-8.3 C
Selfoss

Í fyrsta sinn á Stóra sviði Borgarleikhússins

Vinsælast

Nemendasýning Dansakademíunnar var haldin hátíðlega síðastliðinn laugardag, þann 28.apríl, nú í fyrsta sinn á Stóra sviði Borgarleikhússins. Sýningin var þriðja nemendasýning dansskólans sem var stofnaður árið 2021, en árin 2022 og 2023 voru sýningarnar haldnar í íþróttahúsi Sunnulækjarskóla.

Þema sýningarinnar var sirkús og fengu nemendur margvísleg hlutverk til að túlka og tjá í gegnum listdansformið, allt frá krúttlegum sirkúsdýrum yfir í sokkabrúðuleikara og sterkustu krakka Íslands. Dansgleði og hamingja skein úr hverju andliti á Stóra sviðinu og það leyndi sér ekki hve mikil vinna var lögð í að gera upplifunina sem skemmtilegasta, bæði fyrir dansara og áhorfendur og sátu ófáir í salnum með augun full af tárum á sýningunni sem á allan hátt mætti fullyrða að hafi verið stórbrotin.

Ljósmynd: DFS.is/HGL.

210 nemendur um allt Suðurland

Stjórnendur Dansakademíunnar, systurnar Ástrós og Gerður Guðjónsdætur, hafa unnið hörðum höndum síðustu ár að fjölga tækifærum fyrir sunnlenska krakka í sviðslistum og var þessi sýning stórt skref í áttina að þeirra markmiði. „Okkur þykir afar dýrmætt að geta veitt nemendum okkar sambærilegt dansnám og tækifæri við það sem er í boði á landsvísu. Nemendur Dansakademíunnar eru nú um 210 talsins og koma frá Árborg, Hveragerði, Þorlákshöfn, Hellu, Laugarvatni og víða annars staðar. Allir deila nemendurnir sameiginlegum áhuga á danslistinni, sama hvaðan þau koma, og hafa skapast falleg vináttubönd innan veggja Danskademíunnar. Það eitt og sér er einstaklega dýrmætt burtséð frá því hvað krakkarnir eru flinkir og flottir í dansinum,“ segja systurnar í samtali við DFS.is.

Á döfinni hjá Dansakademíunni eru þrjú spennandi sviðslistanámskeið í leiklist, acro- og jazzdansi, í maí og júní. „Þar geta áhugasamir krakkar fengið smjörþefinn af starfsemi skólans á stuttum tveggja vikna námskeiðum. Í júní mun svo Afrekshópur Dansakademíunnar halda út í æfinga- og keppnisferð á heimsmeistaramótið í listdansi í Prague, Dance World Cup,“ bæta þær við, en hægt verður að fylgjast með ævintýrinu á Instagram reikningi þeirra: @teamdansakademian.

Það er bersýnilegt hve margir ungir og efnilegir dansarar eru hér á Suðurlandi og framtíðin er augljóslega björt og spennandi hjá Dansakademíunni.

Að lokum vilja Ástrós og Gerður koma á framfæri kærum þökkum til allra þeirra sem komu að nemendasýningunni, starfsfólki, nemendum og foreldrum.

Meðfylgjandi myndir tók Helga Guðrún Lárusdóttir.

Nýjar fréttir