Berglind Rós Ragnarsdóttir er matgæðingur vikunnar að þessu sinni.
Ég vil þakka henni Gunnu Möggu vinkonu minni og samstarfskonu kærlega fyrir þessa skemmtilegu áskorun.
Ég ákvað að deila með ykkur uppskrift af stroganoffi sem ég elda 2-3x í mánuði við mikinn fögnuð fjölskyldunnar. Þetta er jafnvel enn betra daginn eftir svo mæli með að gera ríflegt magn og borða dagana á eftir.
Nautastroganoff
- 500-700 g nautakjöt skorið í strimla (nota sjálf oftast Sirloin en hægt að nautagúllas líka)
- 2 msk. ólívuolía
- 2-3 msk. smjör
- 1 lítill laukur skorinn gróft
- 250 g sveppir skornir í sneiðar (mér finnst best að hafa þá svolítið þykkskorna)
- 1 hvítlauksgeiri rifinn niður
- 1 msk. hveiti
- 2,5 dl nautasoð
- 2-3 dl rjómi
- 1/2 dl sýrður rjómi (18-36%)
- 1 msk. Worcestershire-sósa
- 1/2 tsk. dijon sinnep
- Salt og svartur pipar eftir smekk
Hitið olíuna á pönnu og steikið kjötið í ca. 1 mínútu á hvorri hlið. Gott er að steikja fyrst annan helminginn af kjötinu og svo hinn því þá ná þeir að brúnast betur í stað þess að soðna á pönnunni. Setjið kjötið á disk og leggið til hliðar.
Næst setjið þið 2-3 msk af smjöri á pönnuna og steikið lauk og sveppi í um 8-10 mín eða þar til vökvinn hefur gufað upp og þetta er farið að brúnast aðeins. Bætið þá hvítlauknum út á og steikið áfram í 1 mín. Þá er hveitið hrært saman við og svo nautasoðið (hellið því í litlum skömmtum og hrærið stanslaust á meðan).
Hellið rjómanum núna saman við og leyfið þessu að malla í 2-3 mínútur eða þar til þetta fer að þykkna. Hrærið svo sýrða rjómanum við.
Núna fer Worcestershire-sósa og dijon sinnep saman við ásamt salti og pipar (smakkið til á þessum tímapunkti og bætið við sinnepi, salti og pipar eftir smekk). Leyfið þessu að malla áfram í nokkrar mínútur og setjið svo steikta kjötið út í sósuna.
Látið þetta malla áfram stutta stund eða þar til kjötið hefur hitnað í gegn. Ég persónulega kýs að leyfa þessu að malla góðan hálftíma á lágum hita.
Þar sem ég á þýska fjölskyldu þá finnst mér best að borða þetta með Spätzle sem ég geri sjálf frá grunni og með sérstöku eldhúsáhaldi sem ég hef því miður ekki fundið á Íslandi. Því er kannski bara einfaldast að hafa kartöflumús með þessu sem klikkar aldrei.
Ég vil skora á tengdamóður mína hana Gudrun Kloes að koma með uppskrift því allt sem hún eldar og bakar slær í gegn!