-1.1 C
Selfoss

Úr ljósmyndaferðalögum í gæludýraþjónustu

Vinsælast

„Það má eiginlega segja að þetta hafi verið skyndiákvörðun, ég á litla ferðaskrifstofu, En Route Ljósmyndaferðir, og eins og nafnið bendir til býð ég upp á ljósmyndaferðir, bæði hér á Íslandi, en einnig í Vietnam, Myanmar, Bólivíu, Noregi, Mongolíu svo eitthvað sé nefnt. Þetta er búið að ganga vel, hefur byggt alla sína túra á mér og að ég leiði þessa hópa, og eftir meira en 12 ár í þessu var ég farin að finna að mig langaði að vera meira heima hjá fólkinu mínu og fór því að leita leiða til að minnka aðeins ferðalögin, en ég var í burtu vikur og stundum mánuði í einu,“ segir Óli Haukur Valtýsson í samtali við Dagskrána, en Óli opnaði nýverið gæludýraverslunina Dýrakofann, að Eyravegi 23 á Selfossi, ásamt Kristínu Sigmarsdóttur, eiginkonu sinni.

„Stökk bara á það“

Óli segir margar hugmyndir hafa komið upp um leiðir til að fækka ferðalögum. „Og margar alveg ágætar, en um miðjan desember síðasliðinn var ég að leiða ljósmyndaferð í Noregi og Kristín hringdi í mig því hún hafði frétt að sá sem var að flytja inn Sportsman´s Pride hundafóðrið væri hættur, við sáum tækifæri í því þar sem við vissum að þetta væri gott fóður og settum allt á fullt við að koma á tengslum við framleiðendur og hefja innflutning á fóðrinu. En þar sem fyrri innfytjandi var hættur þá var búðarplássið sem hann hafði til umráða líka laust svo ég stökk bara á það, og mánuði seinna var búðin tilbúin, en hún opnaði þó ekki formlega fyrr en 1. febrúar.“

Sérfræðiþekking og góð tengsl

Þá segir Óli að það kunni að virka tilviljanakennt að hann hafi ákveðið, upp úr þurru, að henda sér í gæludýrabransann. „En það er nú ekki alveg svo, því Kristín hefur starfað um árabil í allskonar tengdu hundum. Hún er einn af betri hundaþjálfurum landsins og eftir smá hlé, ætlar hún að snúa sér að fullum krafti aftur í hundaþjálfun upp úr miðjum júní, en það verður rækilega auglýst á okkar miðlum þegar þar að kemur. Hún starfaði lengi með fíkniefnahunda hjá tollinum, var sömuleiðis lengi með leitarhund á útkallslista, ásamt því að þjálfa leitarhunda. Hún hefur þar af leiðandi sterk tengsl inn í hundasamfélagið á Íslandi. Þótti mér því tilvalið að notfæra mér hennar tengsl og það „goodwill“ sem hún hefur, og auðvitað líka alla þá sérfræðiþekkingu sem hún býr yfir. Því þó að þessi búð sé starfsvettvangur sem ég var að búa til handa sjálfum mér, þá var og er hennar aðstoð ómetanleg þar sem hún hafði áður byggt upp gæludýraverslun frá grunni, gat kynnt mig fyrir byrgjum, og þó ég hafi nú vitað ýmislegt þá var hellingur sem ég vissi ekki og gat þá alltaf leitað til míns einkasérfræðings í koddahjali kvöldsins. Þetta hefði verið og væri erfitt án hennar.“

Þau ákváðu að bjóða upp á breitt vöruúrval sem samanstendur einungis af gæðafóðri.  „Þarna vorum við komin með Sportsman´s Pride fóðrið, en við vissum líka að það eitt og sér myndi ekki duga til að leysa öll vandamál sem geta komið upp í fóðrun dýra. Kristín starfaði lengi hjá heildölu sem flutti inn Belcando fóðrið, og á stóran þátt í að gera það jafnvinsælt og það er orðið, þó að það séu mörg ár síðan og aðrir hafi tekið við þeim kyndli og haldið honum uppi með glæsibrag. En við vissum hversu gott fóður Belcando hundafóður og Leonardo Kattafóður er, svo það var lykilatriði að vera með það líka og hefur það fengið frábærar viðtökur. Við tókum líka inn Royal Canin sem er mjög þekkt merki og það hefur líka selst mjög vel. Við bjóðum upp á gríðarlega vandaðar og góðar vörur frá Non-stop dogwear, beisli, tauma, ólar, jakka og fleira, en eins og þeir vita sem þekkja þessar vörur þá er þetta nú svona það besta í bransanum,“ segir Óli og bætir við að Sportsman´s Pride sé langvinsælasta hundafóðrið, í kattarfóðri segir hann mest fara af Royal Canin, þó svo að bæði Leonardo og kattafórðið frá Sportsman´s Pride, sem eru ekki eins þekkt merki séu að vinna vel á.

Gefa öllu séns

Auk fóðursins reyna þau að vera með allt það helsta sem gæludýraeigendur þurfa fyrir dýrin sín; búr, bæli, dót, hreinlætis- og snyrtivörur, nagbein, sandkassa og allt þar frameftir götum. „En auðvitað í nýrri búð kemur stundum fólk sem vantar eitthvað sem er ekki til, eitthvað sem ég gleymdi eða hafði ekki áttað mig á að þyrfti að vera til, og þá nota ég tækifærið og bæti því við ef ég tel að gagn sé af, þannig höfum við náð á stuttum tíma að byggja upp það glæsilega vöruúrval sem við bjóðum upp á í dag.

Starfsfólk Dýrakofans hefur yfirgripsmikla þekkingu á gæludýrum og hvað er þeim fyrir bestu. „Við gefum okkur tíma til að finna réttu lausnina fyrir hvert og eitt dýr, að auki erum við í beinu sambandi við sérfræðinga sem við getum hringt í og spurt ráða. Það má líka nefna að í búðinni hjá okkur er hún Ingunn með aðstöðu fyrir hundasnyrtinguna Hvuttaklipp, en hún tekur líka við stórum hundum og köttum. Ingun er alger snillingur og dýrin eru í góðum höndum hjá henni. Við höfum stundum fengið sérfræðinga á sínu sviði til að koma til okkar og vera með einhverja kynningu eða fræðslu, það hefiur fengið góðar viðtökur og við komum til með að bjóða upp á allskonar fræðslu og uppákomur, fylgist með okkur á facebook til að missa ekki af neinu.“

Móttökurnar vonum framar

Óli segir móttökurnar við opnun Dýrakofans hafa verið vonum framar. „Ég vissi ekki alveg hverju ég mætti eiga von á og var alveg búinn að búa mig undir að startið yrði erfitt, en fólk er búið að taka okkur gríðarlega vel og fyrir það erum við þakklát.“

„Framtíðarsýn Dýrakofans er að halda áfram að vinna traust og vera í góðu sambandi við gæludýraeigendur hér á Selfossi og nágrenni, að þeir geti gengið að því vísu að fóðrið þeirra sé til og að þær ráðleggingar sem þeir fá í Dýrakofanum séu faglegar og góðar.

Við erum með vefverslun: www.dyrakofinn.is og þó að hún hafi gengið alveg ágætlega, þá hefur vinnan sem ég hef sett í hana verið í lágmarki, og því eru miklir vaxtamöguleikar þar.

VIð stefnum á að festa okkur í sessi sem leiðandi afl í þjónustu við gæludýraeigendur á Selfossi og nágrenni,“ segir Óli að lokum.

Nýjar fréttir