-3.4 C
Selfoss

Guðbjörg er nýr framkvæmdastjóri Set ehf.

Vinsælast

Fjölskyldufyrirtækið Set ehf. á Selfossi, sem sérhæfir sig í fjölbreyttri starfsemi á lagnasviði, hefur verið sett í söluferli, líkt og fram kom í frétt sem birtist í Dagskránni í febrúar.

Fyrirtækið velti um 5 milljörðum króna í fyrra en samanlög velta félagsins með framleiðslufyrirtækinu Set Pipes GmbH í Þýskalandi og söluskrifstofu Set Pipes AS í Danmörku var 7,5 milljarðar. Umfangsmikil og fjölbreytt starfsemi á lagnasviði er megin starfsemi Set ehf.

„Eftir áratuga farsælt starf hjá fyrirtækinu hefur Bergsteinn Einarsson framkvæmdastjóri ákveðið að stíga til hliðar og einbeita sér að söluferli fyrirtækisins. Undir forystu Bergsteins hefur velta fyrirtækisins aukist og fyrirtækið fest sig í sessi sem leiðandi aðili í framleiðslu og sölu á lagnaefni á Íslandi, en félagið starfrækir einnig framleiðslufyrirtæki í Þýskalandi og söluskrifstofu í Danmörku,“ segir í tilkynningu frá Set ehf.

Stjórn Set ehf. hefur ráðið Guðbjörgu Sæunni Friðriksdóttur sem nýjan framkvæmdastjóra Set ehf. Guðbjörg Sæunn hefur viðamikla reynslu úr atvinnulífinu, síðast sem forstjóri Einingaverksmiðjunar. Guðbjörg Sæunn mun hefja störf í sumar.

„Mikil vaxtartækifæri“

„Ég hlakka til að taka við framkvæmdastjórarstarfinu hjá Set af Bergsteini eftir farsæla stjórnartíð hans, þar sem fyrirtækið hefur stækkað og styrkst ár eftir ár. Fyrirtækið er mikilvægt í innviðum Íslands og hefur mikil vaxtartækifæri,“ segir Guðbjörg Sæunn.

Guðbjörg er menntaður iðnaðarverkfræðingur frá Háskóla Íslands en Bergsteinn mun verða henni til ráðgjafar, eftir því sem óskað verður eftir, og mun stýra Set Pipes GmbH í Þýskalandi fram yfir söluferli félagsins ytra.

„Að baki er langur tími uppbyggingar og það hefur verið gefandi og mitt helsta áhugamál að leiða fyrirtækið alla starfsævina. Nú er komið að tímamótum, fjölskyldufyrirtækið komið í söluferli og því réttur tími til að skipta um forystu í brúnni,“ segir Bergsteinn sem mun láta af störfum í sumar.

Nýjar fréttir