-3.2 C
Selfoss

Bækur eru hugarspuni um fegurð hins smáa og fögnuð lífsins

Vinsælast

…segir lestrarhesturinn Ásta Sverrisdóttir

Ásta Sverrisdóttir er uppalin á Ljótarstöðum í Skaftártungu og var síðan bóndi í Ytri Ásum í sömu sveit í þrjátíu og þrjú ár. Síðastliðin tíu ár hefur hún búið á Selfossi og er verkamaður í Mjólkursamsölunni. Hún á þrjá syni og sjö barnabörn.

Hvaða bók bækur ertu að lesa núna?

Ég er að lesa nokkrar bækur sem liggja í hrúgum á náttborðinu og víðar þar sem ég get gripið til þeirra. Ef ég get sest ég út í sólskinið og vel þá gjarnan ljóðabók til lestrar. Síðast las ég bók eftir Þorstein Jóhannsson kennara og skólastjóra í Öræfasveit sem heitir Undir breðans fjöllum. Málfarið og skáldataktarnir eru svo frjóir og bókin svo aðdáunarverð. Þá áskotnaðist mér líka ljóðabók eftir Guðmund Friðjónsson á Sandi. Hún heitir Úr heimahögum og gefin út árið 1902. Hún er merkt á saurblaði með nafni Friðfríðar Símonardóttur sem var eini afkomandi Símonar Dalaskálds. Og svo hef ég verið að lesa Ferðasögu Vigfúsar Grænlandsfara þar sem hann segir frá leiðangri sínum með kapteini J.P. Koch. Draumaráðningabók og dagbækur frá fyrri árum eru líka í hrúgunum.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Ég er næstum því alæta á bækur. Undanskil aðeins spennusögur en upp úr þeim er ég löngu vaxin, og ævisögur stjórnmálamanna og sögur af stríðsrekstri eru með því lesefni sem ég nýti varla í neyð. En aðrar svaðilfarir og sigrar og ósigrar venjulegs fólks vekja áhuga minn. Sagnaþættir, annálar sendibréf, dagbækur venjulegs fólks. Jarðfræði, veðurfræði og skýrslur um uppgröft og fornminjar. Það er sko matur að mínu mati.

Ertu alin upp við bóklestur?

Ég man ekki eftir mér fyrr en ég gat lesið. Það var lesið fyrir okkur systur á kvöldin en þær bækur var ég búin að lesa sjálf áður og ég naut þess bara betur þegar mamma las þær upphátt. Það var líka alltaf hlustað á útvarpssöguna á kvöldin. Dularfullu bækurnar eftir Enid Blyton, Frank og Jói, Tom Swift, Sagan hans Hjalti litla, sögurnar um Öddu og Múmínálfarnir segja allar frá hetjum og fyrirmyndum mínum fyrir skólaaldur. Og svo lærðum við utan að ljóðin hans Davíðs Stefánssonar og Hundrað hestavísur. Svo held ég að ég hafi bara lesið það sem var til á heimilinu og seinna allt bókasafnið í Kirkjubæjarskóla.

Einhver uppáhaldsverk?

Kristrún frá Hamravík eftir Guðmund G. Hagalín er eftirminnilegt verk og skáldverk Guðrúnar frá Lundi slóu í gegn á bæjunum. Góði dátinn Sveik, Jakob ærlegur, ýmsar Vesturfarasögur, Eiríkur Hansson eftir Jóhann Magnús Bjarnason og um fermingaraldurinn las ég líka spennusögur eftir Sven Hazel og Alistair MacLean. Það eru einu bækurnar sem ég hef alveg misst áhugann í dag. Rauðu ástarsögurnar voru líka spennandi þá en hafa þokað fyrir íslenskum fróðleik í seinni tíð. Bókaröðin sem kallaðsist Lönd og lýðir er eftirminnilegur lestur frá barnaskólaárunum.

En áttu þér uppáhaldshöfunda?

Já ég á marga uppáhaldshöfunda. Nú um stundir er Guðmundur Böðvarsson mitt uppáhalds ljóðskáld. Ég ætla að láta lesa ljóð eftir hann yfir mér látinni. Það heitir Gamall sálmur um sólina. En af nútímaljóðskáldum eru Kristín Jónsdóttir á Hlíð og Gunnar Straumland fremst meðal jafningja. Af núlifandi höfundum eru það Steinunn Sigurðardóttir og Kristín Marja Baldursdóttir sem eru uppáhaldshöfundar mínir þessa dagana. Annars eru þeir endalaust margir. Við Íslendingar erum svo rík af skáldum eins og svo mörgu öðru.

Hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Ég tek öðru hverju fram ljóðabækurnar mínar sem ég kann sumar hverjar næstum því utan að og les þær spjaldanna á milli. Það nærir sálina einhvern veginn meira en að lesa nýtt. En svo fletti ég upp í Sunnlenskum byggðum, Vestur – Skaftfellingum og Göngum og réttum. Er mjög fljót að finna það sem ég leita að og les þá oft lengi í þeim bókum. Síðan rifja ég kannski upp hvaða bækur ég sá auglýstar fyrir síðust eða þar síðustu jól en gleymdi alveg að lesa. Fer þá á safnið og les þær. Svo er líka gott að horfa reglulega yfir bókahillurnar sínar og lesa á kilina. Þar ríkir skipulagt kaos ef svo mætti segja og inn á milli leynist margur gullmoli til að gæða sér á.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Já það hefur nú oft gerst. En er sjaldgæfara í seinni tíð. Ég viðurkenni það. Sumar bækur hafa þau áhrif á mann að maður verður einhvern veginn ekki samur á eftir. Það er ein mín mesta gæfa að geta hrifist svo af orðsins list.

Hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Mér hefur dottið í hug þegar ég gerist öldruð að fara á ritlistarnámskeið, safna heimildum og skrifa sögur byggðar á lífi og örlagaflækjum fólks sem var uppi fyrir svona einni öld. En ég myndi sennilega frekar skrifa litlar væmnar ljóðabækur með fallegum blóma – og fuglamyndum. Svona hugarspuna um fegurð hins smáa og fögnuð lífsins.

Nýjar fréttir