2.3 C
Selfoss

Á leið til Canaryeyja

Vinsælast

Senjórítur Sangría og sól söng Laddi um árið og lýsti í lagi sínu ferðalögum sólarþyrstra Íslendinga á sólarstrendur, enda umtalsverð sólskinsvöntun á okkar ágæta landi og því sækir landinn enn sem áður í að heimsækja sólarlönd.

Lítið hefur breyst hvað ferðirnar varðar, enn er sótt í sólastrendur af landanum til lengri og skemmri dvalar, þó eru e.t.v. merkjanlegar breytingar frá því sem áður var, það eru: Aldurssamsetning ferðalanga, áfangastaðir og e.t.v. tími ársins sem farið er. Meiri hluti sólarfíkla sem sækist í síauknum mæli eftir að ferðast að vetrarlagi í sólina er nú líklega á aldrinum sjötíu plús. Straumurinn liggur að mestu leyti til Canaríeyjanna 7 og þá helst til Gran Canaria og Tenerife. Ferðatími þessa aldurshóps er að langmestu leyti frá október fram til aprílmánaðar því þá er hitastigið hvað þægilegast fyrir fölan sólarsveltann mörlandann.

Við brottför frá Leifsstöð má sjá í brottfararsal fjölda missyfjaðra, svefnlausra eða svefnlítilla eftirlaunaþega því auðvitað er brottfarartími flugvélarinnar í sæluna eldsnemma morguns því sá misskilningur er almennt ríkandigamlingjar allir séu svo yfirmáta morgunhressir að þessi brottfarartími henti þeim best. Helst skulu þeir vera mættir í flugstöðina þremur klukkustundum fyrir brottför sem þýðir að mæting er í raun um miðja nótt.

Farþegar þurfa að sjálfsögðu, eftir innskráningu, að fara í gegn um öryggishlið flugvallarins, sumir hverjir með talsverðan handfarangur því það þarf pláss fyrir lyfjaúrvalið sem gjarnan fylgir þessum aldurshóp. Í öryggishliðinu er búnaður sem skynjar málmhluti sem farþegar kunna að hafa með sér, en slíkt er ekki heimilt. Býsna oft varar búnaðurinn við málmhlutum sem eru á leið gegnum öryggishliðin, en ekki er þó um að ræða vopn sem viðkomandi ber á sér heldur eru það liðskiptahlutir úr málmi sem algengt er orðið að græða í eldra fólk ýmist hné eða mjaðmir. Öryggisverðirnir geta svo við nánari skoðun séð að ekki er um að ræða fyrirhugað vopnað flugrán heldur læknisfræðilegt varahlutaviðhald á gömlum slitnum beinum.

Fljólega eftir flugtak safnast síðan röð farþega við salernin til að losa frá sér bjórinn sem náðist að slokra í sig í flughöfninni áður en lagt var af stað á vit ævintýra. Augljóst er að sumir hafa þó verið svo forsjálir að tryggja sér sæti í flugvélinni við gangveg til þess að eiga greiðari aðgang að salernunum og hafa því borð fyrir báru og geta þannig haldið bjórþambinu áfram, því framundan er langt flug og nægur tími til að bæta á sig.

Ekki er þó flugið alltaf þægilegt því vel getur svo farið að við hlið þér sitji 130 kílógramma bjössi sem hefði átt kaupa tvö sæti fyrir sig og ásöfnuðu viðbótarkílóin. Einnig hendir það svefnvana farþegi í sætinu fyrir framan þig ákveðurhalla sér í fangið á þér með því að halla sínu sæti í öftustu stöðu og mátt þú þá teljast hólpin ef kaffibollinn þinn á borðinu þínu fyrir framan þig steypist ekki í fangið á þér.

Sjónvarpsskjáir eru í baki allra sæta og stytta farþegar sér stundir með því að glápa á þá, en í þeim er allgott úrval af afþreyingarefni, e.t.v. ekki alveg það nýjasta , en nothæft þó og þeir sem finna ekkert við hæfi takagjarnan upp úr pússi sínu eigin hámhorfsapparöt með efni sem eitthvert barnabarnanna hefur hlaðið niður fyrir afa og ömmu því oftast er tækni kunnátta þeirra gömlu ekki nægileg til að gera það sjálf. Að því kemur að flugþjónar þurfa að komast eftir gangveginum með veitingavagna og getur þá auðveldlega orðið árekstur veitingavagnsins við hlandsprengda góðglaða farþega sem hafa verið ötulir við bjórþambið og náð að slokra í sig viðbótar öli og þurfa nú að losa blöðruna ekki seinna en strax. Ekki veit ég þó hvort þrengslin hafa valdið brókarslysi því það er augljós ávinningur beggja aðila að leysa málið farsællega áður en slys verður og staðan leysist oftast en oft er það þó á nippinu.

Mikil breyting hefur orðið á hátterni farþega í löngu flugi frá því sem áður var, nú sitja flestir stilltir í sæti sínu og njóta þeirrar afþreyingar sem í boði er, en öðruvísi mér áður brá því á árum áður brustu gjarnan söngglaðir farþegar í söng og sungu hver með sínu nefi hástöfum María María eins og gjarnan var gert í rútuferðum á leið í Þórsmörk. Ekki var þó örgrannt um að misgóður söngurinn væri sumum til ama.

Aldursamsetning farþega er að mestu leiti þannig að líklega eru senjóríturnar að mestu óhultar þegar til Canary er komið, en það má gera sér gott af Sangría og sól og e.t.v. ýmsu öðru þegar á áfangastaðinn er komið. Ekki er þó farþegahópurinn eingöngu skipaður gamlingjum því innanum er einnig yngra fólk og jafnvel með börn, en ég leyfi mér að fullyrða að til Gran Canary ferðast mest megnis gráhvítt Dvítamínskerteftirlaunafólk.

Að lokinni áægjulegri dvöl koma flestir hressir og glaðir heim á ný, þó við blasi drifhvít kuldaleg fósturjörðin við lendingu á Keflavíkurflugvelli. Þá er bara eftir að skipuleggja næstu ferð því áfram bíður Sangría og sól á Canaryeyjum og e.t.v. senjórítur fyrir þá sem treysta sér í það sport.

 

Ómar V. Franklínsson

Selfossi.

Nýjar fréttir