-7.8 C
Selfoss

Sextíu konur úr 22 félögum sóttu ársfund SSK

Vinsælast

Ársfundur Sambands sunnlenskra kvenna fór fram á Laugalandi  í Holtum 20. apríl sl. í fallegri umgjörð og umsjón Kvf. Einingar í Holtum og Lóu í Landsveit. Fundinn sóttu 60 konur úr 22 kvenfélögum. Að venju hófst fundurinn með helgistund í kirkju og var Hagakirkja fyrir valinu, lagði sr. Halldóra Þorvarðardóttir okkur falleg orð til umhugsunar og var það góð byrjun fyrir fundahöld dagsins.  Í skýrslu formanns SSK kom fram að vinnustundir í kvenfélögunum og stjórn SSK á árinu 2023 voru skráðar 1.398 dagsverk.  Gjafir frá kvenfélögunum í SSK námu 16.832.848 krónum og úr Sjúkrahússjóði SSK voru gefnar gjafir fyrir 2.232.747 krónur, en fjármunir í Sjúkrahússjóðinn fást með sölu gjafakorta.  Heildargjafir frá kvenfélögunum og SSK voru 19.065.595 á árinu 2023. Á fundinum var tilnefnd kvenfélagskona ársins 2023 og í ár var það Jóna Heiðbjört Valdimarsdóttir, félagskona í  Kvf. Einingu í Holtum. Í rökstuðningi sem fylgdi tilnefningunni segir “ Líkt og svo margar kvenfélagskonur er Jóna ekki sú sem tranar sér fram eða fer í fylkingarbrjósti í félagsmálum en hún er ein af kjölfestum okkar kvenfélags, alltaf jákvæð og boðin og búin að taka þátt og vera með. Hún er gersemi og okkur ómetanleg“. 

Á fundinum urðu breytingar í stjórn, en úr stjórn gekk Helga Baldursdóttir gjaldkeri, Kvf. Hraungerðishrepps, í hennar stað var kjörin Andrea Rafnar í Kvf. Biskupstungna, aðrar í stjórn eru Jóhanna Lilja Þrúðmarsdóttir ritari, Kvf. Sigurvon, Sólveig Þórðardóttir formaður, Kvf. Villingaholtshrepps, í varastjórn eru Margrét Guðjónsdóttir Kvf. Einingu í Hvolhreppi, Arndís Fannberg Kvf. Einingu í Holtum og Jórunn H Jónsdóttir Kvf. Selfoss. Á ári hverju, fyrir ársfund gefur SSK út Ársrit, þar sem eru skýrsla stjórnar, reikningar, greinar og fróðleikur og eins og sést í því þá fer fram mjög blómlegt starf hjá öllum kvenfélögunum 25 í Árnes- og Rangárvallasýslum og er engan bilbug að finna á kvenfélagskonum. Góð kvenfélagskona er gulli betri.

F.h. stjórnar Sambands sunnlenskra kvenna,
Sólveig Þórðardóttir

Nýjar fréttir