-5.5 C
Selfoss

Gersemar  í Krosskirkju

Vinsælast

Krosskirkja í Austur- Landeyjum í Rangárþingi- Eystra er án efa ein fallegasta sveitakirkja á Íslandi. Kirkja hefur verið að Krossi um aldir en sú sem nú stendur þar var reist árið 1850 og er nú friðuð. Altaristafla kirkjunnar er ein merkasta gersemi íslenskrar menningarsögu og hafa Landeyingar varðveitt hana vel í hátt í 400 ár.

Laugardaginn 8. júní nk. stendur Sögusetrið 1627 í Vestmannaeyjum fyrir dagskrá í Krosskirkju  kl. 13:30.

Dagskráin helgast af því að altaristaflan í kirkjunni tengist með ýmsum hætti Tyrkjaráninu árið í Vestmannaeyjum 1627. Dagskráin verður þannig:

Kirkjan að Krossi, sem hefur nýlega verið endurbætt, verður skoðuð.
Fjallað verður um altaristöfluna og tengsl hennar við Vestmannaeyjar og Tyrkjaránið.
Fjallað verður um Kláus Eyjólfsson, annan gefanda töflunnar, og lesið upp úr frásögn hans um ránið en hann fór sjálfur til Eyja skömmu eftir hina hræðilegu atburði þar og ræddi við Eyjamenn.
Dagskráin er öllum opin.

 

Hvernig væri að skella sér í dagsferð að Krossi og skoða söguleg tengsl kirkjunnar við Tyrkjaránið?

Þeim sem koma frá Vestmannaeyjum er bent á að Herjólfsferð frá Eyjum kl. 12:00 hinn 8. júní hentar vel. Ekki er nema um 15 mín. akstur frá Landeyjahöfn að Krossi. Fyrst er beygt til vinstri inn á veg 253, Bakkaveg, að félagsheimilinu Gunnarshólma og þaðan ekið suður Gunnarshólmaveg að Krossi.

Þeir sem koma af þjóðvegi 1 beygja til suðurs inn á veg 253, Bakkaveg, og þaðan beint áfram á Gunnarshólmaveg að Krossi.

​​​​​​Ragnar Óskarsson,
​​​​​​formaður Sögusetursins 1627

Nýjar fréttir