2.5 C
Selfoss

Hægeldaðir pulled pork-hamborgarar

Vinsælast

Bjarni Rúnar Lárusson er sunnlenski matgæðingur þessa vikuna.

Ég vil þakka Sindra vini mínum fyrir að gera mig að matgæðingi vikunnar. Takk fyrir það.

Ég hef alltaf haft gaman af því að elda, þó að ég mætti vera duglegri að prófa nýja hluti. Minn uppáhaldsmatur að elda fyrir fjölskyldu og vini hefur síðastliðin ár verið pulled pork-hamborgarar. Þessir hamborgarar hafa vakið mikla lukku og eru einfaldir í eldamennsku og einstaklega bragðgóðir. Hérna er uppskriftin mín.

Hægeldaðir pulled pork-hamborgarar

Fyrir 6-8 manns (líklega fleiri)

  • Svínabógur 2-3 kg
  • 1x bjór (má vera óáfengur)
  • Dass af BBQ-sósu
  • Brioche-hamborgarabrauð

Krydd:

  • 2 msk. púðursykur
  • Dass af sjávarsalti
  • Dass af piparkryddi
  • Dass af paprikukryddi
  • Dass af reyktu paprikukryddi
  • Dass af Cayenne-kryddi
  • Dass af chili-kryddi
  • Dass af laukdufti
  • Slatti af hvítlauksgeirum (4-7)

Kryddi blandað saman í skál. Notið gaffal til að stinga í kjötið, meira er betra en minna. Nuddið kryddinu vel inn í kjötið til allra hliða. Einn bjór er settur ofan í ofnpott og síðan fer vel kryddaður bógurinn ofan í pottinn og inn í 95° heitan ofn.

Síðan er hægt að gleyma kjötinu í 8 klst.

Það ætti að vera mikill vökvi í pottinum sem verður settur í skál. Síðan er mikilvægt að hreinsa kjötið. Ef allt gekk vel ætti kjötið að vera dúnmjúkt og þá er auðvelt að taka alla fituna af og beinhreinsa. Núna ætti aðeins að vera hreint kjöt í pottinum og þá er hægt að bæta við BBQ-sósunni og dassi af vökvanum sem var tekinn úr ofnpottinum. Blandið öllu þessu vel saman og þá er aðalrétturinn tilbúinn.

Þetta er síðan borið fram á brioch-hamborgarabrauði með t.d. hrásalati og frönskum.

Þetta er mín uppáhaldsuppskrift af hægelduðum pulled pork-hamborgurumm.

Eftirrétturinn er oft mikilvægasti rétturinn á mínu heimili, mikilvægari en aðalrétturinn! Þessi uppskrift er búin að vera í fjölskyldunni í yfir 50 ár og ætla ég nú að deila henni með Sunnlendingum núna!

Eftirréttur

Ís frá Kjörís!

Vonandi prófa þetta sem flest og ég hlakka til að heyra ykkar upplifun.

 


Ég ætla að skora á vin minn og alvöru matgæðing Ingvar Jónsson sem elskar að elda!

Nýjar fréttir