-8.1 C
Selfoss

Kvöldið er fagurt: Blood Harmony næst á „svið“

Vinsælast

Kvöldið er fagurt nefnist árleg tónleikaröð í Eyvindartungu við Laugarvatn. Nafn tónleikaraðarinnar er sótt til þjóðlagsins alþekkta, ,,Kvöldið er fagurt“ en höfundur textans, Ingólfur Þorsteinsson, fæddist í Eyvindartungu.

Upphaf tónleikaraðarinnar má rekja til vorsins 2019 er haldnir voru tónleikar í gamla fjósinu, en síðan hafa gömlu útihúsin á bæjarhlaðinu verið uppgerð í stórt viðburðarými, vettvang fyrir brúðkaup, veislur, ættarmót o.fl.

Árið 2020 hlaut Eyvindartunga styrk frá Uppbyggingarsjóði Suðurlands til að halda fyrstu tónleikaröðina. Markmið skv. styrkbeiðninni var að auka framboð menningarviðburða við Laugarvatn með reglulegu tónleikahaldi einu sinni í mánuði yfir sumartímann í gömlu fjóshlöðunni í Eyvindartungu. Fyrsta árið komu til okkar Svavar Knútur, Kristjana Stefáns, Unnur Malín og Teitur Magnússon.

Sumarið 2024

Svavar Knútur var með fyrstu tónleika sumarsins, söngvaskáldatónleika laugardaginn 22. júní. En nú er röðin komin að næstu sumartónleikum, tónleikar Blood Harmony, fimmtudagskvöldið 18. júlí, kl. 20:00.

Blood Harmony er samstarfsverkefni systkinanna Arnars Eldjárns, Aspar Eldjárns og Bjarkar Eldjárn sem hófst snemma árs 2021 þegar heimsfaraldurinn skall á og sökum þess voru þau flutt í heimahagana í Svarfaðardal. Þau umbreyttu kjallaranum á æskuheimilinu Tjörn í upptökustúdíó og hófu að taka upp lög sem Örn og Ösp höfðu bæði samið í gegnum árin en aldrei fundið þeim farveg, fyrr en nú. Sumarið 2021 héldu þau í sína fyrstu tónleikaferð um landið og síðan þá hafa þau komið fram á tónlistarhátíðum í Svíþjóð, Finnlandi, Skotlandi og á Englandi. Miðasala er á tix.is.

Næstu mánuði stendur svo til að auglýsa fleiri tónlistarviðburði, en viðburðarýmið í Eyvindartungu fagnar 5 ára afmæli sunnudaginn 1. september, og stefnt er að því að hafa þá opið húsið um kvöldið og eiga notalega kvöldstund saman.

Nýjar fréttir