-8.5 C
Selfoss

Að kafa með innsæi inn í tilfinningar og hugsanir kvenna

Vinsælast

…segir lestrarhesturinn Þorbjörg Arnórsdóttir

Þorbjörg Arnórsdóttir er forstöðumaður Þórbergsseturs á Hala í Suðursveit. Hún var og er mikill lestrarhestur en erill daganna veitir ekki alltaf hugarró til lesturs. Því hlustar hún mikið á bækur um þessar mundir og þá helst á akstri milli staða. Það er notaleg viðbót til að njóta bókmennta og nýta til þess tímann í innkaupaferðum og á lengri ferðalögum.

Hvaða bækur ertu að lesa núna?

Um þessar mundir er ég að lesa bókina Úr þagnarhyl eftir Þorleif Hauksson sem fjallar umljóðskáldið Vilborgu Dagbjartsdóttur. Það er sannkallaður yndislestur. Einnig eru ljóðabækurVilborgar á náttborðinu ásamt öðrum ljóðabókum eins og Safnbók íslenskra ljóða og ljóðabækur Ingibjargar Haraldsdóttur. Ég er ein af þeim sem gríp ljóðin sem hálmstrá svo notað sé orðalag Ingibjargar Haraldsdóttur. Ljóðin eru nauðsynleg, þau hefja mann upp úr gráma hversdagsins.Ég er þeirrar skoðunar að ljóð eru listaverk sem fá hugann til að svífa og gefa einstaka lífsfyllingu. Ég les ljóð nær því á hverjum degi ef ég eignast friðarstund ogþá oft sömu ljóðin.

Hvernig bækur höfða helst til þín?

Það eru ljóðabækur og ævisögur sem segja frá lífsbaráttu liðinna kynslóða og þá skimar maður gjarnan eftir lífshlaupi og tilfinningum kvenna.

Fékkstu lestraruppeldi í æsku?

Já ég var mikill lestrarhestur sem barn og varð snemma læs. Amma mín og nafna rétti mérmargar bækur en þar nefna skáldsögur Jóns Trausta, Elínborgar Lárusdóttur, Knuts Hamsun, Fjallkirkju Gunnars Gunnarssonar og fleiri verk. Svo lásum við amma allar ástarsögur Margrétar Ravn af mikilli áfergju. Uppáhalds barnabækurnar mínar eru Bróðir minn Ljónshjarta og Benjamín dúfa eftir Friðrik Erlingsson sem ég las fyrir skólabörnin í Hrollaugsstaðaskóla í Suðursveit á árum áður.

Eitthvað sem einkennir lestrarvenjur þínar?

Í raun og veru ekkert sérstakt. Bókin er bara alltaf við hliðina á mér til að grípa í og síðanhlusta ég á bækur í bílnum. Það er afar handahófskennt hvenær er friðarstund eða hugarró til bóklestrar.

Áttu þér einhverja uppáhaldshöfunda?

Já margar en þar er auðvitað Þórbergur Þórðarson fremstur í flokki en einnig Guðmundur Böðvarsson ljóðskáld. Af yngri höfundum er það Pétur Gunnarsson, Ari TraustiGuðmundsson, Vilborg Davíðsdóttir og Þórunn Jarla Valdimarsdóttir auk þeirra sem áður eru nefnd.

En hefur bóklestur haldið fyrir þér vöku?

Í seinni tíð hefur það aukist að bækurnar hafi svæft mig. En ég hef átt margar langar nætur yfir spennandi lestrarefni áður fyrr.

En að lokum Þorbjörg, hvernig rithöfundur býr í þér?

Ef ég væri rithöfundur myndi ég grúska í lífi formæðra minna og skrifa um þær sannar sögur en reyna um leið að kafa með eigin innsæi inn í tilfinningar þeirra og hugsanir. Þannig mætti segja að sögur mínar yrðu nokkurskonar ævisögur með skáldlegu ívafi.

Nýjar fréttir