-5 C
Selfoss

Hlutfallið er að lækka!

Vinsælast

Í ljósi umræðunnar og þeirra óvæntu breytinga sem hafa orðið á bæjarstjórn Árborgar finnst mér mikilvægt að upplýsa íbúa Árborgar um stöðuna eins vel og ég mögulega get.

Lykilatriðið er farið sé rétt með ákvarðanir bæjarstjórnar:
– Við erum að lækka hlutfallið úr 61,7 prósenti niður í 42 prósent
– Ekki er gert ráð fyrir sérstakri prósentulækkun í fjárhagsáætlun 2024

Ég tók auðmjúkur við oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins í Árborg vorið 2022 þar sem ég steig mín fyrstu spor í pólitíkinni. Árangur sem er engan veginn sjálfsagður en hefur gefið mér tækifæri til að halda áfram að vinna fyrir mitt nærsamfélag sem er Sveitarfélagið Árborg. Ég hef alltaf viljað nálgast hlutina af jákvæðni og hreinskilni og með því finna lausnir á þeim verkefnum sem fyrir liggja. Það er auðvelt að horfa til baka og hugsa hvað maður hefði getað gert betur á þessum fyrstu vikum eftir prófkjör en ég vil horfa á það sem mikilvægan lærdóm sem nýtist mér til að taka betri ákvarðanir fyrir samfélagið til framtíðar.

Á síðastliðnum tveimur árum hefur meirihluti D-listans náð góðum árangri við endurskipulagningu á rekstri sveitarfélagsins sem vægast sagt var orðinn erfiður. Hefur það tekist með góðu samstarfi bæjarfulltrúa og starfsmanna. Margt af því hefur tekið á, ekki síst uppsagnir, skerðing þjónustu og/eða hækkun gjalda. Það er sjaldnast til að afla manni vinsælda en eitthvað sem er óumflýjanlegt í ljósi stöðunnar. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að staðan getur verið þung í sumum stofnunum sveitarfélagsins vegna þessa og það er sannarlega markmið bæjarstjórnar að bæta úr því eins fljótt og kostur er.

Við sem störfum í þágu sveitarfélagsins okkar viljum reyna að taka sem bestar ákvarðanir, byggðar á þeim upplýsingum sem fyrir liggja hverju sinni. Við töldum óhjákvæmilegt í upphafi kjörtímabilsins að forystufólk bæjarstjórnar yrðu að geta af fullum krafti sinnt þeim verkefnum sem fyrir lágu. Í því ljósi jukum við starfshlutfall formanns bæjarráðs sem undirritaður hefur sinnt eftir bestu getu sl. tvö ár. Þetta hefur alltaf verið uppi á borðinu og umfang vinnunnar sýnt að á þessu var full þörf. Fyrir utan allan undirbúning og vinnslu mála bæjarráðs hafa helstu verkefni formanns þess verið í tengslum við endurskipulagningu reksturs sveitarfélagsins, framsetning byggingarréttargjalds og heildaryfirsýn reksturs og fjárfestinga í 10 ára vinnuáætlun. Við töldum og teljum mikilvægt að sveitarfélagið ráði við áframhaldandi vöxt og lendi ekki aftur í sömu fjárhagsvandræðum og það var komið í.

Um leið leggjum við mikið upp úr upplýsingagjöf til íbúa í formi greinaskrifa, íbúafundum í minni og stærri hópum ásamt því að funda með forsvarsmönnum fyrirtækja á svæðinu og öðrum þeim sem hafa áhuga á að byggja upp frekari atvinnurekstur í sveitarfélaginu. Óvænt tímafrek verkefni koma svo auðvitað upp. Má þar nefna sem dæmi að í ljósi vanhæfi bæjarstjóra kom formaður bæjaráðs að því að finna lausnir með framkvæmdaaðilum vegna tímabundinna vandræða á afhendingargetu Selfossveitna á heitu vatni. Verkefnin hafa því verið ærin.

Það er ekki sjálfsagt að fá tækifæri til að starfa í forsvari síns sveitarfélags og hef ég alla tíð reynt að nálgast verkefnið af auðmýkt, upplýsa íbúa eins og kostur er og halda góðu samstarfi innan bæjarstjórnar. Mér finnst það hafa gengið hingað til vel og þakkarvert að allir bæjarfulltrúar þvert á flokka hafi tekið þátt af jafn miklum krafti og raun ber vitni. Við erum á réttri leið. Sterk liðsheild eykur líkurnar enn frekar á meiri árangri við að styrkja stoðir sveitarfélagsins.

Meirihluti bæjarstjórnar setti fram ákveðin hagræðingarmarkmið við gerð fjárhagsáætlunar 2024 sem voru ekki eyrnamerkt á sérstök verkefni. Þannig vildum við áfram velta við öllum steinum í þeirri von að ná fram enn betri nýtingu fjármuna sveitarfélagsins. Hluti af því sem hefur verið skoðað í vetur eru m.a. nefndir sveitarfélagsins, einstaka stofnanir, ýmiss verkefni og hvort endurskoða ætti hlutfall formanns bæjarráðs við fyrirhuguð skipti sem ákveðin voru með samkomulagi í upphafi kjörtímabils og áttu að koma til framkvæmda nú um mánaðarmótin.

Óvæntar breytingar á samstarfi meirihlutans þegar einn bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins ákvað að segja sig frá meirihlutanum urðu til þess að samkomulag náðist milli Sjálfstæðisflokksins og bæjarmálafélagsins Áfram Árborg um myndun meirihluta. Svona staða er ekki ákjósanleg en því miður kom hún upp. Við urðum að bregðast við og tel ég að við höfum náð bestu mögulegu lendingunni. Ég er spenntur fyrir samstarfinu enda er það okkar megin hlutverk að í sveitarfélaginu sé starfhæfur meirihluti.

Við breytingarnar núna var ákveðið að lækka starfshlutfall formanns bæjarráðs úr 61,7 prósenti í 42 prósent og um leið aðlaga starfskyldur hans að því sem nú er í vinnslu. Það ásamt annarri hagræðingu er innan samþykktrar fjárhagsáætlunar þó svo ákveðnir aðilar hafi reynt að halda öðru fram undanfarna daga. Það er miður að pólitíkin sé á þeim stað núna en ég vil horfa björtum augum fram á verkefni komandi mánaða með ykkur íbúum. Við sem erum í pólitíkinni erum ekki hafin yfir gagnrýni og erum sannarlega að hlusta enda viljum við reyna að taka sem bestar ákvarðanir sem skilar okkur á endanum betra sveitarfélagi. Ég er alltaf opinn fyrir samtalinu við íbúa því oftast er gott að ræða málin í eigin persónu.

Með vinsemd og virðingu og tilhlökkun yfir áframhaldandi vinnu fyrir Sveitarfélagið Árborg.

Bragi Bjarnason, bæjarstjóri Árborgar

Nýjar fréttir