12.3 C
Selfoss

„Lygilega stutt á milli hláturs og gráturs“

Vinsælast

Stokkseyringurinn og hreystimennið Björgvin Karl Guðmundsson kom sér á spjöld sögunnar á dögunum, þegar hann varð fyrsti einstaklingurinn í sögu íþróttarinnar til að komast 11 sinnum í röð inn á heimsleikana í CrossFit, sem í ár verða haldnir í Fort Worth í Texas, frá 8.-11. ágúst. Björgvin hefur 8 sinnum komist í top 10 á leikunum en besti árangur hans hingað til er þriðja sætið árin 2015 og 2019.

„Þetta byrjaði þannig að Heiðar bróðir og konan hans voru að æfa CrossFit í Reykjavík og þannig heyrði ég fyrst af þessu. Stuttu síðar dregur Heiðar mig með sér á eina æfingu og þá var ekki aftur snúið,“ segir Björgvin um upphafið af þessu öllu saman í samtali við blaðamann Dagskrárinnar.

Björgvin segist ekki muna mikið eftir þessum fyrsta tíma. En ég man að stuttu eftir að ég byrja í CrossFit, þá tek ég þátt í „Open“, sem er fyrsta undankeppnin fyrir heimsleikana, þar sem allir geta tekið þátt. Fyrsta keppnisæfingin það árið var að gera eins marga burpees og hægt var á 7 mínútum. Svo maður spyr sig hvað það var sem seldi mér þessa íþrótt svona rosalega, því það er til margt skemmitlegra en að gera *Ritskoðað* burpees,“ segir Björgvin og hlær.

Fimleikarnir góður grunnur

Um það leyti sem CrossFit náði í hælana á Björgvin var hann að ljúka námi við FSu og hafði lagt fótboltann og fimleikana á hilluna. „Ég var bara sjálfur búinn að vera í ræktinni að lyfta og prófa mig áfram í ólympískum lyftingum. Ég var alltaf mjög virkur krakki í íþróttum ogvar mikið úti en ég trúi því að að fimleikarnir hafi verið góður grunnur fyrir mig,“ bætir hann við.

Björgvin á leið á sína fyrstu heimsleika árið 2014. Ljósmynd: Instagram/@bk_gudmundsson.

Björgvin segir sína helstu fyrirmynd alltaf hafa verið Rich Froning sem var brautryðjandi í íþróttinni. „En ég var svo heppinn að ná að keppa á móti honum á mínum fyrstu Heimsleikum árið 2014, sem var hans síðasta keppni sem einstaklingur. Það var smá súrrealískt að sjá fyrirmyndina sína vinna þá keppni og deila með honum keppnisgólfinu.“

Mikið hark í upphafi

Þróunina úr áhuga- yfir í atvinnumennsku segir Björgvin hafa verið töluvert hraða. „Ég kemst mjög snemma inn á leikana þannig ég hef ekki beint æft CrossFit eins og hinn almenni leikmaður. Ég sá mjög snemma eftir að ég byrjaði að æfa að ég gæti náð langt og fór af fullum þunga í að æfa eins og „atvinnumaður“. Þó ég hafi í rauninni alls ekki haft fjármuni eða leiðsögnina sem ég hef í dag og þá fór ég í upphafi bara eftir eigin innsæi og fór þetta á ástríðunni. Til að byrja með var að sjálfsögðu enga „sponsa“ að fá. Það gerist hægt og rólega með tímanum. Ég byrja á að fá þessa klassísku sponsa sem gefa vörur en borga ekki. Eftir að ég fer að festa mig í sessi í íþróttinni og verð smávegis „nafn“ fara hlutirnir þó að gerast. Ég hinsvegar kunni lítið sem ekkert á samningagerð og hvað þá viðræðurnar sem þeim fylgdu. Ef ég spóla aðeins áfram þá fara hlutirnir ekkert að gerast í þessum efnum fyrr en ég hitti Snorra Barón fyrir leikana 2017, en hann hefur verið umboðsmaðurinn minn síðan þá. Allt fram að því hafði þetta verið mikið hark og í rauninni stólaði ég meira og minna á verðlaunafé sem er auðvitað ekki mjög stabíl innkoma. Það má alveg segja að hann hafi komið inn á hárréttum tíma og auðveldað mér lífið til mikilla muna.“

„Smávegis innblástur“

Aðspurður hvernig hann upplifir að vera fyrsti einstaklingurinn til að komast inn á heimsleikana 11 ár í röð segist Björgvin þykja það nokkuð merkilegt ef hann eigi að vera alveg hreinskilinn. „Þetta er kannski ekki eitthvað met sem ég hef verið að horfa á lengi en ég vissi svo sem af því í fyrra að ég gæti orðið sá fyrsti. Mér hefur alveg tekist að nota þetta sem smávegis innblástur á þessu undirbúnings tímabili og er mjög stoltur af þessu afreki því það er alls ekki sjálfgefið að hafa ekki þurft að taka hlé frá keppni vegna meiðsla eða slíks á öllum þessum árum.

„Þýðir ekkert að hjakkast bara áfram“

„Ég myndi segja að fyrst og fremst hafi ég rosalega gaman af því sem ég geri, ég held að það skipti öllu máli. Þetta væri örugglega ómögulegt ef ég hefði ekki gaman af þessu. Það er ekkert jafn gaman eins og að standa á keppnisgólfinu með öllu þessu heimsklassa fólki og sjá afrakstur erfiðisins skila sér eftir hvert tímabil. Ég get stundað þetta sem mína einu atvinnu og það hjálpar auðvitað mikið til. Ég hef einnig haft gífurlega gott teymi í kringum mig í mörg ár og er þetta alltaf sama fólkið, við höfum einhvernveginn þróast saman í öll þessi ár og lært inná hvort annað. Ég þekki líka sjálfan mig og líkama minn vel og er vel læs á það hvenær ég þarf að hægja á eða breyta út af æfingunum til að forðast eða vinna úr smávægilegum meiðslum. Það þýðir ekkert að hjakkast bara áfram,“ segir hann um lykilinn að stöðugleikanum og árangrinum sem hann hefur náð í gegnum árin.

Óteljandi minningar

Þessa elleftu ferð á leikana tileinkaði Björgvin æskuvini sínum Bjarka Gylfasyni sem lést eftir hetjulega baráttu við krabbamein þann 20. mars sl., aðeins 35 ára gamall. „Bjarki hafði alltaf mikinn áhuga á því sem ég var að gera. Hann hafði reglulega samband eftir leikana á hverju ári ásamt því að taka oft stöðuna á mér fyrir mót. Við Bjarki höfum líka deilt sömu áhugamálum alveg frá því að við vorum litlir, hann tók mig reglulega með sér á snjóbretti þegar ég var ekki kominn með bílpróf og seinna meir fórum við að stunda skotveiði saman. Við eigum óteljandi minningar frá því við vorum yngri á Stokkseyri sem ég held fast í.“

Bjarki, fyrir miðju, ásamt bræðrunum Þóri Geir og Björgvin. Ljósmynd: Instagram/@bk_gudmundsson.

„Þetta er bara svo óréttlátt“

„Þetta er alveg svakalega sorglegt og ég persónulega bara trúi þessu varla ennþá, það er einhvernveginn þannig að maður bara skilur þetta ekki, þetta er bara svo óréttlátt. Það sem er þó mikilvægt finnst mér er að halda heiðri og minningu hans á lofti. Alveg frá því að hann fór þá hef ég líklega hugsað um hann og fjölskyldu hans á einn eða annan hátt á hverjum einasta degi. Mér fannst það að tileinka honum þessa elleftu ferð á leikana bara rétt. Ég veit að hann fylgist með að handan og ég held að hann hafi kunnað að meta þetta,“ segir Björgvin, aðspurður um tilfinninguna við að tileinka Bjarka afrek sitt.

„Ég held að alltof margir, að mér meðtöldum, flæki hversdagslega hluti, sem engu máli skipta, alltof mikið fyrir sér. Oft skipta litlu vandamálin akkúrat ekki neinu máli. Bjarki talaði sjálfur mjög opinskátt um veikindi sín og það fékk mann alvarlega til að hugsa og reyna að njóta þess frekar að vera til því maður veit aldrei hvað gerist næst. Lífið er bara núna og það eru bara svo sterk og flott setning sem klárlega er vert að fylgja,“ bætir Björgvin við.

„Fær vægt hjartaáfall í hvert skipti“

Það sem er einkennandi fyrir CrossFit samfélagið segir Björgvin vera samfélagið sjálft.„Stöðvarnar og fólkið er náttúrulega það sem gerir CrossFit að því sem það er. Fólk tengist einhverjum böndum sem það almennt gerir ekki í annarskonar líkamsrækt. Þú sérð líka fáa eða jafnvel engann í stúkunni, hvort sem það er á Íslandsmóti, Evrópumóti eða Heimsleikunum, sem ekki æfir eða hefur æft CrossFit á einn eða annan hátt og veit um hvað íþróttin snýst. Nema kannski pabbi, hann vill ekki sjá þetta en hann fylgist grannt með allt árið um kring og fær vægt hjartaáfall í hvert skipti,“ segir hann og hlær.

Ljósmynd: Instagram/@bk_gudmundsson.

Langaði að flýja en kunni ekki við það

Eftir öll þessi ár í sviðsljósinu er Björgvin fyrir löngu orðinn vel þekktur í íþróttaheiminum. Blaðamanni lék forvitni á hvað væri það undarlegasta sem hann hafi lent í því tengdu og uppsker hlátur frá viðmælanda. „Hér heima er lenskan alls ekki þannig að fólk sé að biðja um myndir eða eiginhandaráritanir en erlendis í kringum mótin er þetta stundum algjörlega galið. Suður-Evrópubúar sem æfa CrossFit eru algjörlega sturlaðir aðdáendur og mjög æstir í að tala við mann, taka myndir og fá eiginhandaáritanir. Ég man kannski fyrst þegar að ég var að verða stórt nafn í CrossFit heiminum, þegar ég mætti á Evrópuleikana 2016 í Madrid. Á árunum á undan var ekki mikið mál fyrir mig að fara uppí stúku á milli greina og segja „hæ“við mömmu og pabba og þau sem komu og fylgdu mér á mótið. Ég ætlaði 2016 að gera það sama og gjörsamlega festist í stúkunni því fólk vildi svo mikið koma og fá myndir sem er nú kannski ekki frásögu færandi nema það að ég fékk eiginlega bara rosalega óþægilega innilokunarkennd og langaði helst bara til þess að brjóta mér leið í gegn og hlaupa eitthvert í skjól en á sama tíma vildi ég ekki segja nei við neinn. Svo jú hefur ein stelpa látið húðflúra „BKG“,gælunafnið sem kaninn notar, á rassinn á sér. Þetta er allt geggjað og bara gaman,“ segir Björgvin hlæjandi.

Bestu hlutirnir gerast oft fyrir utan gymmið

Andlegur undirbúningur fyrir stórmót eins og heimsleikana segir Björgvin að felist, í sínu tilfelli, í að æfa vel yfir allt árið. „Ég æfi 5x í viku tvisvar sinnum á dag, ég er með einn „active recovery“ æfingadag þar sem ég fer og hreyfi mig létt og svo er ég með einn dag sem er alveg frá æfingum en það er alla jafna á sunnudögum. Ég er að æfa 25-27 klukkutíma á viku en til þess að gera það þarf að huga að mörgu. Ég tek næringu mjög alvarlega og sé til þess að borða hollt, á réttum tíma og fjölbreytt. Ég reyni að sofa að minnsta kosti 8 klukkutíma á nóttunni og huga vel að endurheimt þegar ég er ekki að æfa. Oft er besta endurheimtin ekki endilega að fara niður í stöð að teygja á eða hreyfa mig þar, heldur gerast hlutirnir oft best fyrir utan gymmið. Ég reyni þá að sinna öðrum áhugamálum svo sem hjóla, skokka, spila golf og þess háttar en ég reyni að halda því svona frekar „active“ en passa þó að gera ekki of mikið því það gæti haft áhrif á næsta æfingadag.  Með því að halda hlutnum í rútínu yfir langan tíma kemur sjálfstraustið, sem síðan nýtist mér í keppni. Ég bara veit að ef ég hef sinnt öllu 100% þá mun ég standa mig vel. Ég er þá bara staðráðinn í að ég sé að fara og gera mitt besta, það er ekki hægt að biðja um meira. Hvernig sem keppnin síðan fer er annað mál, annað hvort erum við sáttir með þetta og höldum áfram eins fyrir næstu keppni eða við lítum innávið og breytum því sem þarf að breyta og reynum aftur.“

Ljósmynd: Instagram/@bk_gudmundsson.

Heldur fast í drauminn um að vinna heimsleikana

„Ég hef auðvitað lært endalaust mikið á þessum árum og það er alveg pínu fyndið að hugsa til baka og bera það saman við hvernig við gerum hlutina í dag. Ég hef lært það á þessum tíma að matarræði, svefn og jafnvægi á milli æfinga og lífsins utan æfinga þarf að vera í jafnvægi. Þetta er kúnst sem ég hef þurft að læra og reka mig á mörgum sinnum. Ég hef alveg tekið tímabil þar sem ég er of harður við mig, leyfi mér nánast ekki neitt ef það þjónar ekki þeim tilgangi að gera mig betri í CrossFit, þannig tímabil eiga alveg sinn stað og stund, átímabilinu þá einna helst rétt fyrir mót. Svoleiðis tímabil á hinsvegar enga samleið með undirbúningstímabili. Ef ég leyfi mér ekki að hitta vini, fjölskyldu og njóta lífsins öðru hverju þá verður þetta fljótt ansi þreytt . Ég get eiginlega bara lýst því þannig að ég fari á svona hálfgert „auto pilot“ í æfingum, ég er að gera alla vinnuna sem er sett fyrir mig en ég geri það ekki með sama hjarta og ég myndi gera ef ég leyfi mér smávegis líf fyrir utan þetta allt saman. Þar af leiðandi detta gæðin niður og það vil ég ekki. Ég reyni að finna leið til þess að láta mér andlega líða þannig að ég geti haldið gæðunum á æfingum í algjöru hámarki,“ segir Björgvin um það hvernig hann hefur þróast sem íþróttamaður í gegnum árin, en hann segist aðeins hafa eitt markmið. „Á meðan ég hef gaman og get lifað af þessu þá ætla ég að halda fast í þann draum að ég geti unnið einn daginn.“

Mikilvægt að ungt fólk fái gott og rétt utanumhald

Aðspurður um ráð til ungs fólks sem eru að stíga sín fyrstu skref í CrossFit eða öðrum íþróttum segir Björgvin: „Það hefur því miður verið raunin að krakkar og unglingar sem byrja snemma og ná miklum árangri og byrja að keppa á hæsta leveli eiga virkilega erfitt með að höndla allt sem fylgir því að vera á þessum stað. Öll umfjöllun, pressa, of miklar æfingar, óheilbirgt samband við mat og allt þar fram eftir götunum hefur í mörgum tilfellum hreinlega orðið til þess að unglingar þurfi að stíga frá alltof snemma. Það er þó kannski ekki þeim að kenna heldur frekar þeim sem hafa ekki stigið inní og leiðbeint rétt. Ég held að það sé mikilvægt að krakkar fái að vera börn alveg þangað til að þau hafa þroska til að skilja hvað það er að vera afreksíþróttamaður. Ég er alls ekki að segja að ungt fólk megi ekki gera þetta af alvöru heldur meira að þau þurfi gott og rétt utanumhald og leiðsögn þegar hlutirnir fara að vera alvarlegri. Ég get heldur ekki fleygt þessu yfir á allar íþróttir þó mig gruni hinsvegar að það eigi fleiri íþróttir en CrossFit í vanda með þetta.“

Eiginlega að verða ánægðari með hlutina sem gerast fyrir utan keppnisgólfið

Augnablikin sem standa uppúr á glæstum ferlinum segir Björgvin vera tvö. „Ég er mjög stoltur af bæði árunum 2015, þegar ég vann „Murph“ og endaði í 3. sæti á heimsleikunum og 2019, þegar ég náði mér aftur í 3. sætið. Ég er líka bara ánægður ef ég get haft áhrif, kannski er ég að komast á þann aldur að ég fer eiginlega að verða ánægðari með hlutina sem gerast fyrir utan keppnisgólfið. Ef ég hef fengið einhvern til þess að hreyfa sig meira, borða hollara eða hvernig sem ég hef mögulega haft góð áhrif, þá gleður það mig.

Þá segir hann að staðfesta komi sér vel þegar á móti blæs. „Stundum þarf maður bara að bíta á jaxlinn og halda áfram þó maður viti ekki endilega þann daginn hvert maður stefni. Ég bara trúi því að með því að halda áfram, mæta alltaf aftur og reyna að gera betur en maður gerði í gær að þá séu góðir hlutir í vændum. Það er alveg lygilega stutt á milli hláturs og gráturs og það hefur sýnt sig mörgum sinnum á þessum tíma sem ég hef verið í þessu.“

Hefur alltaf verið svona

„Ég elska að hreyfa mig og ég elska ekkert meira en að hreyfa mig á einhvern hátt úti. Ég nota allan þann tíma sem ég hef til þess að sinna öðrum áhugamálum svo sem fjallahjólum, götuhjólum, snjóbretti, gönguskíðum, vélsleðaferðum, golf og það má eiginlega segja að ég geri fátt annað en að hreyfa mig. Ég hef alltaf verið svona held ég, eða spurðu mömmu,“ segir Björgvin og brosir breitt.

Björgvin á ekki erfitt með að halda sér við efnið þó hann fari í frí. Ljósmynd: Instagram/@bk_gudmundsson.

„Ekkert dýrmætara en að eiga góða fjölskyldu og vini “

Mikilvægi stuðnings frá fjölskyldu og vinum segir Björgvin ómetanlegt og að allt sem hann hefur gert og áorkað í þessu sporti væri ekki mögulegt nema fyrir það að hafa sitt sterka og hvetjandi bakland. „Heiðar Ingi bróðir minn kynnir mig fyrir þessu, hann og María Rúnkonan hans opna Hengilinn í Hveragerði sem gerir mér kleift að byrja að æfa mikið og þjálfa á sama tíma. Þau tvö ásamt foreldrum mínum, kærustu og öllu því ótrúlega fólki sem hefur æft hjá okkur, fylgja mér út á hverju ári til þess að fylgjast með mér og styðja. Ég er með frábæran umboðsmann sem veður drullu og skít alla daga fyrir mig og sækir sponsa svo ég geti lifað sæmilega áhyggjulaus og einbeitt mér að fullu að æfingum. Í „gamla daga“ tók meira að segja einn iðkandi í Henglinum sig til og safnaði dósum fyrir mig til þess að ég gæti komist sæmilega óskaddaður fjárhagslega úr einni ferðinni, mig minnir að það hafi verið fyrir mína fyrstu Heimsleika í Los Angeles 2014. Mér þykir enn í dag vænt um það. Að lokum vil ég kannski minnast á það að það verður allt allt í lagi, jafnvel þó að hlutirnir fari ekki alltaf eins og maður vill að þeir fari, og þegar það gerist er ekkert dýrmætara en að eiga góða fjölskyldu og vini sem standa við bakið á manni sama hvernig fer,“ segir Björgvin að endingu.

Nýjar fréttir