-8.5 C
Selfoss

Hef skrifað mína eigin sjálfsævisögu – fyrir sjálfa mig

Vinsælast

…segir lestrarhesturinn Hrefna Ósk Erlingsdóttir

Hrefna Ósk Erlingsdóttir er kennari að mennt og gift Jónasi Þór Sigurbjörnssyni garðyrkjufræðingi. Hún er uppalin í Vestmannaeyjum og eiga þau þrjú uppkomin börn. Eftir rúmlega þrjátíu ára búskap í Eyjum ákváðu þau árið 2020 að flytja og heillaði Selfoss þau bæði. Hrefna er að þjálfa boccia hjá Íþróttafélaginu Suðra og aðstoðar við íslenskukennslu fyrir nýbúa hjá Rauða krossinum. 

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Ég er að lesa Fáskrúðsfjarðarsögu í nokkrum bindum sem eru þættir úr sögu byggðar Fáskrúðsfjarðar til ársins 2003 eftir Smára Geirsson. Föðurfjölskyldan mín er að austan og Kristbergur Einarsson föðurbróðir minn lánaði mér þessar myndarlegu bækur. Mjög áhugaverð saga um líf fólks á Austurlandi hér á árum áður og fróðlegt að lesa að Tyrkir hefðu fyrst komið austur áður en þeir fóru til Eyja. Það vissi ég ekki. Sem barn í Vestmannaeyjum sá maður Fiskhellana við Herjólfsdal og vissi að þarna hafi fólk falið sig þegar Tyrkirnir réðust á eyjuna árið 1627, rændu og höfðu á brott með sér hina frægu Tyrkja – Guddu. 

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Sjálfsævisögur ásamt spennu – og glæpasögum heilla mig mest.  Svo eru sudokubækur aldrei langt undan. Bækurnar Barn að eilífu eftir Sigmund Ernir Rúnarsson og Ljós og skuggar eftir Lindu Pétursdóttur eru bækur sem snerta mig mjög. Sigmundur skrifar um mjög veika dóttur sína sem var með sjúkdóm sem lítil þekking var á og við lestur svona bókar hugsar maður eðlilega hvað maður hefur verið heppinn að eiga heilbrigð börn. Það eru ekki allir svo heppnir. Bókin hennar Lindu er um hennar baráttu við þunglyndi og hvernig var að ganga í gegnum þessa miklu frægð. Það tók verulega á andlegu hliðina að vera alltaf í sviðsljósinu. Átakanleg sögur báðar tvær.   

En ertu alin upp við lestur bóka?

Fyrsta minnig mín um bók var um kanínuna Kötu sem átti þrjú kanínubörn og þau fengu rauða hunda eða hlaupbólu. Ég man að mér fannst sagan svo falleg og kanínan svo góð við börnin sín. Ég las töluvert sem barn og unglingur. Bókin um Heiðu sem flutti til afa síns í sveitinni var í miklu uppáhaldi. Seinna las ég hana fyrir börnin mín. À unglingàrunum tók èg heilu höfundana og las allar bækur sem þeir höfðu gefið út eins og til dæmis Nancy bækurnar. Þegar börnin okkar voru ung var alltaf lesið fyrir þau á kvöldin fyrir háttinn og ef það voru gestabörn í heimsókn þá voru þau líka með. Svo vorum við áskrifendur að Disney bókunum og þær lesnar upp til agna. Man þegar ég las Simba fyrst fyrir eldri son okkar. Ég hafði ekki heyrt þessa sögu áður og gat því ekki undirbúið hann en hann hágrét þegar Mufasa dó í upphafi sögunnar. Saknaði þess seinna að lesa þessar bækur þegar það komu geisladiskar með bókunum sem búið var að lesa á. Börnin þurftu bara að fletta á næstu blaðsíðu þegar ákveðið hljóð kom og skoða myndirnar en þá voru þau orðin frekar stálpuðum. 

Segðu aðeins frá lestrarvenjum þínum.     

Les yfirleitt meira á veturna en á sumrin. Fátt notalegra à en að sökkva sér ofaní góða bók þegar myrkrið skellur á og veðrið er vont. Þarf ekki að eiga allar bækur sem ég les. Þess vegna hef ég alltaf àtt bókasafnskort og nota það mikið. 

Áttu þér einhverja uppáhaldshöfunda?                                            

Fyrir mörgum árum var Mary Higgins Clark í miklu uppàhaldi en í dag er enginn einn sem ég held meira upp á en annan. Þegar ég sé auglýsingu um áhugaverða bók einhversstaðar þá fer èg bókasafnið og næ mér í hana. Mèr finnst Yrsa Sigurðardóttir og Arnaldur Indriðasson mjög góðir höfundar. Maður leggur þær bækur yfirleitt ekki frá sér fyrr en að lestri loknum.  

Hefur bók einhvern timann rænt þig svefni?

Ó já sérstaklega þegar krakkarnir voru litlir. Þá gleymdi ég mér oft við lestur langt fram á nótt. Þá var gott að þurfa ekki mikinn svefn. Eftir að börnin fóru stálpast þá minnkaði þessi næturlestur til muna og ég las frekar á kvöldin en nóttinni. 

En að lokum Hrefna, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Ég hef reyndar skrifað mína eigin sjálfsævisögu. En það var gert fyrir mig eina og kannski svolítið til að gera upp það sem gengið hefur á í mínu lífi. Mæli með því að gera þetta ef fólk hefur verið er að ganga í gegnum erfiðleika. Ótrúlega mikill léttir og koma þeirri lýsingu frá sér og maður sér lífið í öðru ljósi. En ef ég væri að skrifa sögu til að gefa út þá myndi ég skrifa ævisögur af einstaklingum sem hafa lifað áhugaverðu lífi eða hressilegar glæpasögur. 

Nýjar fréttir