-3.2 C
Selfoss

Minna stress og meiri gleði

Vinsælast

Skreytingaþjónustan Tilefni var stofnuð í maímánuði árið 2023 af þeim Rakel Guðmundsdóttur og Hönnu Margréti Arnardóttur.

Rakel er 32 ára og Selfyssingur í húð og hár, hún flutti til Reykjavíkur árið 2014 og náði sér í BA- gráðu í tómstunda og félagsmálafræði árið 2017 en segir hjartað hafa kallað aftur heim á Selfoss þangað sem hún flutti ásamt kærastanum sínum, Alberti Fannari Jónssyni. Saman eiga þau Inga Hrafn, 9 ára gaur og næstum þriggja ára litla ráðskonu, Guðrúnu Ösp. Rakel segist þykja fátt skemmtilegra en að vera í kringum fólk og að vinna með fólki, sé sannkölluð „people person,“ sem henti vel hjá Tilefni, þar sem þær eigi í miklum samskiptum við viðskiptavini alla daga.

Hanna Margrét er líka 32 ára, fædd og uppalin í Kópavogi. Hún flutti á Selfoss ásamt unnusta sínum, Andra Hrafni Hallssyni, á Selfoss árið 2019 og hafa þau komið sér vel fyrir í bænum og búa ásamt dóttur sinni, Kötlu Marín, sem verður þriggja ára í júlí.

Hanna er með BA-gráðu í fatahönnun úr Listaháskóla Íslands og MS-gráðu í markaðsfræði úr Háskólanum á Bifröst. Hún segist alltaf hafa haft mikla þörf fyrir að skapa og hanna og mætti því segja að hún hafi fundið köllun sína hjá Tilefni þar sem sköpunargleðin er allsráðandi.

Blómaveggir og neonskilti eru vinsælar leiguvörur hjá Tilefni.

Skortur á fallegum veisluvörum á Suðurlandi kom öllu af stað

Stelpurnar segjast í samtali við DFS.is hafa haft hugmyndina að Tilefni á bakvið eyrað í um það bil ár áður en þær tóku af skarið. „Okkur fannst mikill skortur af fallegum veisuvörum hér á Suðurlandi fyrir stór sem smá tilefni. Það var fyrst og fremst þessi skortur á slíkum vörum sem kom hugmyndinni af stað. Mánuðina áður vorum við báðar búnar að vera að halda margar veislur sem fylgdi því mikil keyrsla í Höfuðborgina og segja má að það hafi verið punkturinn yfir I-ið sem kom okkur af stað. Við höfum einnig báðar haft mikinn áhuga á því að fara út í eigin rekstur og hugmyndin um það að stofna okkar eigið fyrirtæki var bæði spennandi en því fylgir einnig mikil óvissa, sérstaklega í byrjun. En við vorum alveg ákveðnar í því að fara út í þetta saman og sjá hvernig þessi litla hugmynd myndi ganga.“

„Alls ekki auðveld ákvörðun“

Það var svo í maí árið 2023 sem ákvörðunin um að demba sér í þetta og stofna fyrirtæki saman var tekin. „Fyrsta skrefið var að finna nafn og það var aldeilis ekki auðveld ákvörðun, fyrr en nafnið Tilefni kom upp. Tilefni lýsir okkar fyrirtæki mjög vel í einu orði. Rakel átti upprunalega hugmyndina af því að opna partývöruverslun á Selfossi og ég bætti við þeirri hugmynd að bjóða upp á hönnun og uppsetningu á skreytingum fyrir ýmis tilefni. Þannig varð þetta konsept til hjá okkur. Þegar nafnið var komið á hreint fórum við á fullt í að hanna logo og skoða framleiðendur. Við vorum komnar með þvílíkt magn af vörum en áttuðum okkur svo fljótlega á því að við gætum kannski ekki keypt allar skreytingar í heiminum, þannig við tókum þá ákvörðun að byrja einungis með blöðrur og leiguvörur. Fyrsta leiguvaran okkar var kampavíns-/fordrykkjarstandur sem við hönnuðum sjálfar og létum smíða fyrir okkur, en hann hefur verið lang vinsælasta leiguvaran okkar hingað til og komum við til með að gera fleiri útfærslur í framtíðinni,“ segir Hanna.

Óvart frábær auglýsing

Næsta skref var að búa til netverslun, en í millitíðinni ákváðum við að prófa að opna reikninga í nafni Tilefni.is á samfélagsmiðlum, þ.e. TikTok, Instagram og Facebook. Eftir fyrsta TikTok-ið okkar, þar sem við sýndum frá skreytingum hjá starfsmannapartý Sýn, fór orðið að berast og allt fór af stað í rauninni. Við áttuðum okkur ekki á því hversu margir myndu sjá þetta eina TikTok og áður en við vissum af voru helgarnar okkar farnar að fyllast af verkefnum, sem gerði það að verkum að við höfðum lítinn tíma til að sinna heimasíðu okkar. Heimasíðan okkar opnaði svo í loksins í lok mars 2024 og höfum við verið að byggja hana upp síðan,“ bætir Rakel við.

Stelpurnar segja að meðal helstu áskorana sem þær þurfi að klást við séu sérsniðnu tilboðin fyrir viðskiptavini þeirra. „Í hvert og eitt tilboð fer mikil hugmyndavinna fram. Oft á tíðum getur það verið krefjandi að koma með nýjar og ferskar hugmyndir þegar við erum með marga viðburði í sömu vikunni. Við skissum oftast upp þær hugmyndir sem við fáum og getur það verið tímafrekt en það er eitt af því skemmtilegasta sem við gerum. Persónulega finnst okkur mest krefjandi að vera svona mikið í burtu um helgar frá fjölskyldunni okkar. En eins og með allt þá fylgja þessu auðvitað kostir og gallar. Kostirnir sennilega það að við höfum fengið ófá boð í mjög svo skemmtileg partý,“ segir Rakel og hlær.

Ganga spenntar inn í öll verkefni

Hanna segir þær alltaf hafa trúað að gott orðspor sé það mikilvægasta fyrir þeirra fyrirtæki. „Við reynum því að mynda tengsl við flesta okkar viðskiptavini, fyrst og fremst til að mæta þeirra þörfum og helst fara fram úr væntingum þeirra. Við erum mjög liðlegar og okkur finnst fólk kunna vel að meta það. Við höfum einnig lagt okkar fram við að styðja ungt og efnilegt íþróttafólk á Selfossi að bestu getu. Í okkar bók eru ekki til nein vandamál heldur bara lausnir. Við göngum spenntar inn í öll verkefni og það skemmtilegasta er hvað verkefnin eru ólík, sem gerir starfið okkar fjölbreytt og skemmtilegt.“

Þá segir Hanna viðbrögðin hafa verið mjög góð. „Sunnlendingar hafa margir hverjir talað um að Tilefni sé mjög góð viðbót við samfélagið. Við finnum almennt fyrir því að fólk sé ánægt með að þurfa ekki að keyra yfir heiðina. Það eykur þægindin við veisluhöld að geta nálgast skreytingar í sínu bæjarfélagi. Við höfum verið að mæta og setja upp skreytingar hér á Suðurlandi og tala lang flestir um hvað þessi þjónusta er mikill léttir, þ.e. að þurfa ekki að standa í stressinu við að skreyta sjálf. Við mætum og gerum allt klárt sem þýðir, minna stress og meiri gleði,“ segir Hanna og brosir breitt.

Stelpurnar segja þeirra helstu viðskiptavini í skreytingaþjónustunni vera fyrirtæki, en að í vefversluninni tróni Sunnlendingar á toppnum. “Sem er frábært! Eins og er höfum við nálgast flesta okkar viðskiptavini í gegnum samfélagsmiðla og orðið hefur borist hratt manna á milli. Við höfum ekki mikið verið að gera kostaðar auglýsingar því það hefur einfaldlega verið nóg að gera hjá okkur,“ segir Rakel kát.

Fólk fer alla leið í skreytingum

„Við höfum tekið eftir því að fólk sé almennt tilbúið að fara alla leið í skreytingum. „Trendin“ breytast reglulega og höfum við tekið eftir tískubylgjum í veisluhöldum. Við teljum að samfélagsmiðlarnir spili þar stórt hlutverk, þ.e. miðlarnir hafa áhrif á hvað fólk vill. Sem er eðlilegt þar sem hægt er að skoða svo mikið í dag á öllum helstu miðlum, t.d. Pinterest, TikTok, Instagram og fleira,“ bætir Hanna við.

Þá segjast þær sjá stór tækifæri á markaðnum fyrir leiguvörur. „Fólk vill sjá eitthvað nýtt og við reynum eftir bestu getu að koma með fallegar leiguvörur fyrir okkar viðskiptavini og sýna þeim ýmsar útfærslu á því hvernig er hægt að nota vörurnar. Við stefnum á að koma með fleiri leiguvörur sem fólk getur nýtt fyrir öll tilefni, stór sem smá! Einnig sjáum við tækifæri fyrir netverslunina okkar, tilefni.is, til að vaxa hér á Suðurlandi og munum við koma til með að bæta við vöruúrval okkar þar,“ segir Rakel.

Þríþætt þjónusta

Þjónustan sem Tilefni býður uppá er þrennskonar; netverslun, skreytingaþjónusta og leiguvörur. Í netverslunni má finna veisluvörur fyrir ýmiskonar tilefni þ.e. blöðrur, borðskraut, afmæliskerti, veifur, diska, glös, servíettur og margt fleira. Viðskiptavinum býðst svo að sækja pantanirnar þeim að kostnaðarlausu eða velja sendingarleið með Dropp.

„Skreytingarþjónustan býður upp á ráðgjöf og uppsetningu á vörunum okkar. Við höfum verið að skissa upp heilu árshátíðirnar, brúðkaup og önnur tilefni til að auðvelda viðskiptavininum að skreytingarnar betur fyrir sér. Því næst mætum við á staðinn, stillum öllu upp, komum svo daginn eftir og göngum frá öllum skreytingum,“ bætir Hanna við.

Leiguvörurnar eru af ýmsum toga og segjast stelpurnar finna að fólk sýni þeim mikinn áhuga. Þær hafa sömuleiðis pantað vörur út frá eftirspurn viðskiptavina á borð við blómaveggi og blómaboga sem eru vinsælir í brúðkaupsveislum. Þá eru þær með þrjár týpur af LED-skiltum, kampavínsstand, álbala, kertastjaka, diskókúlur í nokkrum stærðum, sýningarstólpa, hör servíettur, nammibar og margt fleira.

Sérmerktar blöðrur vinsælar

„Skreytingaþjónustan er klárlega vinsælasti hluti þjónustunnar okkar. Hins vegar koma leiguvörurnar þar sterkar á eftir og er fólk farið að bóka helling fyrir árið 2025, þannig það er ekki hægt að kvarta yfir því. Netverslunin okkar fer einnig mjög vel af stað en það eru einungis þrír mánuðir síðan hún opnaði.  En við bjóðum upp á að sérmerkja blöðrur og hefur það verið mjög vinsælt hjá okkur,“ segir Rakel.

Aðspurðar hvernig ráðgjöf og uppsetning á vörum þeirra fer fram segja þær: „Við erum í góðu sambandi við alla okkar viðskiptavini. Áður en við förum í að koma með einhverskonar ráðgjöf fáum við alltaf myndir af salnum/staðnum þar sem veislan verður haldin eða við mætum og skoðum. Oft hefur fólk fyrirfram ákveðnar hugmyndir um til dæmis litasamsetningar og týpur af skreytingum. Út frá því förum við í hugmyndavinnu (með óskir viðskiptavina í huga), skissum niður skreytingar og stingum upp á skreytingum og staðsetningu fyrir þær. Þegar tilboð er samþykkt mætum við og setjum upp. Einnig bjóðum við upp á að koma daginn eftir og taka niður ef viðskiptavinur óskar eftir því.“

Þá telja þær þessa þríþættu þjónustu greina þær frá öðrum aðilum í svipuðum rekstri. „Þú getur keypt það sem þig vantar fyrir veisluna, leigt vörur sem þú myndir ekki endilega hafa not fyrir eftir veisluna og fengið okkur til að setja allt upp til að spara þér tíma og stress. Einnig reynum við að vera duglegar að koma með hugmyndir af öðruvísi skreytingum og leiguvörum sem aðrir eru ekki með.“

Næsta verkefni að setja upp verslun

Á næstu misserum stefna þær á að stækka Tilefni enn frekar. „Næsta verkefnið okkar er að setja upp litla verslun í bílskúrnum hjá Hönnu þar sem fólk getur gengið inn, skoðað og keypt það sem það vantar. Við teljum mikilvægt að hafa góða aðstöðu fyrir viðskiptavini okkar til að koma og sækja eða versla vörur. Einnig að fólk geti gengið inn og átt samtal við okkur. Það er svona helsta markmiðið okkar þessa stundina,“ segir Rakel.

„Til að stækka umfram það þyrftu að vera fleiri tímar í sólarhringnum,“ segir Hanna og hlær. „Nei, við sjáum fyrir okkur að ráða inn starfsmenn í skreytingaþjónustuna, þá strax getum við tekið fleiri viðburði hverja helgi. Við erum náttúrulega bara tvær í teymi og höfum max verið að taka tvo viðburði á dag. Ef við værum með starfsmann/menn þá myndi það auka getu okkar til að taka við fleiri viðburðum.“

Alltaf saman

Þá segja þær það að vera vinkonur saman í rekstri gangi ótrúlega vel. „Við erum samtaka með flest allt, auðvitað getur það verið krefjandi að vera vinkonur í rekstri þar sem við endum eiginlega alltaf á því að tala um fyrirtækið okkar þegar við erum „ekki í vinnunni“ en við höfum fundið mjög gott jafnvægi og sýnum hvor annarri mikinn skilning og styðjum hvor aðra. Svo er ekkert verra að dætur okkar eru bestu vinkonur. Ef við erum ekki að vinna saman þá erum við með stelpurnar okkar að leika saman. Þannig við sem sagt erum nánast saman 24/7,“ segir Rakel og hlær.

„Það er smá ótrúlegt að segja frá því, að við Rakel kynntumst bara fyrir tæpum 3 árum, þegar góður vinur okkar kynnti okkur og strax fundum við góða tengingu. Og hér erum við í dag,“ bætir Hanna við og brosir út að eyrum.

Hanna segir það skemmtilegasta við starfið líklegast vera hvað það er fjölbreytt. „Og skapandi, gott að geta fengið útrás á sköpunargleðinni. Einnig höfum við kynnst ótrúlega mikið af skemmtilegu fólki og alltaf gaman að koma og skreyta fyrir öll tilefni þar sem fólk er almennt mjög „ligeglad“ og spennt“.

Erfitt að velja uppáhalds

Sú skreyting/veisla sem trónir á toppnum hjá þeim er opnunarpartýið þeirra á Sviðinu á Selfossi. „Það var mikið skreytt í okkar litum og mikið af leiguvörum frá okkur. Annars er mjög erfitt að velja á milli, svo mikið af ólíkum og skemmtilegum partýum en við getum t.d. nefnt veislur hjá Blush, Nammilands þema hjá SÝN, Árshátíð Securitas í laugardalshöll og Beautyblender veröldin á skemmtistaðnum HAX. Það sem þessar veislur eiga sameiginlegt er að skreytingarnar fóru alla leið og pælt var í hverju smáatriði sem okkur fannst mjög skemmtilegt að fá að taka þátt í.“

Þær hafa verið virkar á TikTok þar sem þær hafa sýnt hvað gerist á bakvið tjöldin. „Þar sýnum við frá ferlinu frá A-Ö, undirbúning, koma öllu inn í bíl, uppsetningu á skreytingum og lokaútkomu. Við höfum að minnsta kosti heyrt það frá ófáum að þeim finnst áhugavert að fylgjast með því hvernig allt saman fer fram. Einnig erum við mjög virkar á Instagram þar sem við sýnum nýjar vörur, frá pöntunum og margt fleira skemmtilegt,“ segja stelpurnar að lokum.

Nýjar fréttir