3.9 C
Selfoss

Pósturinn og Krambúðin slá upp veislu á Flúðum

Vinsælast

Pósturinn hefur sett upp póstbox við Krambúðina á Flúðum. Var þetta hundraðasta póstboxið og hefur það þegar verið tekið í notkun. Póstboxin hundrað mynda þétt net afgreiðslustaða hringinn í kringum landið. Til stendur að fagna þessum áfanga á Flúðum þann 14. júní.

„Við ætlum að halda upp á þetta í samstarfi við Krambúðina á Flúðum og slá upp lítilli veislu þar sem boðið verður upp á grillaðar pylsur og drykki. Kátir krakkar geta fengið andlitsmálningu svo prinsessum og ofurhetjum mun eflaust fjölga til muna þennan dag á Flúðum,“ segir Vilborg Ásta Árnadóttir, markaðsstjóri Póstsins. „Svo verður lukkuhjólinu snúið og eiga allir möguleika á vinningi. Tveir heppnir þátttakendur verða dregnir út sem fá auk þess sumarlegan pakka fullan af fjölskyldufjöri.“

Frá árinu 2020 hefur póstboxum fjölgað úr átta í hundrað. „Þetta hefur verið hröð þróun en breyttar kaupvenjur kalla auðvitað á breytta póstþjónustu. Fólk á Flúðum og nágrenni getur nú nálgast pakkana sína hvenær sem er, alla daga ársins. Svo er líka hægt að póstleggja sendingar í póstbox á einfaldan hátt,“ segir Vilborg. 

„Veðurspáin er góð og við hlökkum til að hitta gesti og gangandi á föstudaginn kemur á litlu Pósthátíðinni okkar við Krambúðina. Við verðum þar á milli hálf fjögur og sex,“ segir hún að lokum.

Nýjar fréttir