-1.5 C
Selfoss

„Kaldhæðnislegt að við séum búin að liggja á þessu vatni allan tímann“

Vinsælast

Í byrjun mars fannst heitt vatn í rannsóknarborholu Selfossveitna við bakka Ölfusár. Síðastliðinn fimmtudag fékkst það svo staðfest að vatnið sem fannst væri í vinnanlegu magni, sem að líkindum verður hægt að veita inn á kerfi Selfyssinga eftir rúmt ár.

„Þetta eru virkilega jákvæðar fréttir. Það hefur verið langt ferli fyrir okkur að rannsaka þetta svæði og loksins er það að skila árangri. Við erum búin að bora þó nokkrar holur á þessu svæði, þar með talið við Tryggvaskála. Jarðvísindamenn vildu að holan, SE-45, yrði boruð á þessum stað, en hún er að skila 15-20 lítrum af 70 gráðu heitu vatni á sekúndu sem er mjög jákvætt og er virkilega góð aukning fyrir uppbyggingu á svæðinu, þó að við megum ekkert við því að slaka á í leitinni að heitu vatni,“ segir Sveinn Ægir Birgisson, formaður í eigna- og veitunefndar Árborgar í samtali við DFS.is.

Framkvæmdir meðfram árbakkanum

Framundan stendur til að bora næstu holu við Sóltún á Selfossi, þar sem nýr borpallur hefur verið reistur og nú er unnið að því að færa öll tæki og tól yfir að þeirri holu, en framkvæmdum við árbakkann sé hvergi nærri lokið. „Nú erum við að fara í framkvæmdir meðfram árbakkanum, leggja nýja lögn úr holunni sunnan við sláturhúsið, þar sem við fundum vatn í í fyrra. Það er verið að klára að leggja lögnina frá þeirri holu, út að brú, og við erum búin að rýmka lagnirnar undir brúna og við tekur nú að leggja nýjar lagnir frá brúnni, út að kirkju og þaðan inn að eyravegi, að tónlistarskólanum,“ bætir Sveinn Ægir við.

Rúmt ár í að vatnið komist inn á kerfið

Sveinn Ægir segir að næstu skref við nýju holuna séu að festa kaup á dælum og tólum, ásamt byggingu dæluhúss. „Svo þetta vatn mun ekki koma inn á kerfið fyrr en í fyrsta lagi eftir rúmt ár. Það þarf fyrst að prufukeyra og keyra holuna, það tekur tíma að fá dælur, hanna húsið og byggja, svo við erum að horfa til þess að þetta vatn komist inn á kerfið í fyrsta lagi um mitt sumar eða snemma um haustið 2025. Þegar nýja holan verður svo tekin í gagnið verða ekki nema 5-10 metrar í lögnina frá holunni. Það er frábært að okkur hafi tekist að finna jarðhita innanbæjar á Selfossi og kannski kaldhæðnislegt að við séum búin að liggja á þessu vatni allan tímann en virkilega jákvætt að það sé loks komið í réttan farveg.“

Árbakkinn framkvæmdasvæði næsta árið eða svo

Þá segir Sveinn Ægir að vitað mál sé að árbakkinn sé vinsæll áningarstaður heimafólks og gesta, sem venji gjarnan komur sínar þangað til að hvílast og njóta í fallegri náttúrunni. „Þetta er sömuleiðis innkeyrslan inn í bæinn og því ágætt að taka það fram að þetta verður framkvæmdasvæði næsta árið eða svo, á meðan það er verið að leggja nýja lögn, allavega í sumar og svo þegar dæluhúsið verður byggt. Að því loknu verður gengið frá svæðinu þannig að það verði eins og það er í dag, nema það bætist við dæluhús, sem verður hannað þannig að það falli sem best að umhverfinu og með það fyrir hugsjónum að sómi verði af að framkvæmdum loknum.“

Nýjar fréttir