-0.5 C
Selfoss

Hálendisböðin opna í Kerlingarfjöllum

Vinsælast

Núna um helgina opna Hálendisböðin í Kerlingarfjöllum, en þau eru einstakur baðstaður við fjölbreytta gisti- og veitingaaðstöðu sem opnaði síðasta sumar á hálendi Íslands. Böðin eru opin öllum gestum Kerlingarfjalla og eru þannig tilvalinn áfangastaður eftir útivist á hálendinu. Í böðunum eru meðal annars heitar setlaugar, kaldur pottur og glæsileg sauna með einstöku útsýni yfir fjallgarðinn. Í upphafi síðasta sumars opnaði endurbætt gisti- og veitingaaðstaða í Kerlingarfjöllum. Þar er nú boðið upp á fjölbreytta gistimöguleika, nýtt tjaldsvæði og svefnpokapláss í gömlu skálunum sem gjarnan eru kallaðir Nípur. Því ættu allir ferðalangar að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Í Kerlingarfjöllum er einnig að finna veitingastað þar sem boðið er upp á fjölbreyttan, séríslenskan matseðil—þar á meðal vöfflur með rjóma og rabarbarasultu ásamt sígildri kjötsúpu. Til að kóróna þægindin geta gestir einnig keypt nestispakka til að taka með í ævintýri dagsins.

Leiðin að Kerlingarfjöllum liggur um hinn sögufræga Kjalveg sem er fullfær fólksbílum á sumrin og eru Kerlingarfjöll því tilvalinn áfangastaður fyrir þá sem vilja upplifa hálendi Íslands. Sætaferðir eru í boði alla daga yfir sumartímann.

Magnús Orri Marínarson Schram er forstöðumaður viðskiptaþróunar nýrra áfangastaða hjá Bláa Lóninu hf. en fyrirtækið stendur fyrir uppbyggingu og rekstri gistiaðstöðunnar og Hálendisbaðanna í Kerlingarfjöllum. Hann er afar ánægður með vel heppnað fyrsta rekstrarár og kveðst enn fremur fullur eftirvæntingar fyrir komandi tímum.

„Fyrsta árið okkar gekk vonum framar. Það hefur verið mikil eftirspurn eftir aðgengilegri gistingu á hálendi Íslands og einstaklega ánægjulegt að geta svarað þeirri þörf. Með opnun Hálendisbaðanna hafa gestir nú enn fleiri ástæður til þess að sækja svæðið heim og njóta þeirrar fegurðar sem umlykur allt,“ segir Magnús Orri.

Mynd: Aðsend.

Í sátt og samlyndi við náttúruna

Kerlingarfjöll eru staðsett á miðhálendinu og eru hrein náttúruparadís. Svæðið var friðlýst árið 2020 með það að markmiði að vernda jarðminjar svæðisins, ásýnd þess, landslagið og óbyggðirnar. Öll starfsemi Kerlingarfjalla miðar að sömu markmiðum, í sátt við umhverfi og náttúru.

Sveitarstjóri Hrunamannahrepps, Aldís Hafsteinsdóttir, er afar ánægð með uppbyggingu innviða á svæðinu, enda sé aukið og einfaldara aðgengi afar mikilvægt samfélaginu öllu.

„Alla tíð hafa Kerlingarfjöll verið segull bæði heimamanna og erlendra og innlendra gesta. Með uppbyggingunni sem nú hefur átt sér stað í Kerlingarfjöllum er enn fleirum en áður gert kleift að dvelja í fjöllunum. Afar ánægjulegt hefur verið að sjá hversu vel framkvæmdirnar falla að því stórbrotna umhverfi sem þarna er. Hér í Hrunamannahreppi brenna heimamenn fyrir afréttinum og ekki síst fjöllunum fögru. Framkvæmdir eins og þær sem nú eru orðnar að veruleika í Kerlingarfjöllum styrkja bæði ferðaþjónustu og uppbyggingu samfélagsins sem hér hefur byggst upp á hálendisbrúninni,“ segir Aldís.

Útivist og afþreying fyrir alla fjölskylduna

Á svæðinu má finna fjölmargar gönguleiðir sem henta öllum getustigum og aldurshópum. Þaulvant leiðsögufólk leiðir skipulagðar göngu- og sérferðir en einnig er hægt að halda af stað á eigin vegum og kanna fjallstinda, háhitasvæðið Hveradali og Skuggafoss, að ógleymdri Kerlingu—steindranganum sem fjöllin draga nafn sitt af. Útivistarfólk getur svo notið Hálendisbaðanna fyrir eða eftir ævintýri, allan ársins hring.

„Við leggjum okkur fram um að gera sem flestum kleift að upplifa ótrúlegt landslagið sem umlykur okkur hér í fjöllunum. Í sumar bjóðum við svo í spennandi fjallahjólahelgi auk þess sem við höldum hálendishlaupið Kerlingarfjöll Ultra–það fyrsta sem haldið hefur verið á svæðinu. Þátttakan hefur farið fram úr björtustu vonum enda varð uppselt á örfáum dögum,“ segir Magnús Orri að lokum og bætir við: „Við hlökkum mikið til að halda áfram að bjóða ferðalöngum upp á ævintýri hér í hjarta hálendisins og því er gaman að fagna opnun Hálendisbaðanna um helgina.“

 

Mynd:

(Hálendisböðin í Kerlingafjöllum)

Nýjar fréttir