1.7 C
Selfoss

Í minningu Árna Erlingssonar

Vinsælast

Það er hefð á Byggðasafni Árnesinga fyrir heimsóknum trésmíðanema frá Fjölbrautaskóla Suðurlands. En það var í tíð Árna Erlingssonar (1935 – 2019) kennara við skólann sem bjó bæði yfir mikilli þekkingu á þessu sviði og áhuga á byggingarsögu og varðveislu gamalla húsa, að nemendur hófu að koma reglulega á Eyrarbakka í sögugöngu og til skoða HÚSIÐ. Eftir hans dag urðu þessar heimsóknir óreglulegri og um tíma duttu þær alveg út. Fyrir nokkru voru þessar heimsóknir endurvaktar og má segja að þær hafi borið nokkuð skemmtilegan og gagnlegan ávöxt.

Vorið 2021 var lagður grunnur að fræðsluverkefni sem kennarar og fagstjóri trédeildar FSu þróuðu í samvinnu við safnkennara á Byggðasafni Árnesinga. Kennslubók hefur litið dagsins ljós á rafrænu formi þar sem meðal annars er fjallað um lög og reglugerðir um húsafriðun og breytingar á húsum, byggingarsögu tré- og steinhúsa á Íslandi og byggingarsögulegt gildi húsa og mannvirkja. Eldra kennsluhefti eftir Árna Erlingssonar trésmíðakennara rennur inn í námsefnið og er stórmerkileg heimild samin sérstaklega fyrir trésmíðanemendur Fjölbrautaskóla Suðurlands. Árni Erlingsson kenndi við Fjölbrautaskóla Suðurlands um áratuga skeið og lagði traustan grunn ásamt öðrum að því glæsilega verknámi sem nú er í boði við skólann. Má segja að kennslukver Árna hafi verið kveikjan og grunnurinn að því sem nú er orðið að kennslubók fyrir trésmíðanemana.

(3)Opna úr kennslukveri verkefnisins, Byggingararfurinn og varðveisla menningarminja. Ljósmynd: Byggðasafn Árnesinga.

Byggðasafn Árnesinga er staðsett á Eyrarbakka þar sem má finna vel varðveittan húsakjarna eða þorpsmynd frá aldamótunum 1900. Sýningaraðstaða safnsins er sömuleiðis í einu elsta húsi landsins eða HÚSINU sem var reist á landi Skúmsstaða árið 1765. Sjálft húsið er byggingarsöguleg perla sem og elsti hluti þorpsins sem upplagt er að nemendur í áfanganum Húsaviðgerðir og breytingar kynnist og fái aðgang í gegnum námsefni og heimsóknir á safnið.

Magnús Karel Hannesson leiðir nemendur í sögugöngu um þorpið þar sem sérstök áhersla er á húsasögu Eyrarbakka. Ljósmynd: Byggðasafn Árnesinga.

Í Fjölbrautaskóla Suðurlands er öflug húsasmíðabraut sem á rætur að rekja til miðrar 20. aldar og þaðan hafa fjölmargir smiðir útskrifast. Námsefnið er samið með þennan nemendahóp í huga og hluti af nálguninni er heimsókn nemendahópsins á safnið, bæði við upphaf annar og nálægt annarlokum. Í seinni heimsókninni fara nemendur í göngu um þorpið og kynnast af eigin raun þeim byggingararfi sem finna má á Eyrarbakka. Bygginga- og mannvirkjagreinar eiga rætur sínar í fornum handverkshefðum en miklar og örar breytingar hafa orðið á störfum smiða samhliða breyttum lifnaðarháttum. Samstarf kennara í FSu og á safninu er öflug leið til að dýpka og útvíkka umfjöllunarefni áfangans og samhljómur er á milli námsefnis smíðanemanna og þess sem finna má í fortíðinni á Eyrarbakka.

res / jöz

Nýjar fréttir