-4.4 C
Selfoss

Íbúakosningu frestað í Ölfusi

Vinsælast

Á fundi bæjarstjórnar Ölfuss í síðustu viku var ákvörðun tekin um að fresta atkvæðagreiðslu meðal íbúa um skipulagslegar forsendur þess að byggð verði og starfrækt mölunarverksmiðja í Keflavík, skammt frá Þorlákshöfn. Samhliða ítrekaði bæjarstjórn að sú ákvörðun um að heimila ekki byggingu mölunarverksmiðju án atkvæðagreiðslu meðal íbúa standi óhögguð.

Í afgreiðslu bæjarstjórnar segir:

„Um leið og bæjarstjórn harmar þá stöðu sem upp er komin í aðdraganda íbúakosninga vegna vinnubragða First Water telur hún mikilvægt að nálgast málið af ábyrgð með heildarhagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi. Sérstaklega er áríðandi að upplýst verði með fullnægjandi og rökstuddum hætti á hvaða rökum fullyrðingar First Water byggja.

Með það fyrir augum er atkvæðagreiðslu þeirri sem Sveitarfélagið Ölfus boðaði til með auglýsingu 28. apríl sl. á grundvelli 107. gr. sveitarstjórnarlaga um aðal- og deiliskipulagstillögur vegna mölunarverksmiðju og hafnar í Keflavík við Þorlákshöfn frestað. Eftir sem áður stendur óhaggað að áður en heimild verður veitt til byggingar mölunarverksmiðju við svo kallaða Keflavík í Ölfusi verður haldin bindandi atkvæðagreiðsla meðal bæjarbúa.“

Tillagan var svohljóðandi:

Að kvöldi 15. maí sl. barst bæjarfulltrúum bréf frá Eggerti Kristóferssyni forstjóra First Water. Þar er í fyrsta skipti upplýst um þá afstöðu fyrirtækisins að: „óásættanlegt [sé] að í sömu götu standi til að byggja mölunarverksmiðju sem fer alls ekki saman við matvælaframleiðslu né heldur bygging hafnar á því svæði sem [First Water] er að sækja jarðsjó.“

Fyrir liggur að bæjarstjórn hefur boðað til íbúakosningar á grundvelli 107. gr. sveitarstjórnarlaga um aðal- og deiliskipulagstillögur vegna mölunarverksmiðju og hafnar í Keflavík við Þorlákshöfn. Er þar spurt um það hvort að íbúar vilji samþykkja eða hafna því að samþykktar verði þær deili- og aðalskipulagstillögur sem liggja til grundvallar starfsemi tilgreindrar mölunarverksmiðju sem Heidelberg hyggst starfrækja.

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Ölfuss lýsir furðu sinni á vinnubrögðum fyrirtækisins First Water í því sem lýtur að skipulagsmálum í sveitarfélaginu. Öllum er löngu ljóst að til skoðunar hefur verið að staðsetja starfsemi Heidelberg innan grænna iðngarða á lóð milli landeldisfyrirtækjanna Geo Salmo og Landeldisstöðvarinnar Þór. Fram hefur farið ítarlegur undirbúningur vegna málsins sem í öllu hefur stjórnast af þeim lögum, reglum og hefðum sem gilda skulu um slíkt. Það vandaða ferli skilaði mörgum athugasemdum sem sérstaklega hefur verið brugðist við og svarað. First Water sá sér ekki fært að fylgja vönduðum formlegum verkferlum til að koma rökstuddum ábendingum á framfæri, heldur beið þar til öllu formlegu ferli var lokið með að viðra skoðanir sínar. Tveimur klukkutímum fyrir opinn borgarafund og þremur dögum áður en atkvæðagreiðsla hæfist var lögð fram þriggja málsgreina bréf þar sem fullyrt var um skaðsemi af starfsemi Heidelberg fyrir First Water. Fullyrðingarnar voru með öllu órökstuddar og án nokkurra gagna.

Ekki verður hjá því litið að fullyrðingar First Water ganga algerlega í berhögg við afstöðu Geo Salmo og Landeldisstöðvarinnar Þór sem eru í sömu starfsemi og liggja umtalsvert nær fyrirhugaðri starfsemi Heidelberg, með aðliggjandi lóðamörk. Í samtali við forsvarsmenn Geo Salmo og Landeldisstöðvarinnar Þór hefur komð fram að þeir hafi kynnt sér fyrirhugaða starfsemi Heidelberg afar vel. Bæði hafi þeir fundað með fulltrúum Heidelberg, fengið hjá þeim gögn, falið sérfræðingum sínum að rýna málið og þar fram eftir götunum. Niðurstaða þess var að vænt starfsemi Heidelberg væri ekki skaðleg fyrir landeldisfyrirtæki þeirra.

Í opnu bréfi forstjóra Heidelberg til forstjóra First Water segir hins vegar: „Forsvarsmenn First Water hafa ekki á neinu stigi ferlisins lýst áhyggjum eða sett fram athugasemdir vegna verksmiðjunnar þótt mörg tækifæri og nægur tími hafi verið til þess. Vandséð er því á hvað gögnum afstaða First Water hvílir.“

Bæjarstjórn Ölfuss telur að bréf forstjóra First Water fylli málið allt vafa og óvissu sem ekki verður við unað. Þrátt fyrir ámælisverð vinnubrögð verður ekki hjá því litið að First Water er einn stærsti hagsmunaðilinn í þessu máli. Þar fer aðili sem býr yfir mikilli sérfræðiþekkingu á svæðinu og hefur unnið fjölmargar rannsóknir á náttúrufari þess sem Sveitarfélagið Ölfus og íbúar hafa ekki fengið aðgengi að.

Bent er á að ein af grunnreglum stjórnsýsluréttar er hin svo kallaða rannóknarregla sem hljóðar svo: „Stjórnvald skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.“

Um leið og bæjarstjórn harmar þá stöðu sem upp er komin í aðdraganda íbúakosninga vegna vinnubragða First Water telur hún mikilvægt að nálgast málið af ábyrgð með heildarhagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi. Sérstaklega er áríðandi að upplýst verði með fullnægjandi og rökstuddum hætti á hvaða rökum fullyrðingar First Water byggja.

Með það fyrir augum er atkvæðagreiðslu þeirri sem Sveitarfélagið Ölfus boðaði til með auglýsingu 28. apríl sl. á grundvelli 107. gr. sveitarstjórnarlaga um aðal- og deiliskipulagstillögur vegna mölunarverksmiðju og hafnar í Keflavík við Þorlákshöfn frestað. Eftir sem áður stendur óhaggað að áður en heimild verður veitt til byggingar mölunarverksmiðju við svo kallaða Keflavík í Ölfusi verður haldin bindandi atkvæðagreiðsla meðal bæjarbúa.

Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að kalla tafarlaust eftir fundi með fulltrúum First Water þar sem óskað verður eftir því að fram verði lögð gögn sem styðja þær fullyrðingar sem fram koma í bréfi forstjóra First Water dagsettu 14. maí 2024. Þá verði kallað eftir því að First Water skili inn ítarlegri greinargerð sem útlistar öll þau atriði er tengjast væntri starfsemi Heidelberg sem valdið geta vandvæðum við starfsemi First Water. Þegar slíkt liggi fyrir verði óháðum aðila falið að fara yfir forsendur og skila Sveitarfélaginu Ölfusi mati þar á. Þetta mat ásamt öðrum þeim gögnum sem kunna að berst verði svo kynnt vandlega fyrir bæjarbúum áður en boðað verði til íbúakosninga að nýju.

Á sama hátt er bæjarstjóra falið að eiga samtöl við fulltrúa annarra fyrirtæja sem eru í matvælavinnslu á áhrifasvæðinu til að fá fram á formlegan máta ítrekaða afstöðu þeirra, er þar sérstaklega vísað til Geo Salmo og Landeldisstövarinnar Þór.

Nýjar fréttir