-8.2 C
Selfoss

Eftirtektarverður árangur á Vormóti

Vinsælast

Helgina 10. – 12. maí fór fram vormót eldri flokka og mótaröð 3 á vegum Fimleikasambands Íslands. 
Mótið er frábrugðið öðrum mótum að því leiti að lendingardýnurnar eru mjúkar og því eru margir sem nýta tækifærið til þess að gera erfiðari stökk.

Selfoss átti 5 lið um helgina, 2. flokk mix, 3. flokk A og B á Vormóti og meistaraflokk og 1. flokk á mótaröð.

3. flokkur keppti í tveimur liðum, annað liðið í A-deild og hitt liðið í B-deild. Bæði liðin voru að gera ný stökk og bættu sig á milli móta en framfarirnar eru talsverðar hjá flokknum á önninni auk þess sem liðsheildin var mikil og gaman að fylgjast með því. Liðin lentu bæði í 5. sæti samanlagt. Liðin eiga bæði talsvert inni í sínum stökkum og gólfæfingum og því verður gaman að fylgjast með þeim á síðasta móti vetrarins, Íslandsmóti í lok maí.

2. flokkur keppti einnig á Vormóti, í blönduðum flokki en var sem fyrr eina liðið sem var skráð í flokkinn. Þau létu það ekki stoppa sig frá því að leggja sig öll fram, leikgleðin var mikil og samstaðan mikil þegar liðið prufaði ný og erfiðari stökk. Þau eru einnig að fara að keppa á Íslandsmóti í lok maí.

Á mótaröð 3 kepptu bæði meistaraflokkur og 1. flokkur en á mótaröð er safnað stigum yfir 3 mót og verðlaunað í lok tímabilsins. Komið var að þriðja og síðasta mótinu um helgina og því voru veitt verðlaun þá. Selfoss keppti ekki á fyrstu mótaröðinni og því aðeins um 2 mót að ræða þegar kom að stigasöfnun hjá þeim. Það kom þó ekki í veg fyrir verðlaunasæti því meistaraflokkur lenti í 4. sæti með 30 stig eftir veturinn, en veitt voru verðlaun fyrir efstu 5 sætin.

Liðin voru bæði að keyra mikið af nýjum stökkum og aukinn erfiðleika og var gaman að sjá þau skila æfingunum vel og af miklu öryggi. 1. flokkurinn fékk hæstu framkvæmdaeinkunn allra liða á mótinu sem er eftirtektarverður árangur þar sem þær voru að keppa við meistaraflokkana. Mótið var góður undirbúningur fyrir Íslandsmót sem fer fram í lok maí og vonumst við til þess að sjá vínrauða stúku stuðningsmanna Selfoss á því móti.

Fimleikadeild UMFS

Nýjar fréttir