-6.9 C
Selfoss

Pylsuvagninn, Ingunn og þúsund stelpur

Vinsælast

Innilegar hamingjuóskir mæðgur Ingunn Guðmundsdóttir og Þórdís með Pylsuvagninn í fjörutíu ár. Við eldri Selfyssingar og ferðamenn munum Pylsuvagninn á hans bernskudögum. Ekki hvarflaði að okkur þá að fjörutíu árum síðar stæði hann við brúarsporðinn gegnt Tryggvaskála og væri lykillinn að þjónustu við ferðamenn sem hér fara um og búa á staðnum. Nú er Pylsuvagninn staðartákn og margur ferðamaðurinn fær vatn í munninn þegar rennt er inn í bæinn okkar og höfuðstað Suðurlands.

Að hugsa sér Ingunn! Að eitt þúsund stúlkur hafi lært að vinna hjá þér og þjónusta ferðamenn. Alltaf er gott að koma í biðröðina svangur og mæta stelpunum þínum brosandi, takandi niður pantanir og svo líður umferðin áfram og sælir njótendur veitinganna aka á góðan stað og gæða sér á veislukostinum.

Við Margrét ökum oft upp á árbakkann og njótum þess að virða fyrir okkur fljótið mikla sem í þúsundir ára hefur runnið þessa leið meðan við gæðum okkur á puslu eða hamborgara frá þér og stelpunum þínum. Oft í örtröð er gaman að fylgjast með stelpunum sem koma út og taka pantanir, kannski úr fimm bílum í einu, skrifa ekki staf niður ganga inn og allt er eins og á besta veitingastað heimsborganna í röð og reglu.

Að gefa ungri stúlku kost á að læra að vinna á svona stað er í raun gráða í Háskóla lífsins. Ég er viss um, Ingunn og Þórdís, að stelpurnar ykkar búa að þessari reynslu allt lífið. Nú ætla ég ekki að giska á hvað margar SS-pylsur hafa verið afgreiddar út um lúguna á Pylsuvagninum? Bændur landsins eiga að flagga fyrir ykkur.

Næringarfræðingar hafa sagt mér að SS-pylsan væri hollur skyndibiti og nærandi. Svo umlykur sagan Pylsuvagninn, æskustöðvar þínar Ingunn, hafnarsvæðið handan götunnar orðinn einn fallegasti miðbær í Evrópu. Egill Thorarensen um margt Jarl liðins tíma en sígildur sem hvatning ungu fólki til afreka tekur ofan hattinn fyrir nýjum tímum við Brúartorgið okkar.

Innilegar hamingjuóskir mæðgur með ykkar mikla þjónustustarf fyrir héraðið okkar og landið allt í fjörutíu ár.

Guðni Ágústsson

Nýjar fréttir