-7.8 C
Selfoss

SLAM!

Vinsælast

Væntanlega rekur lesendur í rogastans við það að sjá fyrirsögn á erlendu tungumáli. En það á sínar skýringar. Hér verður rekin tilurð og tilgangur grunnskólaverkefnisins SLAM! í Flúðaskóla og Holbæk Lilleskole í Danmörku.

Hvað er slam?

Hvernig í veröldinni gæti orðið slam tengst grunnskólaverkefni? Og hvað þýðir eiginlega orðið slam?

Væntanlega tengja einhverjir lesendur við „slam in the face“ sem er hluti af skýringu á skólaverkefninu sem hér verður fjallað um. En fyrst og fremst tengist orðið slam hjá okkur í Flúðaskóla og Holbæk Lilleskole í Danmörku, við seyru. Já, seyru! Sem þið, sem hingað til hafið nennt að lesa, vitið jafnvel lítið eða ekkert um. Slam þýðir nefnilega seyra á dönsku. Og þar komum við að grundvallaratriði  skólaverkefnisins sem Flúðaskóli ákvað að búa til á haustdögum 2022.

Verkefni um metangas í undirbúningi í Holbæk Lilleskole, þar sem danskir og íslenskir nemendur unnu saman.

Hvað er seyra?

Svo lesendur átti sig á því hvað seyra er, er hér einföld skilgreining á seyru: Seyra eru föst efni sem skilin eru frá fráveituvatni.

Seyruverkefnið

Seyruverkefnið svokallaða er sameiginlegt verkefni sex sveitarfélaga á Suðurlandi sem hafa tekið höndum saman um að safna seyru úr rotþróm og til tilraunar, græða upp ákveðin svæði á afrétti Hrunamanna. Þessi sex sveitarfélög eru; Hrunamannahreppur, Grímsnes-og Grafningshreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Flóahreppur, Bláskógabyggð og Ásahreppur. Jafnframt tengjast Heibrigðiseftirlit Suðurlands og Land og skógur (áður Landgræðlsa ríkisins) Verkefnið hefur verið mikið frumkvöðlastarf frá því það hófst og eiga Hannibal Kjartansson veitustjóri Hrunamannahrepps, Jón G. Valgeirsson  fyrrum sveitarstjóri Hrunamannahrepps og Börkur R. Brynjarsson fyrrum starfsmaður tæknisviðs UTU mestan þátt í því að koma verkefninu á þann stað sem það er í dag. Verkefnið hefur stækkað ár frá ári.  Rotþrær á svæðinu eru um 7000  í lok árs 2022 og fjölgar ört. Í lok árs 2022 eru Seyrustaðir eina vinnslustöð sinnar tegundar á Íslandi. (af heimasíðu Seyruverkefnisins).

Lesendum er bent á heimasíðu Seyruverkefnisins til frekari upplýsingaöflunar um Seyruverkefnið.

Og hvað?

Hópurinn stoppaði stutt í Kaupmannahöfn og skoðuðu þau þar ýmsa staði sem tengjast menningu Dana. Hér eru þau stödd við hina víðfrægu fíla í Carlsberg.

Það var í hádegisspjalli í Flúðaskóla sem Jóhanna Lilja Arnardóttir, skólastjóri Flúðaskóla, hafði á orði við dönskukennarann að hana dreymdi um að Flúðaskóli gæti unnið verkefni í samvinnu við hið svokallaða Seyruverkefni. Þar væru ótrúlega áhugaverð tækifæri t.d. í náttúrufræðikennslu og samfélagsfræðikennslu og jafnvel tungumálum.

Eftir hádegisspjallið fór dönskukennarinn á flug með Nordplus Junior verkefni í huga og að einum degi liðnum var komin hugmynd að verkefni í samvinnu við Seyruverkefnið. Náttúrufræðikennarinn í Flúðaskóla, Sigríður Steinunn Einarsdóttir, tók vel í hugmynd dönskukennarans og úr varð hugmynd að verkefninu SLAM! Með vísan í aðaláherslu Nordplus fram til ársins 2030 þar sem áhersla er lögð á græna og samfélagslega, sjálfbæra sýn, sáum við tækifæri í að tengja við tungumál, samfélagsfræði og stærðfræði þar sem kennarar á unglingastigi myndu vinna saman að verkefni sem tengdist seyru. Allir hljóta að sjá að það að nýta seyru til uppgræðslu á örfoka svæðum, er samfélagsleg sjálfbærni, ásamt fjölmörgum öðrum þáttum sem hægt væri að tengja við verkefnið. Halldóra Hjörleifsdóttir, þáverandi umsjónarmaður Seyruverkefnisinstók afar jákvætt í hugmyndina og þar með var hugmynd að samstarfsverkefni Flúðaskóla og Seyruverkefnisins orðin að veruleika.

Nemendur Holbæk Lilleskole og Flúðaskóla fengu frábæra kynningu í Roskilde renseanlæg.

Samstarf við danskan skóla og styrkur Nordplus

Frá upphafi verkefnisins var ákveðið að aðalvettvangur samstarfsins yrði samstarf við danskan grunnskóla, Seyruverkefnið og tenging við dönsku og náttúrufræði með samþættingu fleiri námsgreina. Þessir þættir voru grunnþættir fyrir styrkumsókn hjá Nordplus.

Náttúrufræðikennarinn og dönskukennarinn í Flúðaskóla sendu Holbæk Lilleskole hugmyndir sínar að verkefni til að athuga hvort skólinn væri til í samstarf í svona stóru verkefni. Holbæk Lilleskole sem var samstarfsskóli Flúðaskóla á öðrum vettvangi, var tilbúinn í að taka þátt í samvinnuverkefni og var í kjölfarið ákveðið að sækja um styrk hjá Nordplus til að halda undirbúningsfund með danska skólanum. Styrkur fékkst fyrir tvo kennara í Flúðaskóla hjá Nordplus Nordic Language til að fara á undirbúningsfund með kennurum í Holbæk Lilleskole þar sem lögð voru drög að verkefninu SLAM! Ákveðið var í kjölfar þess fundar, að sækja um styrk hjá Nordplus Junior til nemendasamstarfs milli þessara tveggja skóla.

Í stuttu máli fékkst styrkur hjá Nordplus Junior fyrir verkefnið SLAM! til að búa til samþættingarverkefni með aðaláherslu á samfélagslega sjálfbærni og samþættingu í dönsku, náttúrufræði, stærðfræði, samfélagsfræði, ensku og íslensku.

Samstarf heimila og skóla

Til að svona samvinna á milli landa gangi upp er augljós kostur að heimili og skóli vinni þétt saman. Þó að styrkur hafi fengist hjá Nordplus Junior, unnu heimili nemendanna að söfnun á dósum og flöskum í heilan vetur til að safna fyrir fjármagni fyrir ferðinni til Danmerkur. Þau hafa safnað dósum og flöskum í þeim tveimur sveitarfélögum sem til fjölmargra ára hafa staðið saman að unglingastigi í Flúðaskóla, Hrunamannahreppi og Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Að auki komu nokkrir foreldrar með til aðstoðar í ferðalaginu til Danmerkur. Síðan tóku mörg heimili þátt í því að taka veglega á móti dönsku nemendunum þegar þau komu til að vinna með okkur í Flúðaskóla í byrjun árs. Slík samvinna heimila og skóla er ómetanleg og er algjör grundvöllur fyrir því að erlent samstarf gangi upp. Margfaldar þakkir eru færðar til allra aðstandenda sem staðið hafa vaktina í þessu samstarfi.

Verkefnið SLAM!

Aðaláhersla verkefnisins var seyra og samfélagsleg sjálfbærni og tengingin við „slam in the face“ í sambandi við vatnslindir, vatnsnotkun og vatnssóun á heimsvísu ef því yrði við komið en með aðaláherslu á samanburð á Danmörku og Íslandi. Stefnt var að því að nemendur yrðu upplýstir og vissu hvaðan vatn kæmi í Danmörku og á Íslandi, hve mikil vatnsnotkunin væri og hvort við værum að sóa vatni. Jafnframt var áhersla lögð á hvort að við hefðum jafnan aðgang að vatni á Íslandi og í Danmörku miðað við það samfélag sem nemendur í báðum skólum búa í og að athuga hvort seyra væri nýtt á sjálfbæran hátt í báðum þessum samfélögum (Hrunamannahreppi og Holbæk). Verkefnið SLAM!, unnið af 10. bekk í Flúðaskóla og 9. bekk í Holbæk Lilleskole er því dæmigert verkefni þar sem grunnskóli nýtir stofnanir samfélagsins til að vinna áhugaverð samstarfsverkefni.

Niðurstaða í stuttu máli

Vindmylla í Holbæk.

Nemendur í 10. bekk í Flúðaskóla og 9.b. í Holbæk Lilleskole vita núna mjög mikið um ferli hreinsistöðvasem hreinsa fráveituvatn. Þau hafa aflað upplýsinga um vatn, vatnsnotkun, vatnslindir, vatnssóun og það hvernig seyra er nýtt í báðum löndum. Þau eru meðvituð um hvaða leiðir samfélög, sama hversu stór eða lítil þau eru, geta farið til að standa sig betur í að vera samfélagslega sjálfbær, t.d. í sambandi við fráveitur.

Nemendur hafa unnið saman að upplýsingaöflun og úrvinnslu sem á köflum mætti segja að hafi verið á framhaldsskólastigi. Þau unnu í fjölbreyttum verkefnum þegar þau hittust í Danmörku og á Flúðum og heimsóttu áhugaverð fyrirtæki og hreinsistöð. Jafnframt nutu þau þess að kynnast vel og sum hver hafa eignast vini til framtíðar. Þau hafa aukið þekkingu sína í öllum námsgreinunum sem samþættuð voru við verkefnið. Samvinnan var bæði skemmtileg og áhugaverð og óhætt að segja að nær allir nemendur hafi unnið verkið vel í hvívetna

Markið var sett hátt í upphafi verkefnisins og hafa sum markmiðin orðið veigameiri en önnur í ferlinu en nemendur komust að góðri niðurstöðu og náðu sér í mikla þekkingu. Og það allra besta við verkefnið SLAM! var að þau skemmtu sér nær oftast vel við vinnuna en það er alls virði þegar lagt er af stað með svona samvinnuverkefni milli landa.

Heimasíða SLAM! er afrakstur

Nemendur hafa sett inn afrakstur verkefnisins SLAM! á heimasíðuna sem er enn í vinnslu en mun verða fullmótuð á næstu dögum. Hér er tengillinn inn á heimasíðuna.

Þar er hægt að lesa og horfa á ýmis konar afrakstur og niðurstöður nemendanna frá báðum löndum. Við hvetjum skóla til að skoða þá fjölbreyttu möguleika sem felast í samstarfi við nærsamfélagið til að búa til áhugaverð verkefni.

Nordplus Junior

Nordplus Junior er frábær vettvangur til að vinna fjölbreytt verkefni í samstarfi við skóla ínágrannalöndunum okkar, á norrænum vettvangi.

Við hvetjum alla skóla til kynna sér starf Nordplus og hikið ekki við að hafa samband við frábæra starfsmenn Rannís til að fá upplýsingar eða leiðbeiningar.

Flúðaskóli mælir svo sannarlega með samstarfi við Nordplus.

Hér er tengill inn á heimasíðu Nordplus.

Anna Kristjana Ásmundsdóttir, dönskukennari Flúðaskóla og verkefnisstjóri SLAM!
Sigríður Steinunn Einarsdóttir, náttúrufræðikennari Flúðaskóla.

Nýjar fréttir