi eigna- og veitunefndar þann 16.04.2024 eftirfarandi:
Framkvæmdin í heild var um 657 milljónum yfir útboðsáætlun eða um 55% sem skýrist bæði af verkþáttum sem voru hærri en kostnaðaráætlun og verkþáttum sem ekki var gert ráð fyrir í áætlun. Má þar m.a. nefna aðkeypta tækniþjónustu, lóðarfrágang, aðgangsstýringu og leyfisgjöld. Hið rétt er líkt og fram kemur hér að framan þá var heildarfjárhæð verksins 9% yfir samþykktum tilboðsliðum eða 111.472.520 kr.

Rangfærsla 4
Fram kom í pontu hjá formanni eigna- og veitunefndar á 39.fundi bæjarstjórnar þann 15.05.2024 undir máli nr. 8 – fundargerð eigna- og veitunefndar að þegar gerð var úttekt á áhrifum fjárfestingarinnar á fjárhag sveitarfélagsins hafi eingöngu verið kynnt kostnaðaráætlun jarðvinnu og byggingakostnaður verkefnisins til endurskoðanda til að meta áhrifin. Hið rétt er að að sú kostnaðaáætlun sem kynnt var á á 41.fundi bæjarráðs þann 18.07.2019 eru eftirfarandi verkþættir skilgreindir og var upphæðin þar 1.187.907.620 m.vsk.
• Jarðvinna
• Burðarvirki
• Lagnir
• Rafmagn
• Frágangur utanhúss
• Frágangur innanhúss
Áhrifin voru metin um 15,4 % og því undir 20% viðmiði sveitarstjórnalaga samkvæmt 66.gr. Það ber þó að nefna að við þetta mat var virðisaukaskattur tekin með vegna mistaka og á því að meta áhrifin án vsk sem væru þá 12,4% af áætluðum skatttekjum sveitarfélagsins. Heildaruppgjör verksins kr. 1.348.643.096 án vsk eru því 17,1% og því undir 20% viðmiðum 66.gr. sveitastjórnarlaga.

Að þessu samanteknu, vegna vanhæfis, er farið fram á að núverandi formaður eigna og veitunefndar segi sig frá formennsku. Jafnframt er mælst til þess að bókun Sjálfstæðismanna frá fundi 16.04.2024 sé dregin til baka og bæði íbúar og starfsmenn sveitarfélagsins beðnir afsökunar á þeim ófaglegu og villandi framsetningu sem viðhöfð var í ofangreindri bókun meirihluta D-lista.

Arnar Freyr Ólafsson Bæjarfulltrúi Framsóknar
Sigurjón Vídalín Guðmundsson Bæjarfulltrúi Samfylkingar“

Nýjar fréttir