2.3 C
Selfoss

Sunna Lind hlaut Morgunblaðsskeifuna

Vinsælast

Það er alltaf gaman að fylgjast með fyrrverandi nemendum hestabrautar FSu og sjá að þeir ná árangri í greininni og skila sér áfram og víða í frekara nám. Núna stundar góður hópur eldri nemenda FSu nám við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og er Sunna Lind Sigurjónsdóttir ein af þeim. Hún er útskrifuð með stúdentspróf af hestabraut FSu og stundar nú nám við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Á dögunum hlaut Sunna Morgunblaðsskeifuna sem er veitt af forseta Íslands en einnig hlaut hún Gunnarsbikarann.

Morgunblaðsskeifan var fyrst veitt við skólaslit Bændaskólans á Hvanneyri árið 1957 og með því vildi Morgunblaðið sem barst í nánast hvert hús landsmanna á þeim árum sýna þessari þessari göfugu og fallegu íþrótt, virðingu sína. Skeifa Morgunblaðsins er veitt þeim nemenda sem hefur náð bestum samanlögðum árangri í frumtamningarprófi og reiðmennsku III.

Gunnarsbikarinn hefur verið veittur síðan árið 2008 og er gefinn af Bændasamtökunum til minningar um Gunnar Bjarnason fyrrum hrossaræktarráðunaut. Gunnar sýndi mikið frumkvæði í starfi sínu sem reiðkennari og var fyrstur til að kenna nemendum sínum að temja hesta til reiðar. Hefur slík kennsla haldist nær óslitin síðan. Gunnarsbikarinn er veittur þeim nemenda sem hlýtur hæstu einkunn í fjórgangi. Þátttökurétt í þeirri keppni hafa allir nemendur reiðmennsku III í búfræði og háskóladeild Lbhí.

Þessi frétt er í grunninn unnin af Johannes Amplatz kennara á hestabraut FSu og myndirnar tók hann ásamt Vibeke Thoresen.

jöz.

Nýjar fréttir