11.6 C
Selfoss

Tilgangsríkar gönguferðir

Vinsælast

Á dögunum fékk Dagskráin ábendingu frá vegfaranda sem þótti mikið til hóps kvenna á Selfossi koma, en honum sýndist þær nýta gönguferð sína í að plokka rusl. Blaðamaður elti þær uppi í kjölfarið og náði tali af þeim þar sem þær gengu í austurátt fram hjá pósthúsinu. Þær Sigrún, Ágústa, Hulda, Gunndís og Gerður skelltu upp úr þegar þær heyrðu að ábending um dugnað þeirra hafi borist til Dagskrárinnar og sögðust gera þetta í hverri viku, alltaf á mánudögum og fimmtudögum og stundum oftar.

„Misheyrum, hlæjum og fáum okkur súpu til hátíðarbirgða“

Ágústa átti upphaflega hugmyndina að gönguferðunum sem hinar tóku vel í en hugmyndin um að samtvinna göngurnar við plokk kom til þeirra á göngu. „Við sáum alltaf svo mikið rusl á leiðinni að við ákváðum bara að nýta ferðina, það er gott að hafa tilgang með þessum gönguferðum, plokkið dregur mann út og er ekki bara heilsubót, heldur líka bæjarbót. Svo er þetta svo dásamlegur félagsskapur, við misheyrum, hlæjum og fáum okkur súpu saman til hátíðarbirgða,“ segja þessi hreystikvendi og bæta við að margar þeirra nýti allar gönguferðir í plokkið.

Allar eru þær með plokkprik sem þær segja að fáist víða fyrir vægt verð og eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er Hulda búin að útbúa sérstakan plokkpoka sem hún hefur með sér í gönguferðir til að auðvelda ruslasöfnunina.

Þá sögðu þær óvenjulítið rusl vera í bænum þennan daginn en ein þeirra hafði séð rusl niðri við Austurveginn. Þá kvöddu þær blaðamann og héldu í átt að ruslinu sem þær hirtu áður en þær gerðu sér dagamun og fengu sér súpu hjá Almari bakara.

Nýjar fréttir