11.7 C
Selfoss

Brautskráning frá Menntaskólanum að Laugarvatni 2024

Vinsælast

Þann 25. maí brauðskráðust 43 nemendur frá Menntaskólanum að Laugarvatni, 24 af Félags- og hugvísindabraut og 19 af Náttúruvísindabraut. Útskriftin var haldin í Íþróttahúsinu á Laugarvatni og var mikill hátíðarbragur á samkomunni og útskriftardagurinn bjartur og fagur. Allflestir nýstúdentarnir höfðu tekið þátt í kórstarfi í ML og sungu þau tvö lög við athöfnina undir stjórn Eyrúnar Jónasdóttur.

Dux nýstúdenta, Sara Rosida Guðmundsdóttir.

Dux nýstúdenta var Sara Rosida Guðmundsdóttir frá Leyni 1 í Laugardal með einkunnina 8,99. Sara hlaut viðurkenningar fyrir lokaverkefni sitt meðal annars en einnig hlaut hún Menntaverðlaun Háskóla Íslands fyrir góðan árangur á stúdentsprófi. Semi dux nýstúdenta var Rannveig Arna Sigurjónsdóttir frá Hveragerði með einkunnina 8,85 og hlaut hún einnig ýmsar viðurkenningar fyrir góðan árangur á stúdentsprófi og má þar nefna lokaverkefni hennar og raunvísindaverðlaun Háskólans í Reykjavík. Dux scholae voru jafnar þær Sara Rosida Guðmundsdóttir og Ástrós Eva Aðalbjörnsdóttir frá Selfossi, báðar úr hópi nýstúdenta. Semi dux scholae vor einnig tveir, þau Eva María Sveinsdóttir nýstúdent frá Laugarvatni og Emil Rafn Kristófersson frá Flúðum.

Semi dux nýstúdenta Rannveig Arna Sigurjónsdóttir.

Við hverja útskrift veitir Styrktarsjóður Kristins Kristmundssonar og Rannveigar Pálsdóttur viðurkenningu fyrir góðan árangur á stúdentsprófi í formi fjárstyrks. Þetta árið fengu viðurkenningu þær Sara Rosida Guðmundsdóttir, Rannveig Arna Sigurjónsdóttir, Ástrós Eva Aðalbjörnsdóttir og Svava Þorsteinsdóttir frá Hellu. Rannveig Pálsdóttir, önnur stofnenda styrktarsjóðsins, var viðstödd útskriftina og voru styrkþegar myndaðir með Rannveigu og Jónu Katrínu skólameistara ML.

Fyrir hönd nýstúdenta mælti Agnes Fríða Þórðardóttir en fyrir hönd 20 ára júbílanta steig Páll Vilhjálmsson á stokk. Báðum ræðumönnum tókst afar vel til og var samdóma álit gesta að ræðurnar hefðu báðar verið skemmtilegar og hnyttnar. Ræða Agnesar Fríðu er birt á heimasíðu Menntaskólans að Laugarvatni en þar fer hún á ljúfan hátt orðum um hvaða tilfinningar bærast í brjósti þeirra sem kveðja skólann sinn að þriggja ára dvöl lokinni.

Að athöfn lokinni bauð Menntaskólinn gestum sínum í kaffisamsæti í húsakynnum skólans. Þegar líða tók á daginn hófust endurfundir júbílanta en NEMEL, nemendasamband útskrifaðra nemenda frá Menntaskólanum að Laugarvatni, fær leyfi skólameistara til að hittast að brautskráningu lokinni í húsakynnum skólans. Eru þetta vanalega miklir gleðifundir og endurnærandi fyrir gamla skólafélaga að hittast á ný í skólanum sínum. Sérstakar þakkir sendir skólinn afmælisárgöngum fyrir veglegar gjafir sem þeir færðu skólanum sínum sem voru fjárstyrkir til tækjakaupa í verkgreinastofu, gjafir til styrktarsjóðs Kristins og Rannveigar og til kaupa á garðbekkjum ætluðum til útiveru nemenda. Útskriftarárgangur 2019 fékk með leyfi skólans að koma fyrir stuðlabergssteini á lóð skólans sem minnisvarða um bekkjarfélaga, Kristinn Þór Styrmisson sem lést árið 2022 og er mikil prýði af þeim fallega steini.

Sérstaka ánægju vakti að 70 ára júbílant, Óskar H. Ólafsson, gat verið viðstaddur útskriftarathöfnina og þáði kaffi á eftir. Óskar tilheyrði fyrsta útskriftarhópnum sem útskrifaðist frá ML árið 1954 og átti svo langan og afar farsælan feril sem kennari og aðstoðarskólameistari við skólann.

Að lokum vill Menntaskólinn að Laugarvatni og allt hans starfsfólk óska nýstúdenum 2024 innilega til hamingju með góðan árangur og gæfu í ölllu því sem framtíðin býður þeim.

Menntaskólinn að Laugarvatni

Nýjar fréttir