2.8 C
Selfoss

Takk Árborg

Vinsælast

Ég vill byrja á að segja að ég kem ekki úr pólitík, er hvorki að stefna í þá átt né sækja um einhverja stöðu hjá sveitafélaginu eða ríkinu. Ég er nú samt að skrifa þetta stutta bréf til að þakka fyrir mig, þakka sveitarfélaginu Árborg. Já þú last rétt, ég kem hér undir nafni og vill þakka sérstaklega fyrir þá þjónustu sveitarfélagsins sem ég hef hlotið og það starfsfólk Árborgar sem hefur þjónustað mig, hvort sem er á bókasafninu á Selfossi eða strætóbílstjórana sem keyra á milli staða. Það er sérstakt að maður þurfi að afsaka sig áður en maður þakkar fyrir sig en svona er nú staðan í dag. Ég er stöðugt á ferð og flugi um Árborg, hitti margt fólk og get þess vegna sagt með fullvissu að ég finni vel púlsinn í samfélaginu. Það má með sanni segja að púlsinn sé eitthvað daufari en best væri á kosið. Fólk virðist t.d. telja sér til dægrastyttingar upp alla þá neikvæðu hluti um Árborg sem það man eftir. Því hefur maður tekið eftir. Þess þá frekar vildi ég setjast niður og skrifa þetta bréf, telja upp þá jákvæðu hluti sem verða á vegi mínum daglega og þá meina ég ekki holurnar í veginum. Einfaldlega vegna þess að ég er mikill fylgjandi þeirrar hugmyndafræði sem segir að jákvæðni byggi upp og neikvæðni dragi niður. Auðvitað má ýmsu breyta til batnaðar eins og fyrrnefndar holur í veginum eða langan biðtíma eftir leikskólaplássi, en ég kýs að nota þessi skrif til að benda á það sem gott er og minna kæra lesandur á að ekki fyrirfinnst það sveitarfélag landsins sem ekkert má betur fara.

Fyrir það fyrsta vill ég þakka sveitarfélaginu fyrir gjaldfrjálsa strætisvagninn sem kemur tímanlega og á skipulögðum ferðum til að skutla mér daglega til og frá vinnu. Bílstjórarnir eru vinalegir og vagninn er alltaf hreinn (ég veit ekki til þess að svona þjónusta sé í boði annarsstaðar á landinu nema á Akureyri).

Ég vill þakka starfsmönnum og stjórn bókasafns Selfoss fyrir góða þjónustu og frítt kaffi, þangað leita ég nær daglega til að læra og það klikkar ekki að stærðfræðin er alltaf skiljanlegri á bókasafni Selfoss.

Þar sem ég er íbúi á ströndinni vill ég líka þakka Árborg fyrir að halda áfram og næstum klára malbikaðan hjólastíg.

Hjá Árborg hvort sem er í skólunum fjórum, sundlaugum, bókasafni, skrifstofum eða strætisvögnum er almennt mjög hár standard hvað varðar starfsfólk og að mínu mati hefur sveitarfélagið okkar upp á að bjóða einhvern besta starfshóp sem hugsast getur, þeim vill ég öllum þakka fyrir þau þúsunda skipta sem mér hefur verið mætt með þjónustulund og vinsemd.

Takk fyrir mig,

Símon Gestur Ragnarsson

Mynd:

(Símon Gestur Ragnarsson)

Nýjar fréttir