1.7 C
Selfoss

Niðurstaða ársreiknings um 100 m. kr. betri en gert var ráð fyrir

Vinsælast

Niðurstaða ársreiknings samstæðu A og B hluta fyrir árið 2023 er jákvæð sem nemur 122,9 m.k. en fjárhagsáætlun með viðaukum gerði ráð fyrir 27,2 m.kr í rekstrarafgang frá samstæðu. Rekstrarafkoma A hluta er jákvæð um 108 m.kr sem er einnig vel umfram það sem vonir stóðu til í fjárhagsáætlun en hún með seinni tíma viðaukum gerði ráð fyrir 46,8 m.kr. hagnaði af rekstri.

Veltufé 19,5% af heildartekjum

Veltufé frá rekstri A og B hluta nam um 350 m.kr. eða ríflega 19,5 % af heildartekjum. Handbært fé frá rekstri var 241 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir 193,2 m.kr.. Veltufé samstæðu frá rekstri í hlutfalli við afborganir skulda og skuldbindingar er 2,64. Langtímaskuldir í hlutfalli við veltufé frá rekstri mælt í árum er 4,92 sem einnig er góð niðurstaða. 

Fjárfest í innviðum til framtíðar

Fjárfestingar á árinu 2023 námu 572 m.kr. Helstu fjárfestingar ársins fólust í kaupum á neðri hæð Hrunamannavegar 3, endurnýjun á þaki og efri hæð grunnskólans, vatnstankur á Berghylsfjalli var kláraður, lögð var vatnsveita frá Garðastíg og að Iðjuslóð og framkvæmdir voru bæði í gatnagerð og veitum í Fannborgar- og Kerlingartanga. Aðrar fjárfestingar voru smærri í sniðum.

Skuldahlutfall samstæðu nemur 64,7%

Afborganir langtímalána námu 98,5 m.kr. og tekin ný langtímalán voru 360 m.kr. Í árslok er hlutfall skulda A hluta sveitarsjóðs af tekjum að frádregnum lífeyrisskuldbindingum sem falla til eftir 15 ár eða síðar 52,2% sem er langt undir skuldaþakinu svokallaða sem gerir þær kröfur til sveitarfélaga að skuldir þeirra skuli ekki fara yfir 150%. Rétt er þó að geta þess að fjármálareglursveitarfélaga hafa verið afnumdar vegna heimsfaraldurs Covid-19 til ársins 2025. Skuldahlutfall samstæðu A og B hluta er 64,7% sem einnig er langt frá leyfilegu hámarki sem er ánægjulegt.

Það er bjart framundan

Í ljósi niðurstaðna ársreiknings ársins 2023 er full ástæða til bjartsýni þegar horft er til framtíðar. Hér er hafin kröftug uppbygging íbúðarhúsnæðis, öllum lóðum sem komið hafa til úthlutunar hefur verið úthlutað og aðilar í atvinnurekstri horfa til Hrunamannahrepps sem álitlegs kosts hvað uppbyggingu varðar enda eru innviðir hér sterkir á mörgum sviðum.

Á fundi sveitarstjórnar voru stjórnendum og starfsmönnum öllum færðar bestu þakkir fyrir framlag þeirra til ábyrgs rekstrar og góðrar þjónustu. Sveitarstjórn þakkaði einnig endurskoðendum og skrifstofustjóra fyrir góða vinnu við gerð ársreiknings sem og  raust og ánægjulegt samstarf sveitarstjórnarmanna allra. Slíkt samstarf er dýrmætt fyrir íbúa alla.

Aldís Hafsteinsdóttir
Sveitarstjóri

Nýjar fréttir