3.9 C
Selfoss

Kartöflu- pestó súpa

Vinsælast

Sindri Arinbjarnarson er matgæðingur vikunnar að þessu sinni.

Ég þakka móður minni kærlega fyrir þessa tilnefningu. Það er vissulega pressa þar sem hún og aðrir fjölskyldumeðlimir hafa gefið út matreiðslubækur og hafa sterkar skoðarnir á mat. T.d. verða sósurnar á mínu heimili oft fyrir aðkasti af þeirra hálfu og kallaðar „bræddur ostur“ en ekki alvöru sósa.

19 ára var mér kastað í djúpu laugina og látinn elda á tveimur hellum ofan í 14 manna gönguhópa á hálendinu. Þar kviknaði áhugi minn á matseld og í þeim efnum á kartaflan hug minn allan í dag. Því fylgir hér einföld en mjög góð uppskrift af kartöflusúpu með pestó og parmesan:

Kartölfu-pestó súpa

fyrir 4

Nokkrar sneiðar beikon
450 gr kartöflur
450 gr laukur
2 msk ólívuolía
30 gr smjör
600 ml kjúklingasoð
600 ml mjólk
100 gr pasta skeljar
150 ml rjómi
2-4 msk grænt pestó, eftir smekk
Parmesan ostur, rifinn
Steinselja, eftir smekk
Salt og hvítur pipar, eftir smekk

Skerið niður beikonið, kartöflurnar og laukinn. Setjið ólívuolíu í pott og steikið beikonið á miðlungs hita í ca. 4 mín. Bætið þá smjörinu saman við ásamt kartöflunum og lauknum og hrærið vel í ca. 10-12 mín.

Bætið næst við kjúklingasoðinu og mjólkinni og náið upp suðu. Látið malla í 10 mín. áður en pastaskeljunum er bætt út í og látið svo malla áfram í 10-12 mín.

Bætið við rjómanum og látið krauma í 5 mín. í viðbót áður en steinseljan og pestóið er sett út í. Saltið og piprið eftir smekk (þessi á að rífa aðeins í).

Í lokin dreifið þið rifnum parmesan osti yfir (ekki spara) og berið fram með hvítlauksbrauði og salati.

Mig langar að matgæðingurinn hann Bjarni Rúnar Lárusson fái að svitna aðeins og skora því á hann hér með.

Nýjar fréttir