1.7 C
Selfoss

Einmana blómvendir í heimilisleit á Selfossi

Vinsælast

Tinna Bjarnadóttir, eigandi 1905 Blómahúss á Selfossi, mun á sunnudag standa fyrir skemmtilegu framtaki annað árið í röð, þar sem hún dreifir einmana blómvöndum víða um bæinn sem fólki er frjálst að taka til eigu.

Tinna er fædd og uppalin á Selfossi og er nýbúin að byggja sér hús rétt fyrir utan Selfoss. Hún byrjaði á því að læra myndlist, fór svo til Spánar að læra fatahönnun, kom aftur heim og fór í klæðskeranám sem hún lauk ekki, en var samhliða þessu öllu að vinna í blómabúðum. Það var svo árið 2018 sem hún sá ljósið og dreif sig í Garðyrkjuskólann eftir að hafa verið með annan fótinn í blómabúðum í 15 ár.

Einn vöndurinn í fyrra endaði í Árbliki dagdvöl.

Dreifa hamingju og brosum með einu blómi í einu

Lonley bouquet day er ört stækkandi hreyfing sem þróuð var af Emily Averson, bandarískri konu sem búsett var í Belgíu og fékk þá dásamlegu hugmynd að skilja eftir blómvendi víðsvegar um heimabæinn sinn og þar með „dreifa hamingju og brosum með einu blómi í einu“ síðasta sunnudaginn í júní ár hvert.
Tinna rak fyrst augun í framtakið á Instagram árið 2022 en var þá of sein til að taka þátt. „Ég var mjög framsýn og setti áminningu í dagatalið fyrir 2023. Þegar það svo poppaði upp 11 mánuðum seinna hafði ég ekki hugmynd um hvað þetta var. Það kviknaði loks á perunni og ég hafði samband við Grænan markað, þau tóku þau glöð þátt í þessu með mér og í ár er Motívó einnig að styrkja verkefnið,“ segir Tinna í samtali við Dagskrána
Þá segir Tinna að hugmyndin hafi gripið hana um leið og hún sá þetta því henni þyki svo mikill sannleikur í því að blóm gleðji og sá þetta sem kjörið tækifæri til að gleðja fólkið á svæðinu með óvæntum blómvöndum.

Vildi koma á óvart

Egill Gr. Thorarensen benti góðfúslega á einn vöndinn sem gefinn var í fyrra.

Skipulagninguna á fyrsta Lonley boquet deginum segir Tinna hafa verið svolítið bras, þar sem hún vildi ekki auglýsa framtakið. „Ég vildi að þetta myndi koma á óvart. Lausnin var að taka myndir af stöðunum þar sem ég ætlaði að skilja eftir vendi og setja þær á Instagram story til að gefa vísbendingar um að eitthvað væri að fara gerast á sunnudeginum. Okkar helstu fylgjendur voru byrjaðir að giska en ég held að enginn hafi haft rétt fyrir sér, svo við skelltum í eitt myndband til að gefa smá hugmynd um hvernig þetta virkaði.“
Í fyrra spáði rigningu en allir vendirnir, sem voru 10 talsins, voru blessunarlega komnir með eigendur áður en hún kom. „Viðbrögðin voru góð, margir voru hissa og áttuðu sig ekki alveg á hvað væri í gangi. Við fengum t.a.m. falleg skilaboð frá Hafnarfirði, þar sem einn vöndurinn hafði endað og önnur frá einni sem hafði séð vönd við sundlaugina en ekki þorað að skoða hann nánar. Allir vendirnir eru merktir svo enginn lendi í að taka eitthvað sem ekki má.“

Tækifæri til að gefa gleðina áfram

Tinna bindur vonir við að blómin gleðji og geri daginn bjartari, sérstaklega miðað við veðrið sem einkennt hefur það sem af er sumri, og mögulega gefi þau einhverjum tækifæri til að gefa þau og gleðina áfram.

Helsta markmiðið með að endurtaka verkefnið segir Tinna vera að gleðja fleiri með blómum. „Þetta er tilvalið tækifæri til að rölta um fallega bæinn okkar og mögulega fara heim með blóm, eða koma við í heimsókn hjá ömmu, afa, frænku eða frænda sem sjaldan er kíkt til og færa þeim blóm,“ segir Tinna og brosir breitt.

Blóm gefa gott í hjartað

Tinna segir undirbúning hafa varið vel af stað. „Við fengum smá styrki sem hjálpa mikið þegar svona verkefni eru gerð. Aðal breytingin í ár er að vendirnir verða fleiri. Það gefur mér mikið að geta gert þetta og gefið Selfossi smá lit í einn dag með fallegum blómum og vonandi glatt bæjarbúa örlítið. Ég hef svo mikla trú að því hvað það gefur okkur mikið að hafa blóm og plöntur í kringum okkur. Það gefur gott í hjartað og það er best,“

Þessir fallegu blómvendir rötuðu allir inn á ný heimili.

Meiri blóm meiri gleði

Þá segist hún vona það innilega að Lonley bouquet day verði að árlegum viðburði á Selfossi og jafnvel víðar. „Ef fleiri vilja taka þátt í þessum degi tökum við því fagnandi og hvetjum áhugasama til að hafa samband við okkur á Instagram/1905blomahus. Meiri blóm meiri gleði!“ Aðspurð um fleiri hugmyndir til að auka gleði og samheldni í samfélaginu segir Tinna: „Það eru alltaf 25 flipar opnir, spurning hvað verður og hvað ekki. Við eigum 3 ára afmæli í júlí og þá ætlum við aftur að dreifa gleðinni með blómum en á annan hátt.“

Uppáhalds blóm Tinnu segir hún brosandi að fari ekki eftir árstíma, heldur geti það breyst fyrir og eftir hádegi. Hún segir, aðspurð um uppáhalds árstíð, að vorið þegar öll laukblómin komi á markað, sé yndislegur tími, en það séu ný blóm sem fylgi hverri árstíð svo það sé mjög erfitt að gera upp á milli. „Partur af gleðinni er að það sé ekki allt í boði alltaf.“

Um 25 vendir í heimilisleit

Ráð Tinnu til annarra sem vilja taka þátt í eða hefja sambærileg verkefni er að kýla bara á það. Hún segir að það sé magnað hvað gerist þegar þú byrjar að tala við fólk og hversu margir eru til í að taka þátt í svona skemmtilegum verkefnum sem lyfta upp samfélaginu. „Ef þú færð hugmynd sem þú trúir á, talaðu við fólkið sem þú heldur að geti/vilji taka þátt. Það gerist ekkert ef þú segir engum frá og það er fátt sem við getum gert alveg ein þegar það kemur að svona verkefnum. Ég ætlaði að borga fyrir þetta allt sjálf í fyrra en fékk aðstoð og gat því gert þetta almennilega með 10 veglegum vöndum. Í ár er ég að bera bróðurpartinn af þessu sjálf en með aðstoð þá erum við að tvöfalda bómamagnið og stefnum á 15 veglega vendi og um 10 minni. Vonandi verður þetta til þess að fleiri vilji taka þátt að ári og við getum gert enn meira. Ætli þetta endi svo ekki í enn einni bæjarhátíðinni? Nei djók,“ segir Tinna hlæjandi að lokum.

Nýjar fréttir