-4.1 C
Selfoss

„Góðir gestir má ég kynna, hljómsveitin Mórall“

Vinsælast

Í desember árið 1989 voru fjórir 13 ára Selfyssingar sem ákváðu að stofna hljómsveit sem hlaut hið áhugaverða nafn Skítamórall. Nú, tæpum 35 árum síðar er hljómsveitin enn að störfum, nánast í sinni upprunalegu mynd, með Arngrím Fannar Haraldsson (Adda Fannar) á gítar, Herbert Viðarsson (Hebba) á bassa, Jóhann Bachmann Ólafsson (Hanna) á trommur og Gunnar Ólason sem syngur og leikur á gítar, en til viðbótar hafa þeir fengið gítarleikarann Gunnar Þór Jónsson úr Sóldögg til liðs við sig. Ætla þeir félagar að endurtaka leikinn frá því í fyrra og taka þriggja daga vakt á Sviðinu á Selfossi um hvítasunnuhelgina. Þar ætla þeir að leika öll sín bestu og vinsælustu lög og lofa tónleikaþyrstum Sunnlendingum stuði og stemningu eins og þeim einum er lagið.

Fyrsta giggið í Félagsmiðstöðinni Zelsíuz

„Við vorum allir eitthvað byrjaðir að spila á hljóðfæri, þó sérstaklega Gunnar Óla sem var í hljómsveit með eldri strákum. Um haustið bað Axel nokkur Gissurarson mig og Hanna Bach um að vera með eitthvað atriði á jólaballi Gagnfræðaskóla Selfoss en hann var þá formaður nemendafélagsins. Úr varð að við Hanni fengum Gunnar Óla til liðs við okkur og fljótlega bættist Hebbi Viðars í hópinn. Hljómsveitin var formlega stofnuð í desember 1989 en kom þó aldrei fram á þessu jólaballi, við vorum ekki alveg tilbúnir. Fyrsta giggið var vorið 1990 í félagsmiðstöðinni Zelsíuz, sem þá var í kjallara skólans, og þar áttum við eftir að spila oft og reglulega. Við fengum síðar æfingaaðstöðu í þessum kjallara og eyddum þar mjög miklum tíma saman,“ segir Addi Fannar í samtali við Dagskrána.

Ljósmynd: Mummi Lú.

Reyndu að skipta um nafn

Einar Bárðarson, bróðir Adda Fannars, átti hugmyndina að nafninu Skítamórall. „Hann hafði sjálfur á einhverju djammi rætt við Sigga Pönk og fleiri góða menn um þá hugmynd að stofna pönkband. Ekkert varð úr því ævintýri en eftir stóð ónotað hljómsveitarnafn sem við tókum fegins hendi. Við vorum mjög rokkaðir fyrst um sinn en urðum nú aðeins mýkri með árunum. Við reyndum að skipta um nafn á tímabili en það gekk ekki vel og við höfum bara haldið þessu nafni alla tíð. Stundum notum við styttinguna Skímó og mörgum finnst það snyrtilegra. Einu sinni á Þjóðhátíð vorum við að fara að stíga á svið en þá var Árni Johnsen kynnir. Hann las af blaði en hikaði svo aðeins, leit upp og sagði hátt og skýrt í hljóðnemann: „Næstir á svið er hljómsveit frá Selfossi, góðir gestir má ég kynna, hljómsveitin Mórall“ okkur þótti það óborganlega fyndið,“ bætir Addi Fannar við og hlær.

Kófsveittir og bognir í baki í miklum fíling

Eitt af fyrstu æfingahúsnæðum bandsins var spilasalurinn Takkinn sem staðsettur var að Eyravegi 17 á Selfossi. „Þar héngum við mikið til á kvöldin eins og margir krakkar á þessum tíma. Eitt kvöldið uppgötvuðum við að það var háaloft fyrir ofan hluta hússins sem ekki var verið að nota, enda var það undir súð og ekki mannhæðarhátt. Við fengum að troða okkur þarna upp með græjur og notuðum þetta rými til að æfa í nokkra mánuði. Það var mjög þröngt og sveitt því þetta var gluggalaust rými en þarna æfðum við hvern rokkslagarann á fætur öðrum í miklum fíling, allir bognir í baki nema Hanni sem gat setið við trommurnar,“ segir Gunnar og yppir öxlum.

Ljósmynd: Mummi Lú.

Ýmsir vel valdir fimmtu meðlimir í gegnum tíðina

Stofnmeðlimirnir fjórir; Gunnar, Addi, Hanni og Hebbi hafa alla tíð verið kjarninn í bandinu en ýmsir hafa komið og farið sem fimmti meðlimur. „Karl „Bongó” Þorvaldsson var með okkur í nokkur ár og svo kom Einar Ágúst inn í bandið 1997. Við kynntumst Einari Ágústi sumarið 1997, þegar hann var að vinna á Útvarpi Suðurlands, og buðum honum að koma með okkur að spila á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, en við vorum þá aðalbandið ásamt Sálinni hans Jóns míns. Einar small vel inn í hópinn á þeim tíma og starfaði áfram með okkur til ársins 2004. Hann kom svo aftur inn í hljómsveitina 10 árum síðar, eða 2014, en hefur ekki verið meðlimur undanfarin ár. Fimmti meðlimurinn í dag er gítarsnillingurinn Gunnar Þór Jónsson sem kom yfir til okkar úr hljómsveitinni Sóldögg. Við erum búnir að spila nokkur gigg á þessu ári og erum í fantaformi,“ segir Hanni.

Ljósmynd: Mummi Lú.

Tíðir gestir í Séð og heyrt

Lagið Farin, sem kom út vorið 1998, varð gríðarlega vinsælt og má segja að það hafi híft Skítamóral upp í hæstu hæðir á sínum tíma. „Þar á undan vorum við búnir að spila alveg gríðarlega mikið út um allt land og sá fræjum, ef svo má að orði komast. Við vorum mjög eftirsóttir á skólaböllum og í félagsmiðstöðvum og spiluðum 3-4 kvöld í viku. Svo gerðist eitthvað þarna um vorið 1998 sem erfitt er að útskýra. Við urðum gríðarlega vinsælir, lögin okkar fóru að heyrast mikið í útvarpi og við urðum tíðir gestir í Séð og heyrt,“ segir Hanni og hlær.

„Við vorum orðnir ein vinsælasta hljómsveit landsins og umsvifin í takt við það. Þegar mest var vorum við með fimm starfsmenn, eigin rútubíl og leigðum saman íbúð í miðbæ Reykjavíkur. Við héldum áfram þessari miklu útgerð út árið 2000 en í lok þess árs vorum við gjörsamlega búnir á því bæði á sál og líkama og tókum okkur gott hlé og höfum passað okkur síðan að spila ekki of mikið og bara þegar okkur langar til og erum í fíling, eins og til dæmis núna um hvítasunnuna,“ bætir Hebbi brosandi við.

Ljósmynd: Mummi Lú.

Ekkert vandamál að leigja stóra flugvél fyrir einn dansleik

Eitt sumarið þegar þeir voru hvað vinsælastir hafði sveitastjóri frá einum af bæjunum á Langanesi samband og vildi fá hljómsveitina til að spila á dansleik á ákveðinni dagsetningu.„Við sögðum þá að það væri of langt ferðalag, tæki alveg heilan dag að keyra hvora leið og við hefðum eiginlega ekki tíma því það væri svo mikið að gera hjá okkur. Hann taldi það nú ekki vera vandamál, hann myndi bara leigja flugvél handa okkur og borga hvaða verð sem væri fyrir hljóðfæraleikinn, bærinn væri vel stæður, nýbúinn að selja kvóta og fjárfesta í OZ og DeCode. Úr þessu varð og við fengum stóra vél því það þurfti að fljúga líka með okkar starfsfólk, allar græjurnar, stórt hljóðkerfi, ljósabúnað o.s.frv., þvert yfir landið. Lendingin var eftirminnileg, en við þurftum að hringsóla um stund því það hafði gleymst að láta smala flugvöllinn fyrir komu okkar. Dansleikurinn heppnaðist vel fyrir utan smá atvik, þegar fullur kall reyndi að troða sér upp á svið og tókst að hella viskíglasi yfir Viktor, sviðsmanninn okkar, sem brást hinn versti við og lét henda manninum út af ballinu. Maðurinn reyndist vera sveitastjórinn!,“ segir Gunnar og hlær.

Þeir eru allir sammála um að þó nokkur gigg séu eftirminnileg. „En ætli tónleikar sem við lékum á í Tívolínu sáluga í Hveragerði séu ekki á topp 5 en annars er toppurinn afmælistónleikarnir okkar í Eldborg í miðju Covid ruglinu sumarið 2020 en það var gríðarlega gaman að spila fyrir fullum Eldborgarsal og heyra gesti syngja hástöfum með hverju laginu á eftir öðru.“

Ljósmynd: Mummi Lú.

Þakið ætlaði af húsinu eftir hlé

„Það er svo geggjað að það sé kominn svona flottur tónleikastaður á Selfossi og gaman hvað Selfysingar hafa tekið staðnum vel og eru duglegir að mæta á tónleika.  Staðurinn er akkúrat nógu stór til að þar myndist góð stemning, fólk vill geta tillt sér niður og notið góðra veitinga, en svo má færa til borð og dansa og tjútta og þannig var það í fyrra, aðeins settlegt fyrir hlé en svo munaði litlu að þakið færi af húsinu eftir hlé!,“ segir Hanni og bætir við að þeirra draumur sé að koma árlega eins og lóan og syngja inn sumarið á Selfossi um hvítasunnuna.

Að lokum vilja þeir hvetja sem flest til að tryggja sér miða sem fyrst og taka þátt í vorgleðinni með þeim. Það er uppselt á laugardagskvöld en lausir miðar á föstu- og sunnudagskvöld. Miðasala fer fram á svidid.is.

Ljósmynd: Mummi Lú.

Nýjar fréttir