3.9 C
Selfoss

Anna Guðrún setti fjögur heimsmet og sex Evrópumet eftir umdeilt keppnisbann

Vinsælast

Anna Guðrún Halldórsdóttir náði frábærum árangri á Evrópumeistaramótinu í ólympískum lyftingum sem haldið var í Haugesund í Noregi um síðustu helgi, þar sem hún setti fjögur heimsmet og sex Evrópumet. Anna Guðrún, sem keppir í flokki 55-59 ára í -87 kg, skaraði fram úr keppinautum sínum og varð margfaldur Evrópumeistari.

Hún setti heimsmet í jafnhöttun með því að lyfta 78 kg. Áður á mótinu hafði hún sett heimsmetið á 76 kg, en fyrra metið var 74 kg. Jafnframt setti Anna Guðrún tvö ný Evrópumet í jafnhöttun, þar sem fyrra metið var 62 kg. Hún setti einnig heimsmet í samanlögðu með því að lyfta 136 kg, eftir að hafa áður sett heimsmetið á 132 kg fyrr á mótinu. Fyrra metið var 129 kg.

Auk þess setti Anna Guðrún tvö ný Evrópumet í samanlögðu, þar sem fyrra metið var 115 kg. Einnig setti hún Evrópumet í snörun með því að lyfta 58 kg. Áður á mótinu hafði hún sett metið með því að lyfta 56 kg, en fyrra Evrópumetið var 55 kg.

Anna Guðrún, baðandi út höndum, svífandi á bleiku skýi undir tilkynningu um heimsmet. Ljósmynd: Gunnar Biering Agnarsson.

„Ég fór á Mediterranean Masters International Open Turnament í Durres í Albaníu í apríl til að „hita upp“ fyrir erlend mót og ná úr mér skjálftanum fyrir Evrópumótið. Þar var ekki hægt að setja alþjóðleg met en árangur þar taldist til Íslandsmeta. Mótið gekk vel, allar 6
lyfturnar gildar,“ segir Anna Guðrún í samtali við DFS.is.

„Planið fyrir 17.júni var, líkt og á öllum öðrum mótum, að ná 6 gildum lyftum. Það hafði ekki klikkað hjá mér fram að þessu. Á Evrópumótinu tók ég allar lyftur gildar í fyrri hlutanum, snörunn (snatch). 54-56-58 kg þar sem 56 og 58 kg voru Evrópumet (eldra met var 55 kg). Síðari hlutinn, jafnhöttun (clen og jerk) byrjaði á ógildri 74kg tilraun. Ég varð virkilega reið og ákvað að halda mig við áður ákveðið plan og þyngja frekar en að reyna aftur við sömu þyngd. 76 kg fóru upp, lyfta gild. Evrópu- og heimsmet og þar með Evrópu- og heimsmet í samanlögðu (lyftur tvö í hvorum hluta, samtals 132 kg). Hér var eldra met 62 kg og aðeins 115 kg í samanlögðu. Lyfta 3 var svo líka gild og þar með sló ég þau met sem ég setti á undan og á því núna skráð.“

„Líðanin er mjög góð. Glöð með að hafa náð aftur þeim árangri/titli sem ég
missti fyrir rúmum tveimur árum. Mæli með að gefast aldrei upp til að ná
sínum markmiðum og draumum. Nú er markið sett hærra sem verður vonandi að
veruleika í september, heimsmeistaratitill,“ segir Anna Guðrún, aðspurð um líðanina eftir þennan stórkostlega árangur.

Keppnisbann vegna notkunar tíðahvarfalyfja

Árið 2021 vann Anna Guðrún til gullverðlauna á sama móti, þar sem hún setti sömuleiðis tvö heimsmet og birti nokkrum mánuðum síðar eftirfarandi texta í færslu á Facebook: „Ég sveif á bleiku skýi, alsæl með árangurinn. Svo kom skellurinn! Í des sl., tveim mánuðum eftir mótið, fékk ég að vita að lyfið sem ég nota við tíðahvörfum er á lista yfir bönnuð lyf! Hva? Ertu ekki að grínast? Yfirvofandi keppnisbann vegna lyfs sem nokkur þúsund konur á Íslandi eru að nota að staðaldri!“

„Ég féll á lyfjaprófi en ég var að nota lyfið Livial við tíðarhvörfum sem er mjög algengt meðal kvenna og í því er Tibolone, efni sem er á bannlista alþjóðlega lyfjaeftirlisins WADA.
Lyf lík því sem ég tók (er lyfjalaus í dag) er mikið notað af stórum hluta kvenna til að gera daglegt líf þeirra bærilegra. Skandall að þetta örlitla magn af testósteróni felli keppanda því yngri konur framleiða sjáfar, jafnvel meira testósteróna en við að eldast minnkar sú framleiðsla í líkamanum,“ bætir Anna Guðrún við.

„Ég er Evrópumeistari en alls ekki heimsmeistari, bara heimsmethafi. Til að verða heimsmeistari þarf ég að vinna minn flokk á heimsmeistarmóti, svo næst á dagskrá er heimsmeistarmót í Rovaniemi í Finnlandi í september næstkomandi. Vonandi tekst mér þar að bæta metin sem ég setti í Noregi og einnig að vinna minn flokk,“ segir Anna Guðrún að lokum.

Nýjar fréttir