Okkur langar að gefa ykkur örlitla innsýn í fjölbreytta starfsemi Tónlistarskóla Árnesinga í vetur.
Það er ótrúlega gaman að fylgjast með hve góðum árangri yngstu nemendurnir okkar ná og hve fljótt þeir eru farnir að spila hin flóknustu lög. Yngstu nemendur skólans eru 3 – 5 ára þegar þeir hefja nám við skólann, en sérþjálfaðir tónlistarkennarar sinna kennslunni samkvæmt Suzuki-kennsluaðferðinni (móðurmálsaðferð). Á öllum tónleikum skólans verðum við vitni að góðum árangri, sem fyllir nemendur, foreldra og kennara stolti og þakklæti yfir góðum árangri.
Hefðbundið klassískt og rytmískt nám er hryggjarstykkið í skólastarfinu, þar sem ramminn er námskrá hvers hljóðfæris. Samspil og hljómsveitarstarf er mikilvægur þáttur í námi, en það veitir nemendum tækifæri til að æfa og flytja enn fjölbreyttari tónlist. Þar sem allir leggjast á eitt og stefnt er að sama marki, verður uppskeran ríkuleg og gleðileg. Auk hefðbundins skólastarfs sækja nemendur landsmót og fara jafnvel utan, eða fá gesti frá öðrum löndum. Slík samvinna milli skóla eða landa er alltaf mikil vítamínsprauta.
Innan skólans eru líka nemendur með ýmsar sérþarfir og fer námið þá fram á forsendum nemandans. Lítill áfangi getur í því sambandi verið stórt og dýrmætt skref fyrir einstaklinginn og um leið mjög eflandi.
Tónlistarskólinn er með starfsemi í öllum sveitarfélögum Árnessýslu og má á meðfylgjandi myndum frá tónleikum vetrarins, sjá lítið sýnishorn frá þeim fjölmörgu tónleikum sem haldnir voru í vetur.
Við þökkum nemendum okkar innilega fyrir ánægjulega samfylgd í vetur. Um leið hlökkum við til nýrra ævintýra á komandi vetri og að kynnast nýjum hópi nemenda.
Fréttir í máli og myndum, nánari upplýsingar um allar námsleiðir og umsókn um skólavist, má finna á heimasíðunni okkar www.tonar.is.
Helga Sighvatsdóttir
skólastjóri