3.9 C
Selfoss

Stoltur af samfélaginu í Árborg

Vinsælast

Bragi Bjarnason, bæjarstjóri og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Árborg.

Það eru forréttindi að búa í samfélagi sem býður upp á góða þjónustu fyrir íbúa á öllum aldri. Það á bæði við um þjónustu sveitarfélagsins og einkaaðila sem selja okkur vörur og þjónustu í nærsamfélaginu. Sveitarfélagið Árborg er að mínu mati á þeim stað að þjónustustigið sé mjög gott þegar horft er á heildarmyndina þar sem íbúar á Suðurlandi sækja margir hverjir orðið nær alla sína þjónustu á Selfosssvæðið og þurfa þá síður að fara yfir Hellisheiðina á höfuðborgarsvæðið. Ég tel þetta vera jákvæða þróun enda er það hagsmunamál okkar allra á Suðurlandi að bæta þjónustu og atvinnustig hérna megin heiðarinnar.

Skiptar skoðanir

Sem betur fer höfum við skoðun á samfélaginu okkar og eðlilega ekki sammála um allt. Við þurfum ávalt að vera tilbúin að hlusta á skoðun og rök annarra í allri umræðu. Fyrir okkur kjörna fulltrúa er það mikilvægt að heyra raddir sem flestra til að byggja undir góða ákvarðanatöku. Ég gríp hér niður í nokkur samfélagsmál úr Árborg sem eru þessa dagana í umræðunni.

Endurhönnun Sigtúnsgarðs

Bæjarráð Árborgar samþykkti í júní að hefja undirbúning að endurhönnun Sigtúnsgarðs á Selfossi. Garðurinn hefur verið til umfjöllunar undanfarnar vikur og mikilvægt er að umræðan sé málefnaleg og horft sé til þeirra tækifæra sem eru til framtíðar. Við hönnunina á að horfa sérstaklega til notagildis garðsins fyrir íbúa og gesti, hátíðarhalda og samtengingar við nýjan miðbæ á Selfossi. Stofnaður verður samráðshópur hagaðila og á m.a. að horfa til stækkunar á svokallaðri “söngskál”, staðsetningu hátíðartjalds, leiktækja og fleira. Sigtúnsgarður er einstaklega vel staðsettur á Selfossi og mikilvægt er hann nýtist í blómlegt menningar- og mannlíf sveitarfélagsins. Ég er viss um að með vel heppnaðri hönnun gefast frekari tækifæri til nýtingar garðsins á öðrum tímum en þegar hátíðarhöld eru í honum.

Aukin stuðningur við börn með fatlanir í frístundastarfi

Ungmennafélag Selfoss og íþróttafélagið Suðri skrifuðu fyrr í vetur undir samstarfssamning við verkefnið „Allir með” sem gengur út á að fjölga tækifærum fyrir fötluð börn í frístundum. Samstarf sveitarfélagsins við íþrótta- og frístundafélög á svæðinu hefur verið gott og markmiðið að geta boðið upp á metnaðarfullt og fjölbreytt starf í samfélaginu.

Ungmennafélag Selfoss og Íþróttafélagið Suðri hafa síðan í samstarfi við sveitarfélagið sett aukin kraft í fjölga tækifærum fatlaðra barna og hefur sveitarfélagið samþykkt aukin stuðning við fötluð börn í frístundastarfi. Um er að ræða tilraunaverkefni til eins árs þar sem starfsmenn af frístundaheimilum fylgja barni í íþrótta- og frístundastarf á opnunartíma frístundaheimilisins. Íþróttafélögin geta síðan áfram fengið styrk fyrir aðstoð á æfingum utan þess tíma.

Ekki langt í fjölbreytta útivistarmöguleika

Við horfum stundum yfir ána og sýnist grasið grænna hinu megin. Um leið gleymum hvað það getur verið gott hér næst okkur. Ég hef lent í því sjálfur að gleyma mér í þessari hugsun hvað varðar útivist og þá er gott að minna sig á hvað sé hægt að gera í nánasta umhverfinu. Við eigum nefnilega ótrúlega marga valmöguleika til hreyfingar og útivistar sem kosta ekki mikið. Mér fannst áhugavert að heyra frá íbúa sem hafði ekki búið lengi á Selfossi að hér væri fullkomið svæði til að ganga, hlaupa og hjóla. Nánast slétt hvert sem þú ferð, gott net göngustíga og einfalt fyrir allan aldur að fara saman. Fjörustígurinn milli Eyrarbakka og Stokkseyri er skemmtileg leið og við erum alveg að ná tengingunni frá Selfossi að ströndinni en nýi göngustígurinn er nú malbikaður að afleggjaranum að Stokkseyri. Strandlengjan býður sömuleiðis upp á fallega náttúru, sandfjöru og fjölbreytt lífríki en mikilvægt er að fara alltaf varlega við sjóinn. Helliskógur, Gesthúsasvæðið, fuglafriðalandið, Knarrarósviti, frisbígolfvellir og fleiri staðir eru sömuleiðis góðir afþreyingarkostir í okkar nánasta umhverfi.

Ekki má gleyma hátíðum og viðburðum sem einkenna samfélagið okkar. Jónsmessuhátíð á Eyrarbakka og bíladellan ný yfirstaðin og næst eru það Bryggjuhátíðin á Stokkseyri, 5. – 7. júlí og Kótelettan á Selfossi, 11. – 14.júlí. Í Tryggvagarði er sumarmarkaður alla laugardaga í sumar. Sundlaugin á Stokkseyri opnar aftur föstudaginn 5.júlí og íþróttafélögin keppa í hverri viku. Alltaf er eitthvað í gangi í þessu magnaða samfélagi sem ég er stoltur af að tilheyra.

Bragi Bjarnason,
bæjarstjóri og oddviti sjálfstæðisflokksins í Árborg

Nýjar fréttir