2.5 C
Selfoss

Rak sjálfan sig fyrir Ólympíuleikana

Vinsælast

Hákon Þór Svavarsson mun keppa fyrir Íslands hönd í skeet skotfimi á Ólympíuleikunum í París 2024, sem fara fram frá 26. júlí til 11. ágúst nk.

Hákon, sem starfar sjálfstætt við smíðar, er búsettur á Selfossi ásamt konu sinni, Birnu Jóhönnu Sævarsdóttur, og börnum þeirra, Emmu Karen og Svavari Þór. Hákon er upprunalega Austur-Húnvetningur og að eigin sögn algjör sveitavargur.

Í samtali við Dagskrána segir Hákon, sem hefur stundað skotfimi með hléum í 25 ár, að það að komast á Ólympíuleikana sé skemmtileg og góð tilfinning. „Ég held ég átti mig bara ekki á stærðinni á þessu. Ég sá að ég var farinn að nálgast stóru nöfnin í sportinu og gerði mér grein fyrir því að þetta væri raunhæfur möguleiki þegar ég fór að einbeita mér að þessu markmiði fyrir rúmum fjórum árum.“

Hákon segir eitthvað breytast á hverjum Ólympíuleikum til að hækka erfiðleikastigið. Til að mynda hafi hraðinn verið aukinn úr 85 upp í ca 90 km hraða á síðustu leikum og á hann erfitt með að ímynda sér hvað verði gert næst.

„Þetta reddast alltaf“

Þá segir Hákon ferlið við að ná sæti á leikunum hafa verið mikla vinnu bæði við æfingar og fjármögnun. „Það er mikilvægt að vinna vel í hausnum á sér, það er helst þar sem hlutirnir klikka. Þetta ferli hefur innihaldið mikið af ferðalögum og æfingum og svo er margt nýtt. Ég er kominn með fastan þjálfara og hitti íþróttasálfræðing í fyrsta skipti, það er mikið um fundi og fjölmiðlastúss sem ég hef ekki staðið í áður. Maður þarf líka að vinna mikið til að fjármagna þetta allt saman en þetta reddast alltaf, við smiðir erum vanir því að vera úrræðagóðir.“

Hákon hefur lítinn tíma til vinnu vegna undirbúnings fyrir Ólympíuleikana og kemur það sér því vel að hafa haft góðan undirbúningstíma. „Það er ekki hægt að fara á Ólympíuleika, gera það vel og vera í fullri vinnu, svo er ég meirihluta júní og júlí í útlandinu að æfa og keppa svo það er ekki tími fyrir vinnu. Og þar sem ég er sjálfstæður atvinnurekandi þá rak ég sjálfan mig bara,“ segir hann og hlær.

Hákon segir eitthvað breytast á hverjum Ólympíuleikum til að hækka erfiðleikastigið. Til að mynda hafi hraðinn verið aukinn úr 85 upp í ca 90 km hraða á síðustu leikum og á hann erfitt með að ímynda sér hvað verði gert næst.

Náttúrumyndir frá Íslandi í Kasakstan

Skotfimin hefur dregið Hákon víða um heiminn, árið 2023 fór hann í níu keppnisferðir erlendis en hann hefur keppt í 30 löndum. „Meðal þeirra Cairo í Egyptalandi, Doha í Qatar, Rabat í Marokkó, svo Mexíkó og Suður- Kóreu. Af þessum stöðum þótti mér skrýtnast að koma til Almaty í Kasakstan. Þar voru náttúrumyndir frá Íslandi á skjá upp á vegg alveg sama á hvaða veitingastað og hótel ég kom. Það gerist annars alltaf eitthvað skemmtilegt í þessum ferðum, skotmenn eru skemmtilegir heilt yfir og maður kynnist mörgum.“

Norðurlandameistaratitillinn sem Hákon náði í Kouvola í Finnlandi árið 2022 trónir ofarlega á blaði eftirminnilegra augnablika á ferli hans en hann varð þá fyrsti Íslendingurinn frá upphafi til að ná þeim titli í skotfimi. Sama ár vantaði eitt stig upp á að hann kæmist í úrslit á Evrópumeistaramóti og í fyrra bætti hann Íslandsmetið þegar hann náði 122 af 125 mögulegum stigum.

Heppinn með gott fólk og lítið af leiðindum

„Það eru alls konar æfingar og vesen í þessu en það sem skiptir mestu máli er að vera með gott fólk í kringum sig og lítið af leiðindum og ég er mjög heppinn að því leyti. Fjölskyldan mín hefur alltaf staðið með mér og það skiptir öllu. Svo hefur Skotsamband Íslands borgað allar keppnisferðir fyrir mig, ég hef séð um vinnutap og æfingakostnað sjálfur. En síðustu ár hefur Gjögur hf. styrkt mig og Blikkmenn líka, svo ég fæ eitthvað upp í þetta allt saman.

Aðspurður um framtíð íþróttarinnar á Íslandi segir Hákon að hann myndi vilja sjá meiri athygli á henni. „Og að við mættum byrja fyrr að skjóta. Víða erlendis eru krakkar um 10-12 ára að byrja að æfa. Svo mætti laga þessa algengu og ástæðulausu hræðslu við skotvopn, þetta er ekki hættulegri íþrótt en hvað annað.“

Ungu fólki í íþróttum ráðleggur Hákon að lokum að vera duglegt og agað: „En fyrst og fremst að hafa gaman af því sem þú ert að gera og gefast ekki upp þó að þetta sé stundum erfitt.“

Nýjar fréttir