10 C
Selfoss

Forseti Íslands – Fyrir fólkið í landinu

Vinsælast

Fyrir rúmum mánuði síðan höfðu um 80 einstaklingar lýst yfir fyrirætlan sinni um forsetaframboð. Af þeim tókst 12 að safna meðmælum til að fara í formlegt framboð. Til að byrja með fannst mér þessi mikli fjöldi frambjóðenda draga úr virðuleika og alvöru kosninganna, en eftir að ég fór að fylgjast með kappræðum og viðtölum snerist mér hugur. Hvað gæti verið lýðræðislegra en svo ólíkir frambjóðendur sem eru að einhverju leiti með ólíka sýn og áherslur á embættið?

Það er ekki víst að næsti forseti lýðveldisins okkar verði með mikið kjörfylgi, miðað við oft áður, en hvert og eitt okkar ætti svo sannarlega að finna eitthvað við sitt hæfi meðal þeirra sem gefa kost á sér. Við höfum kannski skipað okkur í fylkingar, eftir uppáhalds forsetaefninu okkar, en ég held að í grunninn viljum við öll það sama; fulltrúa sem talar máli okkar út á við á skeleggan hátt, talar fyrir og stendur vörð um sameiginlega hagsmuni þjóðarinnar, og ljáir þeim röddu sína sem á þurfa að halda.

Frá því að Baldur Þórhallsson bauð sig fyrst fram hef ég verið ákveðin í að kjósa hann. Fyrir því eru nokkrar ástæður:

Í fyrsta lagi er Baldur flestum fróðari um stöðu og möguleika Íslands í samfélagi þjóðanna, enda sérhæfður fræðimaður á því sviði. Hann kemur því betur undirbúinn en flestir í hvers kyns samræður og samtöl á alþjóðavettvangi.

Í öðru lagi finnst mér meira traustvekjandi að forseti lýðveldisins komi úr fræðasamfélaginu, en að viðkomandi sé atvinnupólitíkus eða tengdur öflum í viðskiptalífinu, án þess að ég sé að skjóta beint á aðra frambjóðendur.

Í þriðja lagi fæddist Baldur á Selfossi. Ég segi í hálfgerðu gríni að það sé gæðastimpill út af fyrir sig, en í raun eigum við Sunnlendingar að vera stolt yfir því að eiga svo frambærilegan fulltrúa í þessum kosningum – bóndasoninn frá Hellu sem er fræðamaður í heimsklassa.

Í fjórða lagi mun Baldur tala fyrir mannréttindum allra. Ekki bara á sérstökum tyllidögum, heldur alltaf þegar ástæða er til. Ég viðurkenni fúslega að hinsegin hjartað mitt gleðst líka yfir þeim möguleika að geta kosið samkynhneigðan forseta, en við megum ekki gleyma því að Baldur er ekki í framboði af því að hann er samkynhneigður. Það er bara bónus. Þó að það myndi vissulega senda sterk (og þessi misserin þörf) skilaboð, þá hefur hann ótal margt fram að færa sem tengist ekki kynhneigð hans.

Í fimmta lagi tel ég hann öðrum líklegri til að taka góðar ákvarðanir þegar kemur að neitunarvaldi forseta. Við höfum áður séð því valdi beitt og vitum hversu mikilvægt er fyrir þjóðina að forsetinn geti staðið í lappirnar gagnvart þinginu.

Í sjötta lagi finnst mér hann hafa talað af yfirvegun og skynsemi um ýmis mál undanfarin ár, til dæmis um varnarmál Íslands, og virðist trúr eigin skoðunum. Ég upplifi að hann beri hag þjóðarinnar sannarlega fyrir brjósti, og muni ganga fram fyrir hennar hönd af heilindum og heiðarleika.

Það er stutt í kosningar. Líklega erum við flest búin að mynda okkur skoðun um hvaða frambjóðanda við ætlum að kjósa. Ég hvet þig nú samt til að kynna þér Baldur Þórhallsson aðeins betur, og sjá hvort þú verðir ekki jafn viss og ég. Viss um að Baldur sé okkar besti fulltrúi. Ekki bara fyrir Sunnlendinga, heldur fyrir fólkið í landinu.

Elín Esther Magnúsdóttir

Nýjar fréttir